Allir eru jafnir fyrir lögunum

Dramatík og æsifréttamennska í kringum Baugsmálið svokallaða má ekki glepja mönnum sýn á aðalatriði málsins. Hinn mikli vöxtur og sá gífurlegi hraði sem einkennir nútímaviðskipti getur ekki, og má ekki, verða afsökun fyrir því að ekki sé fylgt settum reglum. Viðskiptalífið og fyrirtækin sjálf eiga mest undir því að lög og reglur séu virtar.

Stjórn Baugs. Myndin er af heimasíðu félagsins, www.baugur.is.

Á undanförnum hefur íslenskt viðskiptalíf tekið algjörum stakkaskiptum. Í kjölfar umbreytinga á fjármálamarkaði hafa kraftar einkaframtaksins fengið að njóta sín og óhætt er að fullyrða að íslensk fyrirtæki, sem og íslenskt efnahagslíf í heild sinni, hafa sjaldan eða aldrei verið eins þróttmikil.

Þótt almenn hagsæld hafi aukist mjög á þessu tímabili, hefur vöxturinn einstakra fyrirtækja verið mun meiri. Verðmæti og stærð einstakra fyrirtækja hefur margfaldast á síðustu árum. Þegar uppbyggingin er jafn hröð og raun ber vitni – svo hröð að því má einna helst líkja við sprengingu – er sú hætta ávallt fyrir hendi að ekki sé gætt ítrustu varkárni. En í hröðum heimi viðskiptanna er það að hika sama og að tapa. Til allrar hamingju fyrir hluthafa í þessum öflugustu fyrirtækjum landsins hefur sú áhætta, sem stjórnendur þeirra hafa tekið, borgað sig í flestum tilvikum. Undantekningalítið hafa fjárfestar í þessum fyrirtækjum hagnast vel – sumir gríðarlega.

En hinn mikli vöxtur og sá gífurlegi hraði sem einkennir nútímaviðskipti getur ekki, og má ekki, verða afsökun fyrir því að ekki sé fylgt settum reglum. Þótt í ýmsu megi segja að atvinnulífinu séu ennþá of þröngur stakkur sniðinn með hvers kyns reglusetningu, þá er óvíða á byggðu bóli jafn auðvelt að eiga viðskipti og á Íslandi. Þær reglur sem um viðskiptalífið gilda eru ekki í þágu stjórnmálamanna sem vilja hafa tök á viðskiptalífinu. Þær eru ekki í þágu þeirra sem helst vilja hverfa aftur til hafta- og áætlunarbúskapar. Þær eru ekki í þágu embættismanna eða lögregluyfirvalda. Þær eru nefnilega fyrst og fremst í þágu viðskiptalífsins sjálfs.

Það er engin tilviljun að aðilar á borð við Verslunarráð Íslands hafa á undanförnum misserum lagt mikla áherslu á að efla vitund manna í viðskiptalífinu um nauðsyn góðra stjórnunarhátta. Verslun og viðskipti eiga allt sitt undir trúverðugleika og tiltrú. Góðar hugmyndir, dirfska og kraftur eru öfl sem drifið hafa íslenskt athafnalíf áfram síðustu árin og átt mestan þátt í þeirri umbyltingu sem orðið hefur. En án trúverðugleika og trausts hrökkva þessir þættir skammt.

Í gær var þingfest dómsmál í héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stjórnendum og endurskoðendum í einu stærsta fyrirtæki landsins. Vöxtur og viðgangur Baugs Group hf. síðustu misseri er um margt dæmigerður fyrir þá umbyltingu sem um er fjallað að ofan. Ekki eru ýkja mörg ár síðan forsvarsmenn fyrirtækisins opnuðu sína fyrstu matvörsluverslun. Nú er Baugur risafyrirtæki og aðsópsmikið, jafnvel á erlendum mörkuðum. Hinir ákærðu í Baugsmálinu hafa starfað fyrir Baug frá stofnun félagsins og eiga óumdeilanlega stóran þátt í velgengni þess. Um ákærurnar hefur verið mikið fjallað í fjölmiðlum og óþarft að rekja þær, en þær snúast í grófum dráttum um að þessir stjórnendur hafi í störfum sínum fyrir Baug Group hf. brotið gegn hagsmunum félagsins og þar með gerst brotlegir við íslensk lög.

Fyllsta ástæða er til að gefa þessu máli gaum. Ef í ljós kemur að lög og reglur hafi verið brotnar, verða hinir ákærðu að sæta ábyrgð. Skiptir þar engu hvort félagið hafi verið hraðri uppleið eða ekki. Það er nefnilega ástæða fyrir því að menn eru ákærðir fyrir brot á reglum um hámarkshraða á vegum landsins, þótt slíkur akstur hafi ekki orsakað slys eða tjón. Reglurnar þjóna þeim tilgangi að koma í veg fyrir að tjón hljótist af slíkum akstri og þær hafa þannig varnaðaráhrif. Sama gildir um þær reglur sem atvinnulífinu eru settar.

Um þetta snýst Baugsmálið.

Baugsmálið utan réttar

Því miður er það hins vegar svo, að Baugsmálið er ekki bara dómsmál og því ekki einungis bundið við réttarsalinn. Hinir ákærðu hafa haldið því fram að æðstu ráðamenn þjóðarinnar hafi hlutast til um það með óeðlilegum hætti að rannsókn yrði hafin á hinum meintu brotum þeirra sem nú hefur leitt til ákæru. Þetta eru auðvitað gríðarlega alvarlegar ásakanir. Séu þessar ásakanir eitthvað annað en tilhæfulausar, þá er um að ræða háttsemi sem er mun glæpsamlegri en sú sem stjórnendur Baugs eru ákærðir fyrir.

Hins vegar hafa ekki verið færð nein haldbær rök fyrir þessum ásökunum. Kenningar hafa verið settar fram um að rannsóknin á meintum brotum hinna ákærðu sé runnin undan rifjum núverandi utanríkisráðherra. Þær kenningar eru hins vegar nákvæmlega bara það – kenningar. Þrátt fyrir að utanríkisráðherra hafi á þeim tíma er hann gegndi embætti forsætisráðherra, varað við auknum áhrifum Baugs í íslensku samfélagi og átt í orðahnippingum við stjórnendur félagsins, þá er ekki þar með sagt að valdheimildum ríkisins hafi verið beitt í þeim efnum. Raunar væri það andstætt öllu því sem viðkomandi stjórnmálamaður og flokkur hans hafa staðið fyrir – nefnilega því að draga úr valdheimildum ríkisins og gera samfélagið, einkum atvinnulífið, óháðara duttlungum stjórnmálamanna. Vöxtur og viðgangur Baugs Group og annarra fyrirtækja hefði verið óhugsandi ef ekki hefði verið fyrir innreið frjálsræðis og frjálshyggju í íslenskt samfélag á 10. áratug síðustu aldar.

Því má vissulega halda fram að væringar milli fyrrverandi forsætisráðherra og forsvarsmanna Baugs Group séu óheppilegar í því ljósi að hinir síðarnefndu sæta nú ákærum fyrir íslenskum dómstólum. Erlendir fjölmiðlar og einstakir þingmenn Samfylkingarinnar hafa velt sér mikið upp úr þessum þætti málsins og notað orð eins og bananalýðveldi í því sambandi. Slíkur samanburður við ríki, þar sem stjórnarfar er í senn frumstætt og gjörspillt, er ekki sæmandi, jafnvel ekki fyrir þessa tilteknu þingmenn.

Baugsmálið og fjölmiðlalögin

Margir falla í þá gryfju að tengja saman Baugsmálið og fjölmiðlamálið svokallaða, sem tröllreið íslensku samfélagið í fyrra. Það má vera að einhverjir hafi verið andsnúnir fjölmiðlafrumvarpinu og síðar fjölmiðlalögunum af umhyggju fyrir Baugi og þeir telji sér af sömu hvötum skylt að andmæla lögreglurannsókn og ákæru á hendur félaginu nú. Sá sem þetta skrifar var og er andsnúinn fjölmiðlalögunum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2004. Sú afstaða byggðist fyrst og fremst á því, að afskipti ríkisins og höft á fjölmiðlarekstur væru ekki rétta meðalið til að koma í veg fyrir fábreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Nú þykjast ýmsir þeir sem töluðu gegn fjölmiðlalögunum hafa séð ljósið eftir að Fréttablaðið birti yfirlesnar skýringar lögmanna hinna ákærðu í Baugsmálinu. Hefur því verið haldið fram að þetta sýni að fjölmiðlalögin áttu rétt á sér. Sú fullyrðing stenst ekki. Ef Fréttablaðið hagar sér sem málgagn eigenda sinna, þá missir það trúverðugleika og tiltrú almennings. Þar með dregur úr vægi blaðsins og það yrði lítið annað en auglýsingapóstur með fréttaþætti sem enginn tæki mark á. Lestur Fréttablaðsins hlýtur að byggja á því að lesendur hafi tiltrú á blaðinu. Ef tiltrúin hrynur, þá hlýtur lesturinn að gera það einnig. Þá liggur beint við fyrir eigendur blaðsins að dreifa bara auglýsingabæklingum og hætta rekstri á rándýrri ritstjórn. Nema auðvitað að menn vilji fjármagna málgagn sem lesið er með þeim fyrirvara – og það hefur hingað til ekki verið bannað henda peningunum sínum í vitleysu. Markaðurinn er þannig best fallinn til þess að stuðla að heilbrigðri og fjölbreyttri fjölmiðlaflóru – ekki boð og bönn hins opinbera. Á þessu byggðist afstaða þeirra sem af einhverjum skynsamlegum og heiðarlegum hvötum voru andstæðingar fjölmiðlalaganna.

Saklausir uns sekt er sönnuð

Það er dómstólanna að skera úr um hvort stjórnendur Baugs hafi gerst sekir um þau atriði er greinir í ákæru á hendur þeim. Allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og það er engum í hag að þetta mál sé rekið í fjölmiðlum. Taka má undir með þeim sem bent hafa á að sú umfjöllun sem einkennt hefur málið til þessa sé til þess fallin að skaða hagsmuni viðskiptalífsins, einkum og sér í lagi erlendis, að minnsta kosti til skemmri tíma litið.

Hinir ákærðu í Baugsmálinu hafa ítrekað haldið fram sakleysi sínu og sagst munu leggja fram gögn sem sanni að þeir hafi ekki gerst brotlegir við lög. Þeirra vegna er vonandi að svo sé. Rannsókn málsins og ákærurnar hafa skaðað trúverðuleika félagsins og forsvarsmanna þess og því væri það grafalvarlegt ef máltilbúnaður ákæruvaldsins reyndist tilhæfulaus með öllu. Mikið vatn mun renna til sjávar áður en endanleg niðurstaða fæst í dómsmálinu og vafalítið verður deilt um niðurstöðuna, á hvorn veginn sem hún verður.

Því hefur verið haldið fram af forsvarsmönnum Baugs að sú háttsemi sem þeir eru ákærðir fyrir viðgangist víða í viðskiptalífinu. Þótt það leiði vitaskuld ekki til þess að meint brot þeirra séu minna ámælisverð, þá hljóta þessi ummæli að vekja upp þarfa umræðu um stjórnarhætti í íslenskum fyrirtækjum. Ætla má að þau fyrirtæki sem vaxið hafa með ógnarhraða síðustu misseri séu nú orðin nægilega öflug til að gefa stjórnarháttum sínum ríkari gaum. Og auðvitað gildir það sama um minni fyrirtæki. Eins og áður segir, þá á enginn meira undir því en viðskiptalífið í heild sinni að farið sé að settum lögum og reglum og stjórnarhættir fyrirtækja séu eins og best verður á kosið. Þannig verður hinn mikli vöxtur og velgengni íslenskra fyrirtækja á síðustu misserum tryggð til frambúðar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.