Óvinafögnuður í Samfylkingu

Það kemur fáum á óvart að formlegur slagur um formannsembættið í Samfylkingunni hefjist með skítkasti, níðshætti og dylgjum á opinberum vettvangi. Hinn nútímalegi og frjálslyndi jafnaðarmannaflokkur Íslands er kannski hvorki nútímalegur né frjálslyndur þegar öllu er á botninn hvolft, heldur lítið meira en samsuða gömlu kreðsanna úr A-flokkunum – gamalt vín á nýjum belgjum.

Formleg barátta um formannsstólinn í Samfylkingunni hefur ekki staðið lengi en nógu lengi þó til þess að subbulegt skítkast er þegar hafið milli fylkinganna tveggja sem vilja stjórna Samfylkingunni. Fara fyrir lítið orð þeirra, þ.á m. formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, að flokkurinn sé orðinn svo „félagslega þroskaður“ að hann sé undir það búinn að tekist sá um formannsembætti hans.

Húskarlar og -konur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafi ekki linnt látum í fjölmiðlum síðustu daga og vegið mjög harkalega að Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar. Hafa þessir aðilar beinlínis látið að því að liggja að Össur sé ekki hæfur til leiða flokkinn í ríkisstjórn.

Ekki var við því að búast að Össur Skarphéðinsson tæki þessu þegjandi og réðst hann harkalega að svilkonu sinni og fylgiliði hennar í fréttum í gær og sakaði það um persónuárásir og níð. Þetta er farið að minna hressilega á innanflokkserjurnar á A-flokkunum á árum áður og kannski bara merki þess að Samfylkingin er loksins orðinn klassískur íslenskur vinstriflokkur.

Afskipti verkalýðshreyfingarinnar af hinum nútímalega og frjálslynda jafnaðarmannaflokki eru afar athyglisverð. Forkólfar hinna íslensku verkalýðshreyfingar líta augljóslega svo á að Samfylkingin sé þeirra vettvangur og verkalýðshreyfingin sé ígildi ráðandi hluthafa í Samfylkingunni. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það leggst í frjálslynt fólk sem Samfylkingin hefur á síðustu misserum biðlað stíft til.

Ekki einasta lýsir framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands því yfir að skjólstæðingar sambandsins muni fylkja sér um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur heldur svarar framkvæmdaráð sambandsins kalli formanns Samfylkingarinnar um að bregðast ókvæða við þessu upphlaupi framkvæmdastjórans. Hvað ætli venjulegum launþegum, sem greiða nauðugir viljugir í sjóði þessara aðila, finnist um að vera orðnir að atkvæðum í einhverjum stjórnmálaflokki út í bæ?

Og fjölmiðlar sjá ekkert athugavert við að formannsslagur í Samfylkingunni sé orðinn viðfangsefni stærstu verkalýðshreyfingar landsins. Það er hætt við því að einhvers staðar hefði heyrst hljóð úr horni ef Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, hefði komið með ámóta stuðningsyfirlýsingar fyrir hönd sinna félagsmanna í tengslum við formannskjör í Sjálfstæðisflokknum.

En sé rýnt í gegnum skítkastið sem nú gengur á milli fylkinganna innan fylkingarinnar, sést að í boði eru tveir gamlir vinstrijálkar sem eiga hvor um sig á bakgrunn og bakland í kreðsum sem riðu húsum í hverjum vinstriflokknum á fætur öðrum árum og áratugum saman. Össur Skarphéðinsson hefur lagt mikið á sig á undanförnum árum við að skapa sér nýja ímynd sem nútímalegur og frjálslyndur jafnaðarmaður, en ekki fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, málgagns íslenskra sósíalista sem árum saman endurómaði viðhorf alræðisstjórnar kommúnista í Kreml. Og hinn kosturinn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttur, hefur varið næstum öllum sínum pólitíska ferli í að berjast gegn framförum – einna mest gegn þeim framförum sem frjálslyndir jafnaðarmenn hafa reynt að eigna sér og tengjast EES-samningnum.

Það má kannski segja að sameiningarvon íslenskra vinstrimanna sé fremur bundin við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nái kjöri, því þá væri alla vega öllum málefnalegum hindrunum rutt úr vegi fyrir því að Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð rynnu saman í eina sæng. Það er kannski einmitt í þetta sem forkólfar verkalýðshreyfingarinnar sjá í spilunum og grundvalla stuðning sinn við Ingibjörgu Sólrúnu á því.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.