Staðsettar ljósmyndir

Verkfræðingar og vísindamenn eru frekar einsleitur hópur. Oft er það ekki fyrr en tækninýjung er komin í hendurnar á notendum sem byltingarkenndustu notkunarmöguleikarnir koma í ljós. Ósjaldan finna sniðugir notendur upp á því að nota saman tvær óskyldar tækninýjungar og auka þannig gildi hvorrar um sig. Í þessari grein verður fjallað um slíkt dæmi – sambræðslu GPS staðsetningarkerfisins og stafrænnar ljósmyndatækni.

Verkfræðingar og vísindamenn eru frekar einsleitur hópur. Oft er það ekki fyrr en tækninýjung er komin í hendurnar á notendum sem byltingarkenndustu notkunarmöguleikarnir koma í ljós. Veraldarvefurinn er líklega besta dæmið um þetta, en Tim Berners-Lee, faðir vefsins, var örugglega ekki með blog og „pop-up“ auglýsingar í huga þegar hann skrifaði fyrsta vafrann. Ósjaldan finna sniðugir notendur upp á því að nota saman tvær óskyldar tækninýjungar og auka þannig gildi hvorrar um sig. Í þessari grein verður fjallað um slíkt dæmi – sambræðslu GPS staðsetningarkerfisins og stafrænnar ljósmyndatækni.

GPS staðsetningarkerfið var upphaflega hannað af bandaríska hernum til þess að stýra flugskeytum í höfuðið á illum öxuldrotnurum. Kerfið byggir á neti lágfleygra gervitungla, sem senda hárnákvæmt tímamerki til jarðarinnar. Þar sem rafsegulbylgjur ferðast með tiltölulega föstum hraða, þá getur móttakari á jörðu niðri staðsett sig með því að bera saman tímaseinkun frá nokkrum tunglum. Til allrar hamingju er GPS kerfið opið almenningi og hefur það leitt marga ringlaða rjúpnaskyttu aftur að jeppanum sínum, eftir að veiðieðlið hafði borið heilbrigða skynsemi ofurliði.

Stafrænni ljósmyndatækni hefur fleygt fram með ógnarhraða síðustu árin og er nú svo komið að hún hefur að mestu leyst hinar eldri hliðrænu filmuvélar af hólmi. Það sem helst hefur drifið sölu stafrænna myndavéla er það hversu auðvelt er að senda vinum og ættingjum afrit af myndunum, auk þess sem útilokun framköllunarskrefsins hlýtur að teljast afar stór kostur. Þar sem stafrænar ljósmyndir taka talsvert geymslupláss, samanborið við t.d. textaskrár, þá beita flestir myndavélaframleiðendur þeirri aðferð að þjappa ljósmyndunum saman. Algengasta aðferðin við að þjappa stafrænum ljósmyndum gengur undir nafninu JPEG. Myndaskrár, sem þjappaðar eru með JPEG aðferðinni, innihalda oft aukaupplýsingar um myndina, svo sem hvenær myndin var tekin, á hvaða myndavélargerð og hvaða ljósop var notað. Þegar þessum aukaupplýsingum hefur verið bætt við JPEG þjöppuðu myndina er talað um að skráin sé á EXIF formi. Það eru einmitt þessar aukaupplýsingar í EXIF skránum sem opna ýmsa nýja möguleika fyrir hugvitssama ljósmyndara.

Flest GPS tæki bjóða upp á þann möguleika að skrá jafnt og þétt staðsetningu inn í minni tækisins og geyma þannig ferðarferil (e. track). Hver staðsetningarpunktur í ferlinum hefur nákvæman tímastimpil og ef klukkan í stafrænni myndavél er rétt stillt, þá hefur hver ljósmynd einnig tímastimpil í EXIF upplýsingum sínum. Með því að bera saman tímastimpil ljósmyndanna við GPS ferilinn er hægt að finna út hvar hver ljósmynd var tekin. Ef til er kort eða loftmynd af svæðinu er svo hægt að búa til yfirlitsmynd með ferlinum og tenglum á ljósmyndirnar sem teknar voru í hverri staðsetningu. Til eru nokkur forrit sem gera þessa sambræðslu auðvelda auk þess að búa til yfirlitsmyndir með tenglum.

Frekari fróðleikur:

TopoFusion er forrit til sambræðslu GPS upplýsinga og stafrænna ljósmynda.

Grein um sambræðslu GPS og stafrænnar ljósmyndatækni.

Færsla Wikipedia um JPEG.

Færsla Wikipedia um EXIF.