Hvað ef R-listinn væri í ríkisstjórn?

Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir er að koma stjórn Reykjavíkurborgar úr höndum R-listans. Á hverjum einasta degi bíða Reykvíkingar fjárhagslegt tjón af veru R-listans í borgarstjórn. Því fyrr sem hann fer frá völdum, því betra fyrir Reykvíkinga.

Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir er að koma stjórn Reykjavíkurborgar úr höndum R-listans. Á tæplega ellefu ára valdatíma vinstrimanna hefur Reykjavík hratt og örugglega dregist aftur úr nágrannasveitarfélögum sínum í flestu tilliti.

Fjármálaóstjórn R-listans á sér fá fordæmi. Í mesta góðæri Íslandssögunnar hefur R-listanum tekist að margfalda skuldir borgarinnar. Sú skuldasöfnun er ekki til komin vegna mikilla framkvæmda eða uppbyggingar í Reykjavík, öðru nær – úrræðaleysið hefur verið nær algjört. Skuldasöfnunin er heldur ekki til komin vegna þess að tekjur borgarinnnar hafi dregist saman eða álögur á borgarbúa hafi minnkað. Á síðustu fimm árum hefur álagt útsvar Reykjavíkurborgar hækkað um hvorki meira né minna en 70 prósent, úr 15 milljörðum í 26 milljarða.

Reykjavíkurborg hefur þannig notið góðs af þeim miklu efnahagsframförum sem orðið hafa hér á landi á síðustu árum, framfara sem rekja má beint til skynsamlegra ákvarðana ríkisstjórnarinnar um og eftir miðjan áratug síðustu aldar og traustrar efnahagsstjórnar hennar.

Hvernig væri staðan ef eins hefði verið haldið á málum í landsstjórninni og gert hefur verið í Reykjavík? Hvernig væri staðan ef vinstrimenn hefðu jafnframt farið með stjórn landsmála á þessu tímabili?

Af fenginni reynslu má gera ráð fyrir að ríkisbankarnir hefðu ekki verið seldir heldur sameinaðir í einn stóran banka sem síðan hefði ráðist í vonlausan rekstur fjarskiptafyrirtækja og jafnvel staðið fyrir risarækjueldi. Í stað þess að ríkið væri að spara sér ellefu milljarða ári í vaxtargreiðslur af erlendum lánum vegna stórkostlegrar niðurgreiðslu á skuldum hefðu skuldir aukast hröðum skrefum og sífellt hærra hlutfall af skattfæ færi í vaxtagjöld af lánum ríkisins. Skattar á fyrirtæki hefðu hækkað úr 50% í 60% í stað þess að lækka í 18%, eignarskattar hefðu verið hækkaðir í áföngum og tekjuskattar einstaklinga hefðu hækkað nú um áramót í stað þess að lækka. Búið væri að þenja út og flækja stjórnkerfið þannig að til væri orðið sérstakt Samræmingarráðuneyti með tugum starfsmanna sem hefði það hlutverk eitt að fá einhvern botn í það hvernig stjórnkerfið virkaði.

Vissulega er hægt að anda léttar að svo hefur ekki verið. En fyrir Reykvíkinga heldur martröðin áfram. Óstjón R-listans mun hafa af Reykvíkingum stóran hluta þeirra kjarabóta sem þeir hefðu notið af góðu efnahagsástandi. Hækkun útvars og ýmis konar gjaldahækkun nú um áramótin, auk fyrirhugaðrar hækkunr á orkureikningnum, mun éta upp stóran hluta þess ávinnings sem við Reykvíkingar áttum í vændum vegna skattalækkana ríkisstjórnarinnar.

Á hverjum einasta degi bíða Reykvíkingar fjárhagslegt tjón af veru R-listans í borgarstjórn. Því fyrr sem hann fer frá völdum, því betra fyrir Reykvíkinga.

Það yrði meiriháttar og nánast óhugsandi slys ef ekki tækist að koma R-listanum frá völdum í næstu borgarstjórnarkosningum. Eftir sögulegt afhroð Sjálfstæðisflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, þar sem flokkurinn fékk sitt minnsta fylgi í sögunni, eru mikil sóknarfæri til staðar nú. Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er fyrir höndum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.