Habemus papam!

Kaþólskir kardínálar völdu í gær hinn 78 ára Þjóðverja, Joseph Ratzinger, næsta páfa. Eftir valið þustu Rómverjar og gestir í borginni út á Péturstorgið og kölluðu „Habemus papam!“ á latínu, eða „Við höfum páfa!“. Páfi sá sem valinn var þykir einkar íhaldssamur en hann var um langa hríð hægri hönd Jóhannesar Páls II. forvera síns.

Benedikt sextándi hress í bragði að loknu páfakjöri.

Kaþólskir kardínálar völdu í gær hinn 78 ára Þjóðverja, Joseph Ratzinger, næsta páfa. Eftir valið þustu Rómverjar og gestir í borginni út á Péturstorgið og kölluðu „Habemus papam!“ á latínu, eða „Við höfum páfa!“. Páfi sá sem valinn var þykir einkar íhaldssamur en hann var um langa hríð hægri hönd Jóhannesar Páls II. forvera síns.

Joseph Ratzinger, eða Benedikt sextándi eins og hann mun eftirleiðis nefndur, lætur sér ekki nægja að fordæma samkynhneigð eins og hefur verið viðkvæðið lengi hjá kaþólsku kirkjunni heldur hefur hann illan bifur á rokktónlist einnig sem hann telur „tjáningu óðæðri hvata“. Engu að síður kom hann fram á svalir Péturskirkjunnar í Róm og veifaði eins og rokkstjarna til mannfjöldans eftir kjörið. Og múgurinn veifaði á móti.

Höfundur þessa pistils hefur ekki áður fylgst með páfakjöri enda fór síðasta kjör fram ári áður en hann fæddist. Sitthvað fannst honum athyglisvert við fyrirkomulag þessa kjörs og kannski sumt sem hafa má til hliðsjónar við aðrar kosningar. Meðal annars er sú regla að kjörið beri að endurtaka þar til einn kardínála hefur hlotið 2/3 atkvæða þeirra sem kjósa. Kardinálarnir eru þannig nauðbeygðir, af kerfinu sem viðhaft er, að koma sér saman, að auknum meirihluta til, um páfann. Kosningin er endurtekin aftur og aftur til þess að fá fram niðurstöðu. Reyndar hafa þeir að lokum, eftir margra daga síendurteknar kosningar, útgönguleið, en þá dugir helmingur atkvæða til að knýja fram úrslit.

Annað athyglisvert við páfakjörið í gær var að í því afsannaðist gamalt máltæki sem var á þá leið að sá sem færi inn í páfakjör páfi færi út kardínáli. Menn höfðu búist við því fyrirfram að Joseph Ratzinger væri líklegur páfi. Hann fór því inn sem eins konar páfi og kom út páfi. Kjörið kom ekki á óvart þótt sumir höfðu búist við einhverju allt öðru, t.d. blökkum páfa.

Ekki er við því að búast að Benedikt sextándi sitji lengi á páfastóli nema hann verði þeim mun eldri. Benedikt er með elstu mönnum sem tekið hafa við páfadómi, 78 ára að aldri, og út frá meðaltalslíkindareglu er ekki líklegt að hann sitji í fjölda ára. Að minnsta kosti er nær útilokað að hann nálgist að því leytinu til forvera sinn, Jóhannes Pál annan, sem sat í 26 ár.

Benedikt sextándi virðist því einhver millileikur. Millileikur sem ekki er líklegur til að hverfa frá íhaldsamri stefnu forvera síns. Þvert á móti er mögulegt að hann herði róðurinn í íhaldseminni, en flestum þykir eflaust nóg um.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)