Skattrannsóknir almennings

Álagningarseðlar skattstjóra hafa legið frammi á skattstofum landsins undanfarið. Skiptar skoðanir eru um réttmæti þess að birta þessar upplýsingar um hinn almenna borgara og því vel við hæfi að líta nánar á málið.

Á venjulegum degi leggjum við það ekki í vana okkar að ganga upp að fólki og spyrja hvað það sé með í mánaðarlaun. Það er einkamál hvers og eins og eitthvað sem öðrum kemur ekkert við. Þegar fólk fær vinnu semur það við vinnuveitendur sína um mánaðarlaun og flokkast þau yfirleitt sem trúnaðarmál. En til hvers í ósköpunum að vera að semja í trúnaði þegar að Pétur og Pálína geta svo gert sér ferð á skattstofuna og tékkað á launum náungans? Eflaust eru einhverjir sem gera sér sérstaka ferð til þess að hnýsast í launakjörum náungans og í kjölfarið hanka þennan sama náunga vegna meints ósamræmis uppgefinna launa og neysluvenja, en það virðast einmitt vera veigamestu rök ríkisskattstjóra fyrir að heimila birtingu þessara upplýsinga.

Föstudaginn 29.júlí voru álagningarseðlar og skattskrár fyrir árið 2004 lagðar fram opinberlega. Skiptar skoðanir eru um ágæti þessarar birtingar og þykir undirritaðri hún óréttlát og í raun raska friðhelgi fólks og þá sérstaklega þeirra sem teknir eru fyrir á síðum DV og annarra fjölmiðla. Það sem verið er að gera opinbert með þessari birtingu á að vera persónulegt mál hvers og eins og alls ekki efni sem DV getur gert sér mat úr út árið. En hvers vegna í ósköpunum eru þessar upplýsingar gerðar opinberar og hver eru rökin fyrir því að opinbera þessar upplýsingar um hinn almenna skattgreiðanda?

Fyrir þónokkrum árum átti að tryggja almenningi kæruheimild með því að birta þetta opinberlega. Árið 1962 var hins vegar þessi kæruheimild almennings felld niður en opinberri birtingu álagningarseðlanna var haldið áfram. Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri hefur haldið því fram að ef ekki væri til staðar þessi birtingarskylda þá hefði þeim yfirsést ákveðin mál sem upp komu fyrir tilstylli opinberrar birtingar og athugasemda sem bárust í kjölfarið. Komið hefði í ljós að töluverðu fjármagni hefði verið skotið undan skatti og það hefði sjálfsagt ekki komið fram ef að almenningur hefði ekki gert athugasemd við álagningu á viðkomandi..

Ef hinn almenni borgari á áfram að vera í eftirlitshlutverki, þá hlýtur skatturinn að búast við því að Pétur og Pálína tilkynni honum um svona meint misræmi milli lífsstandards og uppgefinna tekna einstaklinga sem þau hjúin hafa augu með. Hins vegar hlýtur það alltaf að lenda á skattinum að rannsaka þessar ábendingar og ef hann hefur ekki bolmagn til þess í upphafi að sinna þessu eftirlitshlutverki, er líklegt að hann hafi þá bolmagn til þess að rannsaka allar ábendingar sem berast frá almennum borgurum?

Sú regla persónuverndar, að birting álagningarseðla sé einungis heimil í 10 daga og að eingöngu megi selja tekjublað Frjálsrar verslunar í svipaðan tíma þykir mér furðuleg. Menn mega sum sé skrifa niður upplýsingar úr þessum skrám og nota í tíma og ótíma en hitt er með öllu óheimilt. Það má velta fyrir sér hvort þessi ákvörðun persónuverndar sé sprottin úr því að ráðamenn séu ekki fyllilega sannfærðir um ágæti þessarar birtingar. Hins vegar er einkennilegt að skattrannsóknarstjóri biðli til almennings að aðstoða við að hafa uppi á skattsvikurum, en gefi almenningi aðeins rétt um tvær vikur til starfans.

Það er ljóst að almennir þegnar þessa lands eiga ekki að taka að sér þetta eftirlit. Ríkið hefur á sínum snærum fagfólk sem hefur aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þarf til þess að fylgjast grannt með skattgreiðslum borgaranna. Ef það er ekki nóg á ríkið einfaldlega að auka umsvif sín varðandi þessi mál. Það er ekki líðandi að skattsvik nokkurra komi niður á allri heildinni og að árslaun hinna og þessara aðila úr hinum og þessum stéttum sé forsíðufrétt DV dag eftir dag og viku eftir viku. Skúli og hans fólk þurfa einfaldlega að spýta í lófana.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.