Val á nýjum rektor

Rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, hefur tilkynnt að hann hyggi ekki á að bjóða sig fram til áframhaldandi setu í embættinu. Háskólinn hefur markað sér metnaðarfulla stefnu um að taka sér stöðu sem rannsóknarháskóli á alþjóðlegan mælikvarða — hvernig ætti slík stefnumótun að hafa áhrif á það ferli sem felst í því að velja nýjan rektor?

Rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, hefur tilkynnt að hann hyggi ekki á að bjóða sig fram til áframhaldandi setu í embættinu. Háskólinn hefur markað sér metnaðarfulla stefnu um að taka sér stöðu sem rannsóknarháskóli á alþjóðlegan mælikvarða — hvernig ætti slík stefnumótun að hafa áhrif á það ferli sem felst í því að velja nýjan rektor?

Á vef Háskólans rekur Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri akademískrar stjórnsýslu, hvernig staðið skuli að skipun rektors. Þar kemur m.a. fram að staðan skuli vera auglýst en embættisgengir séu aðeins prófessorar og dósentar við Háskólann. Einnig kemur fram í reglum Háskólans að nýr rektor sé valinn úr hópi umsækjenda með kosningu þar sem prófessorar háskólans fara með 60% atkvæðamagns, aðrir starfsmenn 10% og stúdentar 30%.

Það er að sjálfsögðu hagur Háskólans að ráða eins hæfan einstakling í starfið og kostur er. Í því tilliti ætti ekki að takmarka embættisgengi við Háskólann sjálfan heldur auglýsa starfið laust til umsóknar öllum þeim sem uppfylltu ákveðnar kröfur. Til að mynda eru margir Íslendingar sem starfa sem prófessorar við úrvals rannsóknarháskóla erlendis. Einhverjir þeirra væru eflaust afbragðs kandídatar í starfið enda með reynslu af rannsóknarstörfum erlendis auk þekkingar á starfsemi og skipulagi slíkra stofnana. Auk þess koma utanaðkomandi aðilar oft með ferskar hugmyndir með sér og sjá vandamálin í öðru ljósi en þeir sem fyrir eru.

Þegar Háskóli Kaliforníu í Berkeley hóf leit að núverandi rektor skólans hófst hún á því að skipuð var leitarnefnd líkt og úrvals háskólar erlendis gera jafnan. Nefndin leitaði eftir áliti hjá nemendum, starfsfólki og kennurum um það hvaða kostum æskilegt væri að nýr rektor væri gæddur. Niðurstaða þeirrar vinnu var auglýsing þar sem óskað var eftir umsækjendum og ýmsar hæfniskröfur og -óskir útlistaðar.

Samsvarandi auglýsing um stöðu rektors Háskóla Íslands minnist ekki á neinar hæfniskröfur eða -óskir, aðrar en þær að umsækjandinn sé nú þegar í kennaraliði skólans.

Eftir ítarlega leit Berkeley nefndarinnar (og nefndir sem þessar framkvæma ítarlega leit; samsvarandi nefnd í Stanford Háskóla notaði meira en 7500 klukkustundir og tók til greina meira en 400 kandídata) þótti Robert Birgeneau, fyrrverandi eðlisfræðiprófessor við MIT og þáverandi rektor háskólans í Toronto, hæfasti umsækjandinn í starfið.

Að sjálfsögðu getur Háskóli Íslands ekki gert svona ítarlega leit enda býr hann við önnur skilyrði að mörgu leyti. Meðal annars er hann ekki jafn þekktur, er staðsettur á Íslandi og kennir að mestu leyti á íslensku. Engu að síður ætti hann að gera sitt besta með því að slaka á reglum um embættisgengi, auglýsa víðar og jafnvel hafa samband við mögulega umsækjendur utan skólans af fyrra bragði.

Sú aðferð að halda kosningar meðal prófessora, starfsfólks og stúdenta er heldur ekki vel til þess fallin að velja einstakling sem mun stuðla að róttækum breytingum og marka framsækna stefnu. Hætt er við að t.d. sé kosið gegn auknum skyldum á prófessora og kröfum á nemendur auk þess sem fólk styður gjarnan frambjóðanda „sinnar deildar“. Þetta veldur óþarfa flokkadráttum og illindum innan skólans og er ekki hagsmunum skólans sem heildar til framdráttar.

Víða erlendis eru það stjórnir háskólanna (svipað og Háskólaráð hér) eða sérskipaðar nefndir sem sjá um að velja úr umsækjendum. Þetta gildir einnig um Háskólann í Reykjavík þar sem rektor er ráðinn af Háskólaráði HR með umboði Stjórnar Verslunarráðs Íslands. Háskóli Íslands ætti að skoða slíkt fyrirkomulag enda hefur það margvíslega kosti umfram kosningu innan skólans.

Háskóli Íslands hefur mikla möguleika á að verða öflugur rannsóknarháskóli. Látum ekki úreltar reglur sem þessar standa í vegi fyrir nauðsynlegum framförum.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)