Bananafréttastofan

Kann það að vera eðlilegt og í góðu lagi að fólk hafi mismunandi sýn á hlutina? Kann að vera að fréttamenn séu líka mannlegir?

Bananafréttir

Síðasta sumar létu einhverjir úr blaða- og fréttamannastétt þau orð falla að Ísland væri bananalíðveldi. Hugtakið kom fram í löndum við Karabíska hafið þar sem ríkisstjórnirnar voru algjörlega í vasanum á stórfyrirtækjum sem ræktuðu banana og seldu vesturlandabúum. Þessir sömu fréttamenn störfuðu hjá stórfyrirtæki sem hefði farið illa út úr fjölmiðlafrumvarpinu svokallaða og fréttir á þessum tíma snérust nær einungis um það eina mál. Mat fréttamanna var að þetta væri það sem fólk hefði mestan áhuga á – staðreyndin var sú að flestir voru orðnir hundleiðir á þessu hjartans máli fréttamannanna.

Fréttamenn eru einmitt það: Menn sem segja fréttir. Menn (konur eru líka menn) hafa skoðanir og velja sér yfirleitt starfsvettvang sem passar við þær og áhugamál þeirra. Í fréttamannastétt veljast aðilar sem hafa áhuga á fréttum, þjóðmálum, menningu og öðru fólki; semsagt pólitík. Á sama hátt hafa íþróttafréttamenn gjarnan áhuga á íþróttum.

Fræg íslensk mýta segir að fréttamenn séu hlutlausir. Á flestum öðrum stöðum í heiminum gera menn sér hins vegar grein fyrir að hún er ósönn. Það þýðir ekki að þeir dragi viljandi taum eins umfram annarra. Það þýðir aðeins að gildismat þeirra og lífssýn – sem svo aftur endurspegla pólitískar skoðanir – ráða líka fréttamati þeirra. Fréttavalið getur því verið örlítið pólitískt litað – óviljandi – þó orðalag og vinnsla fréttanna sé fullkomlega fagleg. Við þetta er ekkert athugavert, en endurspeglar mikilvægi fjölbreyttrar fréttamannafaunu.

Sumir fréttamenn virðast ekki gera sér grein fyrir þessu. Nýjasta dæmið er RÚV-ruglið. Fréttamenn útvarps gátu ekki sætt sig við að útvarpsráð og útvarpsstjóri miðuðu við aðra hluti í vali sínu en hreina reynslu af fréttaöflun og -lestri. Þeim fannst óviðunandi að einhver utanaðkomandi yrði ráðinn. Einhver utan þess fimm manna hóps kollega sinna sem Bogi Ágústsson treysti sér til að mæla með.

Umfjöllun þeirra sjálfra í fréttum var að vísu í flestum tilvikum nokkuð fagleg, þó fréttamatið væri – að mér fannst – verulega skakkt, enda erfitt að flytja fréttir af eigin fjölskylduvandamálum. Að vísu varð fréttamaðurinn sem tók viðtal við nýjan yfirmann sinn í hádeginu 1. apríl sekur um fáránlega hlutdrægni og árásargirni og hermdi meira að segja upp á nýja fréttastjórann að hann hefði logið – sem hann gerði alls ekki.

Það sem stendur upp úr að þessu fíaskói loknu er að engan vegin er hægt að brigsla útvarpsráði um að hafa haft pólitískar forsendur að leiðarljósi við ráðninguna umfram faglegar. (Sjálfum finnst mér það góð rök að fá utanaðkomandi mann til að stjórna fréttastofunni heldur en mann með 20 ára reynslu sem einnig stjórnar pólitískt-einsleitasta fréttamagasínþætti síðari ára) Andóf fréttamanna og starfsmanna RÚV er hins vegar fullkomlega pólitískt. Því til stuðnings bendi ég lesendum á pistil minn um ráðningu Elínar Hirst frá 2002.

Þegar starfsmenn RÚV segja svo – eins og margir þeirra hafa gert – að útvarpsráð hafi ekki hagsmuni RÚV að leiðarljósi sýnir það líka að þeir eru orðnir of rótgrónir. Þeir hugsa um sjálfan sig sem hluta af stofnuninni og að stofnunin hafi sjálfstætt líf óháð ríkinu og fólkinu í landinu. Þetta er fremur óheilbrigð sýn á hlutina. Að sjálfsögðu á RÚV, eins og aðrar ríkisstofnanir, að þjóna borgurunum sem greiða laun þessara starfsmanna. Ríkisstjórnin fer með umboð þeirra, jafnvel þó þessir sömu fréttamenn kunni að hafa greitt stjórnarandstöðunni sitt atkvæði.

Útvarpsráð er pólitískt skipað og því má segja að það fyrirkomulag bjóði upp á pólitískar deilur. Með e.k. dómínórökum má því segja að hver einasti starfsmaður RÚV sé pólitískt ráðinn. Þessvegna hlýtur eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkar deilur að hafa ekkert ríkisútvarp. Lausnin hlýtur að felast í fjölmiðlun sem er algjörlega frjáls af afskipum ríkisins í umhverfi sem hvetur til fjölbreittrar útgáfu efnis á blöðum, netinu og í útvarpi.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)