Afleiðingar eftirlits

Flestir taka hertum eftirlitsaðgerðum gegn hryðjuverkamönnum og öðrum misyndismönnum fagnandi. Tækni sem auðveldar þetta eftirlit er í stöðugri þróun á rannsóknarstofum um allan heim. En aukið eftirlit er ekki án aukaverkana fyrir almenning og spurningin er hversu langt skal ganga í þeim efnum.

Í kjölfar hryðjuverkanna í London í síðasta mánuði hefur umræðan um hvers konar forvarna er hægt að grípa til gegn þess háttar atburðum aftur komist í hámæli. Það er ljóst að eftir atburðina í Bandaríkjunum 11. september 2001 jókst sýnilegt eftirlit verulega til viðbótar við þau ósýnilegu eða “leynilegu” eftirlitskerfi sem mörg ríki starfrækja. Nú þegar ró almennings í vestrænum samfélögum er raskað á nýjan leik er ljóst að mikil pressa hvílir á stjórnvöldum víða um lönd að fullvissa borgarana (eða gera tilraun til þess) um að eftirlitskerfi þeirra sé virkt og þau séu í stakk búin til að bregðast við af auknum þunga og með hertari aðgerðum. Það er hins vegar ljóst að auknar forvarnir, sem fyrst og fremst felast í hertu eftirliti, eru ekki án hliðarverkana fyrir þegnana.

Í nýlegri grein í tímaritinu Business Week er stiklað á stóru í því hvers konar tæki og tól eru í deiglunni hjá fyrirtækjum sem vinna að þróun eftirlits- og greiningarbúnaðar. Á sama tíma og ljóst er að mörg þessara tækja eru vel til þess fallin að auðvelda og bæta eftirlit með hryðjuverkamönnum og öðrum misyndismönnum, þá er ljóst að hættan á að viðkvæmar upplýsingar um almenna borgara komist í rangar hendur eykst að sama skapi. Þeim mun öflugri og ítarlegri sem eftirlitskerfin verða þeim mun meiri mannskap þarf til þess að vinna úr þeim gögnum sem safnað er, þó vissulega séu sum þessara kerfa sjálfvirk. Væntanlega er persónuleynd ekki algjörlega virt að vettugi í þeim gagnabönkum sem til verða en þrátt fyrir það er ljóst að þeim mun fleiri sem hafa aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum þeim mum meiri er hættan á að hægt sé að misnota þessar upplýsingar.

Það er því ein af grundvallarspurningunum sem stjórnvöld og þegnar í ríkjum heimsins þurfa að spyrja sig; hversu langt á að ganga í því eftirliti sem verið er að þróa í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hryðjuverk eða annars konar glæpi. Truflanir vegna sýnilegs eftirlits sem og eðli og magn þeirra upplýsinga sem safnað er um daglegt líf þegnanna má ekki ganga út í þær öfgar að það bitni “of mikið” á daglegu lífi þeirra. Með öðrum orðum, það má ekki ganga svo langt í því koma í veg fyrir hryðjuverk eins og við þekkjum þau í dag að það skapi grundvöll fyrir annars konar hryðjuverk – þ.e. hryðjuverk sem tengjast misnotkun á persónulegum upplýsingum um fólk. Það er ekki síður ógnvænlegt fyrir fólk að þurfa að hafa áhyggjur af því að eitt og annað sem það gerir í sýnu opinbera- eða einkalífi verði gert öllum almenningi sýnilegt (eða sé yfir höfuð skráð niður) en að hafa áhyggjur af því að verða fórnarlamb sprenginga á almennum stöðum.

Það er rétt að hafa í huga að aðgerðir yfirvalda í löndum þar sem hryðjuverk eru annað hvort landlæg eða talin vera raunveruleg ógn, þjóna ekki aðeins þeim tilgangi að torvelda misyndismönnum að fremja ódæðisverkin heldur einnig þeim að hjálpa fólki að snúa aftur til síns daglega lífs í kjölfar svona atburða. Þetta sást berlega í kjölfar Lundúnaárásanna þar sem yfirvöld í borgum víða um heim, ekki aðeins London, juku viðbúnað sinn og sýnilegt eftirlit á götum úti nánast samdægurs. Í öllum þessum aðgerðum er líklegt að aukið eftirlit muni verða á kostnað persónufrelsis fólks og til aukinna óþæginda í daglegu lífi þess. Á einhverjum tímapunkti hljótum við að koma að þeim vegamótum þar sem aukið eftirlit gerir meira ógagn en gagn í lífi almennra borgara.

Enn sem komið er höfum við á Íslandi ekki þurft að hafa mjög miklar áhyggjur af þessum málum hér á landi þó svo að vissulega gæti það breyst í einni svipan eins og gerst hefur annars staðar í heiminum. Á hinn bóginn má segja að Íslendingar sem búa erlendis í borgum eins og London hafi nú þegar kynnst því hvernig er að lifa í samfélagi þar sem hryðjuverkaógnin er raunveruleg í þeim skilningi að hryðjuverk hafa verið framin þar. Nú þegar hafa lönd eins og Danmörk verið nefnd sem hugsanleg skotmörk og að teknu tilliti til þess fjölda Íslendinga sem þar býr og þangað ferðast má ljóst vera að þessi mál eru okkur allt annað en óviðkomandi.

Að lokum vil ég benda þeim sem hafa áhuga á því að fræðast um þá tækni sem er í þróun að lesa áðurnefnda grein (“The State Of Surveillance”) í 8/15 ágúst 2005 tölublaði Business Week. Þar er meðal annars fjallað um gervinef sem finna og greina lykt, skanna sem greina æðamynstur í lófum manna og myndavélar sem þekkja þig á göngulaginu einu saman.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)