Fjör á leikjatölvumarkaði

Í vikunni kynnti Microsoft nýja útgáfu af leikjavél sinni xbox, sem þeir kalla Xbox 360.

Vélina kynntu þeir með mikilli fjölmiðlasýningu og með því að kaupa 30 mínútur á besta tíma á MTV til kynningarinnar. Tímasetningin er út af sýningunni 3E í Los Angeles sem hefst í næstu viku. Þar með hleyptu þeir nýju lífi í baráttuna um leikjatölvumarkaðinn, en það hefur ekki komið ný vél inn á þann markað í fjögur ár og var því löngu komin tími til.

Í vikunni kynnti Microsoft nýja útgáfu af leikjavél sinni xbox, sem þeir kalla Xbox 360.

Vélina kynntu þeir með mikilli fjölmiðlasýningu og með því að kaupa 30 mínútur á besta tíma á MTV til kynningarinnar. Tímasetningin er út af sýningunni 3E í Los Angeles sem hefst í næstu viku. Þar með hleyptu þeir nýju lífi í baráttuna um leikjatölvumarkaðinn, en það hefur ekki komið ný vél inn á þann markað í fjögur ár og var því löngu komin tími til. Fyrir áhugamenn um leikjavélar er þetta gríðarlega áhugaverður tími.

Microsoft ætlar að hefja sölu á vélunum í nóvember næstkomandi, og verður töluvert önnur áhersla í þessum vélum en verið hefur. Eins og áður hefur verið sagt frá í Deiglupistli, ætla þeir að stefna á að vera margmiðlunartæki heimilisins og ná þannig ekki bara til áhugamanna um tölvuleiki heldur líka aðila sem vilja geta spilað bíómyndir og tónlist beint af tölvunum. Enn vantar þó fídusinn að geta tekið upp.

Þessar aðgerðir hafa sett Sony í töluverðan vanda en undanfarið hefur þeim ekki gengið eins og skildi. Leikjabransinn hefur verið eini bransinn sem hefur verið þeim hliðhollur en þar hafa þeir þó verið að missa markaðshlutdeild. Nú þegar nýja útgáfan af Xbox hefur verið kynnt er talið að Sony eigi langt í land með að koma með sína næst útgáfu af sinni Playstation. Hins vegar hefur sagan sýnt að fyrstu vélarnar hafa oft ekki náð fótfestu, dæmi um þetta eru Atari Jaguar og Sega Dreamcast. Sony náði hins vegar að nýta sér forskotið á undan Xbox vélunum, en þeir eru nú með um 50% af markaðnum.

Nintendo ætlar ekki að koma nálægt margmiðlunar markaðnum og ætlar sem fyrr að einblína á leikjatölvur. Þeir stefna nú að því að gera einfaldari og minni tölvu, sem þeir kalla Revolution. Tölvan verður sú allra minnsta á markaðnum og verður eins stór og nokkur DVD hlustur. Þessi tölva er þó ekki talin eiga eftir að ná mjög mikilli dreifingu, miðað við hinar tölvurnar. Nintendo á hins vegar sterkan hóp áhangenda sem eru líklegir til að halda tryggð við fyrirtækið.

Allar þrjár útgáfurnar verða búnar með þráðlausu neti svo það verði auðvelt fyrir þær að tengjast út á netið. Microsoft hefur auk þess gefið út að xbox vélin muni hafa 20 gígabæta utan á liggjandi disk, þrjá örgjörva og sérstakan grafiskan örgjörva. Nýja vélin er auk þess 20% minni en sú gamla og með straumlínulögðu útliti. Playstation 3 frá Sony er sögð hafa sérstakan örgjörva, sem er 10 sinnum hraðvirkari en fyrri útgáfur. Lítið er þó vitað um hana, og jafnvel spurning hversu mikið þeir hafi nú þegar ákveðið, annað en að flýta þurfi hönnun til að mæta nýrri Xbox.

Við kynninguna notaði Microsoft aðferð sem nú er stöðugt vinsælli en þeir létu óþekkta aðila leka út upplýsingum til bloggara sem birtu myndir teknar með farsima og lýsingar. Þetta hefur svo birtst í fjölmiðlum undanfarið sem “orðrómur”, sumt hefur staðist en annað ekki. Þetta hefur hins vegar skapað töluverða eftirvæntingu og umræðu hjá aðilum sem fylgjast með þessum markaði.

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þróuninni á þessum markaði, margir spá því að xboxinn verði stærsta leikjatölvan innan fárra ára, en hins vegar er mjög erfitt að segja til um það þangað til Sony hefur kynnt sína vél til sögunnar. Eitt er víst að leikja unnendur munu halda áfram að njóta baráttunnar með hraðari þróun og lægra verði á leikjavélunum.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.