„Fátækt heyri sögunni til“

Þekktar popp- og rokkstjörnur settu svip sinn á nýliðna helgi þar sem þær sungu á Live 8 tónleikum víða um heim. Á meðan marseruðu mótmælendur í Edinborg. Tilgangurinn var að vekja athygli á fátækt í Afríku.

Þekktar popp- og rokkstjörnur settu heldur betur svip sinn á nýliðna helgi þar sem þær sungu á Live 8 tónleikum samtímis víða um heim. Tilgangurinn var að vekja athygli á fátækt í Afríku og voru tónleikarnir nokkurs konar ákall til leiðtoga G-8 ríkjanna um að útrýma henni í eitt skipti fyrir öll. Live Aid tónleikarnir sem haldnir voru fyrir tuttugu árum þóttu takast frábærlega og var um 100 milljónum dollara safnað til handa bágstöddum í Afríku. Þeir eru eflaust margir sem geyma mynd af Freddy Mercury og öðrum snillingum slá í gegn á þeim tónleikum. Tónleikarnir nú um helgina eiga eflaust líka eftir að komast á spjöld sögunnar en ætlunin var að ýta á að aðstoð til Afríku verði tvöfölduð og skuldir felldar niður.

Ekki eru þó allir sannfærðir um að útrýming fátæktar í Afríku takist á næstu árum og það þurfi fleiri kynslóðir til að svo verði. Framtakið nú um helgina var þó virkilega þarft enda kominn tími til að vekja almenning um heim allan til umhugsunar á ný um ástandið í Afríku. Sviðsljósið virtist oftar beinast að álfunni og þeirri fátækt sem þar er um miðjan níunda áratuginn heldur en á seinni árum. Svo virðist sem lítið hafi áunnist og vandinn hafi aðeins vaxið.

Leiðtogar G-8 ríkjanna koma saman nú á miðvikudag til þriggja daga fundar í Edinborg til þess að ræða málefni Afríku. Meira en 200 þúsund mótmælendur voru þegar komnir til Edinborgar um helgina, en allt hafði farið friðsamlega fram enda mikil öryggisgæsla í borginni.

Fundir leiðtoga G-8 ríkjanna hafa ávallt dregið að sér fjöldann allan að mótmælendum og eru þeir jafnan þekktir áfangastaðir fyrir andstæðinga hnattvæðingarinnar. Ekki hafa mótmælin alltaf farið friðsamlega fram og skemmst er að minnast óeirðanna í Genúa á Ítalíu fyrir fjórum árum, þar sem lögregla skaut mótmælanda til bana. En á meðan mótmælin eru með friðsömum hætti er það hið besta mál að fólk safnist saman við þessa fundi til að vekja frekari athygli á málstaðnum og þrýsta á helstu ráðamenn heims að gera eitthvað í málunum. Það er ekki laust við að það fólk, sem svo verulega trúir á málstaðinn og að það geti skipt sköpum að það ferðist langar vegalengdir til þess að leggja honum lið, vekji upp aðdáun í huga undirritaðar. “Make Poverty History,” hrópaði fólk og marseraði friðsamlega í Edinborg.

Ýmsu verður áorkað ef margir leggja málefninu lið. Það sýndu svo sannarlega viðbrögð heimsbyggðarinnar við flóðunum í Asíu á annan dag jóla. Eitt er víst að erfitt verður fyrir leiðtoga helstu iðnríkja heims að hunsa þær milljónir manna sem lagt hafa sitt á lóðarskálarnar á undanförnum dögum til baráttunnar gegn fátækt í Afríku. Hver veit, kannski verður fundurinn skref í þá átt að draga úr fátæktinni – þótt án efa þurfi mikið til, og meira en bara einn fund G-8 ríkjanna, til að útrýma henni alveg.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)