Annar í jólum

Jólin vekja oft á tíðum blendnar tilfinningar í brjóstum okkar, eins og bent var á í jólahugvekjunni hér á Deiglunni í gær. Við erum stressuð og snortin, sorgmædd og sæl allt í senn eða til skiptis.

Jólin vekja oft á tíðum blendnar tilfinningar í brjóstum okkar, eins og bent var á í jólahugvekjunni hér á Deiglunni í gær. Við erum stressuð og snortin, sorgmædd og sæl allt í senn eða til skiptis.

Það er ekki annað hægt en að vera þakklátur fyrir allar hlýju jólakveðjurnar, símtöl og jólakort frá fjarstöddum ættingjum og vinum. En um leið vaknar hjá mörgum söknuður eftir fjarstöddum eða látnum ættingjum eða fjölskyldunni sem ekki er til. Þannig valda jólin oft hugarangri í hjörtum margra sem þó virðast eiga allt eins og aðrir á öðrum tímum ársins.

Mestu hugarangri valda mér þjáningar þeirra sem ekkert eiga. Hvort sem þeir eru staddir á Íslandi eða annars staðar í hinum stóra heimi. Vanmátturinn gagnvart fátækt, hungri, sjúkdómum, stríði og deyjandi börnum virðist algjör. Það væri óskandi að bænin hefði meira afl. Við verðum þó að trúa því að eitthvað sé hægt að gera. Án trúar og vonar um betri heim er öruggt að ekkert breytist. „Í von og trú er fólgin styrkur sem öllu myrkri getur eytt“.

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að líta í kringum í okkur. Við hljótum öll að eiga einhvern í kringum okkur sem á bágt, hvort sem er nú um jólin eða á öðrum tímum ársins. Það þarf oft bara lítið faðmlag eða samverstund til að fólki líði betur.

Það er gamall sannleikur að margt smátt gerir eitt stórt. Lítið fjárhagslegt framlag hefur áhrif. Við getum bæði lagt okkar af mörkum sem einstaklingar og sem þjóð. Það er á okkar valdi að hafa áhrif á þá sem ráða landinu okkar og framlagi landsins til friðar og betra lífs heima og að heiman.

Á nýju ári legg ég til að við sem einstaklingar og þjóðfélagsþegnar framlengjum jólaboðskapinn og komum í verk einhverju af því sem segir í jólatextunum:

„Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín…”

„Biðjum fyrir öllum þeim / sem eiga bágt og þjást.“

Vonandi getum við litið um öxl á næsta ári og munað eftir því sem við gerðum til að búa til betri heim.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.