Metnaðarfull leiðindi

Ríkisreknar sjónvarpsstöðvar standa alltaf frammi fyrir ákveðnum vanda: Hvort eiga þær að að sýna nákvæmlega það sama og einkareknu stöðvarnar eða einbeita sér að svokallaðri „metnaðarfullri“ dagskrá, þ.e.a.s. dýrum, óhagkvæmum þáttum sem allt of fáir nenna að horfa á?

Ríkisreknar sjónvarpsstöðvar standa alltaf frammi fyrir ákveðnum vanda. Hvort eiga þær að að sýna nákvæmlega það sama og einkareknu stöðvarnar eða einbeita sér að svokallaðri „metnaðarfullri“ dagskrá, þ.e.a.s. dýrum, óhagkvæmum þáttum sem allt of fáir nenna að horfa á?

Þegar maður er námsmaður kemur það fyrir að maður sé heima hjá sér um miðjan dag, á þeim tíma sem flest venjulegt fólk þarf að vinna; og þótt miðdegisdagskráin hér á landi sé ótrúlega fátækleg samanborið við lönd þar sem atvinnuleysi og almenn leti er útbreiddari mátti nú við slíkar ástæður alltaf treysta beinar útsendingar Alþingis.

Hins vegar varði fjörið ekki að eilífu. Því miður fyrir okkur, áhugamenn um almenn leiðindi, rofnaði útsendinginn klukkan 5. Þá var skorið á Kidda Sleggju í miðri setningu og sápuóperan Leiðarljós sett í gang. Við fengum aldrei að vita hvort ráðherra mundi heita því að athuga að verja fé til kaupa á skólaskipi eða einungis að lofa því málið yrði skoðað frá öllum hliðum. Hvers áttum við, spennufíklar, að gjalda?

Nú væri auðvitað hægt að fussa og frussa vel yfir þessari dæmisögu og segja að hún í hnotskurn sýni hvernig RÚV sé að bregðast hlutverki sínu sem almannaútvarp. Staðreyndin er hins vegar sú að eflaust eru þeir mun fleiri sem vilja fylgjast með Leiðarljósi en störfum þingsins, og er niðurdrepandi að reka sjónvarpsstöð sem engin nennir að horfa á. Þess vegna er þingið sett út í kuldan, þess vegna fella menn niður barnaefnið þegar íþróttaviðburðir dragast á langinn og þess vegna skera menn fréttirnar niður og troða inn í leikhlé þegar HM stendur yfir.

Þetta er auðvitað vandi sem allar ríkisstöðvar standa frammi fyrir. Það er ekki af ástæðulausu sem sumt sk. „metnaðarfullt“ sjónvarpsefni er óhagkvæmt, fólk nennir nefnilega ekki að horfa á það. Eða of fátt fólk að minnsta kosti. Dagskrá opinbera sjónvarpsins verður á endanum svipað því sem gerast mundi í einkageiranum, bara aðeins leiðinlegra og aðeins óhagkvæmara. Oftar en ekki verður niðurstaðan svo sú að stofnaðar eru fleiri ríkisstöðvar til að geta rúmað bæði það efni sem fólk virkilega fylgist með, og hitt, metnaðarfulla efnið, sem allir leggja blessun yfir en fáir raunverule horfa á.

Einkastöðvarnar á Íslandi hafa sýnt að þær eru færar um að framleiða góða íslenska þætti. Floppin eru hugsanlega fleiri, t.d. á SkjáEinum, en menn eru líka fljótir að kippa í taumanna, aflýsa heilum þáttaröðum eða reka óhæfa þáttastjórnendur ef hlutirnir eru ekki að ganga upp. Hver hefði haldið að hægt væri að sýna 70 mínútna kvöldþátt 4 kvöld í viku en PoppTíví tókst það. RÚV hefði örugglega látið hann vera 10 sinnum dýrari, þátturinn væri tekinn upp „live“ með hljómsveit og áhorfendum.

Það er ekki svo að ekkert gott hafi frá Ríkissjónvarpinu komið gegnum tíðina. Hins vegar er engin vafi á að það góða sem þaðan hefur komið hefði örugglega geta orðið til annars staðar, ef duglegt fólk hefði fengið tækifæri til að blómstra á öðrum, óháðum sjónvarpsstöðvum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.