Verslunarmannahelgin og réttvísin

Senn líður að mestu ferðahelgi ársins og því ekki úr vegi að staldra við og meta háttsemi ferðalanga, og annarra þeirra sem kunna að leggja land undir fót, á mælikvarða þeirra viðmiða sem samfélaginu eru sett í formi löggjafar. Þannig er nefnilega mál með vexti að hægt er að slá því föstu að á fáum tímabilum á árinu eru jafnmörg lögbrot framin og einmitt þessa helgi.

Senn líður að mestu ferðahelgi ársins og því ekki úr vegi að staldra við og meta háttsemi ferðalanga, og annarra þeirra sem kunna að leggja land undir fót, á mælikvarða þeirra viðmiða sem samfélaginu eru sett í formi löggjafar.

Þannig er nefnilega mál með vexti að hægt er að slá því föstu að á fáum tímabilum á árinu eru jafnmörg lögbrot framin og einmitt þessa helgi. Þannig er líklegt að meðaljóninn brjóti nokkra lagabókstafi um helgina. Í pistli þessum verður ljósi brugðið á þessar athyglisverðu staðreyndir.

Fyrir það fyrsta er afar líklegt að allflestir ferðalangar muni aka hraðar en hámarkshraði segir til um á þjóðvegum landsins. Þannig munu þeir brjóta gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem kveður á um að utan þéttbýlis megi ökuhraði ekki vera meiri en 80 km á klst, en þó 90 km á klst. á vegum með bundnu slitlagi.

Í öðru lagi er líklegt að allmargir ferðalangar, sérstaklega í yngri kantinum, muni brjóta gegn 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998 sem kveður á um að hver sá sem vegna ölvunar veldur óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum skuli sæta ábyrgð samkvæmt lögunum.

Í þriðja lagi verður eflaust í talsverðum mæli brotið gegn 18. gr. áfengislaga sem leggur bann við því að veita eða afhenda áfengi þeim sem ekki hefur náð 20 ára aldri.

Í fjórða lagi er líklegt að allmargir muni aka bifreiðum kenndir, sumir allverulega blekaðir, um helgina. Þannig munu þeir brjóta gegn 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem leggur bann við akstri undir áhrifum áfengis.

Í fimmta lagi er hugsanlegt að einhverjir muni brjóta gegn 1. mgr. 20. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd en þar er kveðið á um að leita skuli leyfis landeiganda eða annars rétthafa áður en tjaldað er nærri bústöðum manna eða bæ og ætíð ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur.

Í sjötta lagi er mögulegt að nokkrir muni brjóta gegn banni 17. gr. laga um náttúruvernd við akstri utan vega.

Í sjöunda lagi er hugsanlegt að einhverjir muni brjóta gegn a-lið 1. mgr. 73. gr. tékkalaga nr. 94/1933 sem gerir þá háttsemi refsiverða að gefa út tékka án þess að innistæða sé fullnægjandi á reikningi hjá greiðslubanka (svonefnda gúmmítékka).

Í áttunda lagi er því miður afar líklegt að einhverjir muni brjóta gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (nauðgun), 217. og 218. gr. sömu laga (líkamsárás) og 244. gr. laganna (þjófnaður).

Síðast en ekki síst er afar líklegt að brotið verði gegn fjölmörgum ákvæðum lögreglusamþykkta þessa lands, enda þær samþykktir tíðum smásmugulegar og ekki í takt við raunveruleikann, sbr. pistil undirritaðs frá 18. janúar 2005, „Er æskilegt að skondin ákvæði séu í lögreglusamþykktum?“. Þar eð enn einu sinni verður útihátíð á Akureyri þetta árið (svonefnd „Ein með öllu“) skal hér sérstaklega minnt á ákvæði 4. gr. lögreglusamþykktar Akureyrar, en þar er kveðið á um að þegar fjölmenni safnist saman á almannafæri, við biðstöðvar almenningsvagna, miðasölur, skemmtistaði, verslanir og aðra afgreiðslustaði á Akureyri, skuli fólk raða sér þannig að þeir, sem fyrstir koma, fái fyrst afgreiðslu. Einnig skal minnt á 10. gr. sömu samþykktar þar sem kveðið er á um að enginn megi raska friði fugla á fuglatjörnum í bænum eða annars staðar í lögsagnarumdæminu.

Miklu fleiri laga- og reglugerðarákvæði, sem líklegt er að verði fyrir barðinu á ferðalöngum um helgina, mætti nefna en látið verður kyrrt liggja. Af ofangreindu má sjá að margir kunna að fara út af braut réttvísinnar nú um helgina. Hætturnar leynast víða og margt getur misfarist. Það er því vissara að vera við öllu búinn og hafa sitt á þurru.

Pistlahöfundur leggur því til að ferðalangar bæti einu atriði við þau sem nú eru á tékklistann fyrir helgina. Á eftir prímusnum, tjaldinu, bjórkössunum, tjalddýnunum, pylsunum, sinnepinu, regngallanum, kæliboxunum, gettóblasternum, útileguklósettunum, skrifi menn laga- og reglugerðarsafn, og taki slík söfn með sér í fríið. Þannig geta menn, með mikilli yfirlegu og vandvirkni, haldið sig réttum megin laganna um helgina. Ekki er vanþörf á.

Góða helgi!

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)