Konur og pólitík

Ég hef verið að velta fyrir mér konum og pólitík og komist að því að það er oft eins og konur séu að væla þegar það kemur að því að tala um í hve miklum minnihluta konur eru í á Alþingi okkar Íslendinga. Erum við kannski ekki nógu djarfar og harðar þegar kemur að því að berjast um hlutina?

Ég hef verið að velta fyrir mér konum og pólitík og komist að því að það er oft eins og konur séu að væla þegar það kemur að því að tala um í hve miklum minnihluta konur eru í á Alþingi okkar Íslendinga. Það er svo oft talað eins og við séum ekki valdar í hlutverkin sem við viljum og svo framvegis. Það má vel vera vegna þess að við séum ekki altaf valdar í það sem við sækjumst eftir en er það einhvers annars sök eða bara okkar? Erum við kannski ekki nógu djarfar og harðar þegar kemur að því að berjast um hlutina?

Mín skoðun er sú að konur hugsa kannski ekki nóg um númer eitt heldur hugsa um allt í kringum sig. Við kunnum öll söguna um hellisbúann . . . karlinn er ,,forritaður” til þess að miða á eitthvað eitt eins og að veiða í matinn, það er það eina sem hann er að gera og hann miðar einungis að því að ná í bráðina. Konan aftur á móti er meira í því að hugsa um marga hluti, hún sá um allt heimilið og allt sem því fylgir en maðurinn einungis um bráðina.

Spurningin er erum við enn ,,forrituð” eins og hellisbúinn? Það er ekki eins og við búum enn við það að konur eru heima að elda og passa börnin á meðan karlinn er úti að vinna. Nú er öldin önnur. Konur eru að vinna úti líkt og karlar, bæði fara þau í barneignarfrí og þau eiga rétt á sömu launum.

Ég held reyndar að við konur séum alveg að ná þessu.Við erum farnar í síauknum mæli að einbeita okkur að einum hlut í staðin fyrir að vera að hugsa um allt í einu. Launabaráttan er vissulega erfið en við vitum allavega að við eigum rétt á sömu launum og erum enn að berjast fyrir því. En það er eins og pólitíkin sé eitthvað annað fyrir okkur. Það eru nefnilega í raun aðeins tveir hugsunarhættir í pólitík. Annars vegar að hugsa um liðsheildina og að enginn sé útundan en hinsvegar að hugsa aðeins um sjálfan sig og sinn frama.

Ætli raunin sé ekki sú að konur séu of uppteknar af því að þóknast öllum hinum til að reyna að komast sjálfar áfram. Fastar í því að það megi ekki styggja neinn því það gæti komið þeim illa. Í staðinn fyrir að gera það sem þær vilja og vona að restin fylgi. Ætli konur haldi ekki bara að þær séu vondar við alla ef þær setja sjálfa sig í fyrsta sæti? Telja sig sjálfselska ef þær gera það.

Mín von er sú að við konur verðum raunverulegir jafnokar karla í pólitík. Með því á ég við að ekki verði gerður munur á því hvort það sé kona eða karl í framboði heldur verði bara metið eftir verðleikum. En til þess verðum við að taka okkur aðeins til í andlitinu, setja okkur í fyrsta sæti og vinna markvisst að okkar markmiðum. Við verðum að byggja upp tenglanetið, standa við okkar sannfæringu, þora að tala um það sem skiptir okkur máli og komast sjálfar á toppinn.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.