Þakkargjörð

sdfdFjórða fimmtudag hvers nóvembermánaðar ber vel í veiði hjá bandarískum kaupmönnum og að sögn innfæddra er þetta allt saman heljarinnar seremónía.

Á myndinni má sjá róttækan kalkún með eldrauða og mjög svo framúrstefnulega pílagrímu á höfðinu.

Það er alveg ótrúlegt hvað fólk getur verið miklir plebbar. Þannig myndi pistlahöfundur frekar dauður liggja en að pressa sparifötin sín, hlaupa út í búð, troða varnarlausan kalkún fullan af brauðmolun og brenna yfir sósuna til þess eins að fagna því að einhverjir pílagrímar hefðu náð góðri uppskeru árið 1621. (Anda!) Um það verður hins vegar varla deilt að framsýni pílagrímanna var alveg ótrúleg — að þeir skyldu akkúrat ná bestu uppskerunni mánuði fyrir jól — einskonar generalprufu fyrir jólaverslunina. Ef það er tilviljun þá er þetta ekki pistill sem þú ert að lesa núna. Og ef þetta er ekki pistill, þá ert þú, kæri lesandi, verr staddur í lífinu en þig gæti nokkurn tíma órað fyrir!

Það er nefnilega alveg stórmerkilegt hvernig hátíðisdagar í Bandaríkjunum smjúga inn í gljúfa þjóðarvitundina án þess að nokkur hreyfi legg eða lið við þeirri óheillaþróun. Þannig er Valentínusardagurinn fyrir löngu búinn að koma sér kyrfilega fyrir á plebbadagatalinu við hliðina á Hrekkjarvökunni sem verður að teljast ansi þunnur þrettándi.

Fyrir það fyrsta þá lætur enginn heilvita maður dobbla sig í grímubúning nema að hann fái allavegana að slá köttinn úr tunnunni og glás af töggum í verðlaun. Sem eru reyndar skammgóður vermir — enda margt meira hressandi en að borða töggur í alíslenskum brunagaddi. Og ekki tekur því að eyða orðum á Valentínusardaginn. Ef einhver villuráfandi sauður stendur í þeirri trú að hann sé geðveikur Rómeó ef hann kaupi sinn hvorn hjartalaga konfektkassann handa spúsunni og frillunni á Valentínusardaginn — þá er hann verr staddur í tilverunni en sá sem heldur að þetta sé ekki pistill!

Ruglingslegt? Æ, æ — cry me a river!

Einhvers staðar verður að draga markalínu við alþjóðavæðingu og ég sting uppá að við byrjum á hátíðisdögum. Allir eiga bara að halda sína hátíðisdaga en ekkert vera að sulla þeim yfir á aðrar þjóðir. Þannig get ég vitnað fyrir sjálfan mig að ég nennti bara ekki að taka 14. nóvember síðastliðin í að fagna þegar bresku jómfrúareyjurnar héldu afmælisdag Karls Bretaprins hátíðlegan. Þannig er ég líka upptekinn 17. des næstkomandi og get því miður ekki haldið upp á þjóðhátíðardag Bútan og ég steinsvaf yfir mig 1. nóvember síðastliðinn þegar

íbúar Fílabeinsstrandarinnar héldu All Saint’s-daginn.

Enda var ég alltaf meira fyrir Spice girls…

Ef það er alltaf gaman — þá liggur í hlutarins eðli að það er líka alltaf leiðinlegt. Botnlaus fjölbreytni skilar okkar fábreytni. Endalausir hátíðisdagar eru til þess fallnir að draga úr áhrifamætti þeirra sem fyrir standa og á endanum förum við að fagna því að þurfa ekki að fagna neinu.

En hvað sem öðru líður mun ofangreindur setja börger á grillið á morgun og þakka sjálfum sér kærlega fyrir að þurfa ekki að þakka pílagrímunum fyrir þakkargjörð.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)