Enn eitt árið að baki í Guantanamo

Í dag eru þrjú ár liðin frá því að stjórnvöld í Bandaríkjunum settu upp fangabúðir í herstöð sinni í Guantanamo á Kúbu til að hýsa meinta hryðjuverkamenn. Fangabúðirnar eru svartur blettur á vestrænu lýðræði og framganga Bandaríkjamanna þar óverjanleg með öllu.

Í dag eru þrjú ár liðin frá því að stjórnvöld í Bandaríkjunum settu upp fangabúðir í herstöð sinni í Guantanamo á Kúbu til að hýsa meinta hryðjuverkamenn. Fangabúðirnar eru svartur blettur á vestrænu lýðræði og framganga Bandaríkjamanna þar óverjanleg með öllu.

Um 500 manns hvaðanæva úr heiminum er haldið föngnum í Guantanamo. Margir þeirra hafa verið í fangabúðunum frá 10. janúar 2001, þótt enn hafi ekki verið réttað málum þeirra. Stjórnvöld í Bandaríkjunum telja að þessir aðilar hafi ekki réttarstöðu stríðsfanga og neita að rétta í málum þeirra þar sem slíkt gæti orðið baráttunni við hryðjuverkasamtök fjötur um fót. Því er ennfremur haldið fram að upplýsingar sem fengist hafa með yfirheyrslu fanga í Guantanamo hafi komið í veg fyrir hryðjuverk og bjargað mannslífum.

Undirritaður dregur ekki í efa að í þeim hópi leynist margir sem fyllilega eiga skilið að dúsa á bak við lás og slá. Það verður einnig að viðurkennast að stríðið gegn alþjóðlegum hryðjuverkum er ólíkt öllu því sem við höfum kynnst áður.

Á undanförnum misserum hafa komið fram ægilegar sögur af meðferð fanga í Guantanamo. Þótt ekki sé fyrirvaralaust hægt að leggja trúnað á þessar frásagnir, þá verður vart í efa dregið að fangarnir á Guantanamo sæta verulegu harðræði og njóta fæstra þeirra réttinda sem alþjóðasáttmálar kveða á um.

Undirritaður átti þess kost á haustmánuðum að ræða við dómara í New York, Michael B. Mukasey, en hann var dómari í réttarhöldum yfir þeim sem dæmdir voru fyrir árásina á World Trade Center árið 1993. Athyglisvert var að heyra sjónarmið Mukasey en þau voru á þá leið að fangarnir í Guantanamo væru réttlausir á allan hugsanlegan hátt. Aðeins bandarískt siðferði kæmi í veg fyrir að þeim væri stillt upp fyrir framan aftökusveit. Og þetta var ekki einhver hillabilli úr miðvesturríkjunum, þetta var virðulegur dómari í hinni frjálslyndu New York. Óneitanlega fékk maður á tilfinninguna að stríðið við hryðjuverkamanna færi fram handan góðs og ills.

En aðeins degi eftir þennan fund með Mukasey komst Hæstiréttur Bandaríkjanna hins vegar að þeirri niðurstöðu að réttindi væru brotin á föngunum í Guantanamo og sannfærði það undirritaðan um að réttvísin væri þó ekki glötuð þar vestra.

Þótt tilgangur þeirra sem vilja neita föngunum í Guantanmo um mannréttindi sé í sjálfu sér göfugur, þ.e. að verja landa sína fyrir mannskæðum hryðjuverkaárásum, þá er sú afstaða engu að síður óásættanleg. Baráttan við herskáa hryðjuverkamenn er ekki bara barátta fyrir því að halda lífi, hún er miklu frekar barátta fyrir því að verja ákveðin lífsgildi – gildi sem við höfum viljað kenna við vestræna menningu, með réttu eða röngu.

Fyrir tæpum þremur árum, 21. janúar 2002, skömmu eftir að fyrstu fangarnir komu til Guantanamo, ritaði ég pistil hér á Deigluna undir yfirskriftinni Mannréttindi í Guantanamo og sagði þar m.a.: „…þótt ekki dugi nein vettlingatök, þá má baráttan gegn hryðjuverkum ekki valda meira tjóni á vestrænu samfélagi en sjálf barátta hryðjuverkamannanna.“

Við þetta er litlu að bæta, nú þremur árum síðar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.