Allir vegir liggja til Kevin Bacon

Þekkjast allir frægu leikararnir í Hollywood? Er hægt að tengja þá alla við Kevin Bacon í gegnum myndirnar sem þeir hafa leikið í? Kevin Bacon reglan er umfjöllunarefni þessa pistils.

Hlutirnir ganga öðruvísi fyrir sig á Íslandi en annars staðar. Viðskiptalífið, skemmtanalífið og stjórnmálin eru frábrugðin því sem annars staðar gerist. Undirritaður hefur t.d. farið í atvinnuviðtal þar sem helst var spurt að því hver pabbi hans væri. Ég hef líka flett flestum sem ég þekki upp í Íslendingabók. Sérstaklega óhugsanlegum og hugsanlegum kærustum…bara svona til að vera viss.

Því við erum jú öll skyld, og ef við erum ekki skyld, þá erum við tengd á einn eða annan hátt. Kannski þekkjumst ég og þú. Ef ekki get ég bókað það að ég þekki einhvern sem þekkir þig. Og í versta falli þekki ég einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir þig.

Þetta er einmitt kjarni fyrrnefndrar reglu, sem af einhverjum ástæðum er kennd við Kevin Bacon. Hún felst í því að hægt sé að tengja hvaða leikara sem er í gegnum myndirnar sem hann hefur leikið í, til Kevin Bacon í minna en 6 skrefum. Sem dæmi má nefna að O.J. Simpson lék í Naked Gun ásamt Priscilla Presley, sem að lék í Ford Fairlane með Gilbert Gottfried, sem að lék í Beverly Hills Cop II ásamt Paul Reiser, sem að lék í Diner með Kevin Bacon. Þetta eru fjögur skref.

Brett Tjaden

Nýlega reiknaði tölvufræðingurinn Brett Tjaden út hve mörg þessi skref eru í raun og veru. Í ljós kom að meðaltali þarf 2.948 skref til að tengja Kevin Bacon einhvern af þeim 700 þúsund leikurum eða leikkonum í gagnabanka kvikmyndasíðunnar imdb.com.

En Brett Tjaden var ekki hættur. Hann raðaði einnig öllum þeim sem leikið hafa í Hollywood upp á lista, eftir því hversu tengdir þeir væru. Þá nær Kevin Bacon ekki einu sinni inn á topp 1000. Til hliðsjónar má nefna að hægt væri að tengja Martin Sheen við hvaða leikara sem er í Hollywood í 2.721 skrefum, sem setur hann í 9. sæti. Á topp fimmtán listanum sitja m.a. Gene Hackman, Donald Sutherland og Dennis Hopper. En í fyrsta sæti var enginn annar en Rod Steiger.

Rod Steiger

Íslenska hliðstæða Kevin Bacon reglunnar er sú að allir eru skyldir í 6. lið. Það er því engin furða að við þekkjumst öll. Þessu geta þó fylgt ýmsir kostir. Það kann t.d. að vera huggulegt fara inn á einhvern skemmtistað og hitta þar vini og kunningja. En á sama tíma – eða kannski frekar síðar um kvöld getur það reynst óheppilegt þegar þessir sömu kunningjar eru vitni að einhverri vitleysu.

Svo getur þetta líka verið til ama þegar þegar mann (eða konu) langar til þess að verða formaður stjórnmálaflokks. Þá sérstaklega ef svili hennar er, eða öllu heldur var formaðurinn.

Heimildir og ítarefni:

http://oracleofbacon.org/

Latest posts by Sigurður Örn Hilmarsson (see all)