Hlutverk RÚV á raunarstundu

Því er oft haldið á lofti af talsmönnum nauðungaráskriftar að ríkisútvarpinu, að það sé nauðsynlegt öryggistæki fyrir landsmenn þegar náttúruhamfarir ríða yfir.

Því er oft haldið á lofti af talsmönnum nauðungaráskriftar að ríkisútvarpinu, að það sé nauðsynlegt öryggistæki fyrir landsmenn þegar náttúruhamfarir ríða yfir. Vart er stætt á öðru en að kalla jarðskjálfta sem eyðileggur mannabústaði og veldur verulegri almannahættu annað en náttúruhamfarir. Fróðlegt er að velta fyrir sér hinu bráðnauðsynlega hlutverki ríkisútvarpsins og hvernig því fórst það hlutverk úr hendi fyrstu mínúturnar og klukkstundirnar eftir stórskjálftann á Suðurlandi sl. laugadag. Hljóta menn í kjölfarið að setja spurningamerki við þessi aðalrök talsmanna nauðungaráskriftar.

Áður en lengra er haldið skal tekið skýrt fram að sú mynd sem fylgir þessum pistli tengist ekki á nokkurn hátt jarðskjálftanum á Suðurlandi sl. laugardag.

Rúmlega tuttugu mínútur liðu frá því skálftinn reið yfir þangað til útvarp allra landsmanna sá ástæðu til að greina frá þessum stærsta skjálfta á Íslandi í 88 ár. Þá fór lafmóður fréttamaður útvarpsins í loftið og vakti fleiri spurningar en hann svaraði og skildi steini lostna áheyrendur eftir litlu nær. Því næst var sett í loftið upptaka af stórsöngvaratónleikum frá því nokkrum dögum áður. DEIGLAN ætlaði vart að trúa sínum eigin eyrum. Næst var kveikt á sjónarpsrás ríkisútvarpsins og þar hlupu grænklæddir og gulklæddir menn í fótbolta og Samúel Örn Erlingsson lýsti því sem fyrir augu bar!

Rúmum hálftíma eftir skjálftann birtist Ingólfur Hannesson, forstöðumaður íþróttadeildar RÚV, á skjánum og sagði útsendingu frá leik Portúgala og Rúmena á EM í fótbolta hafa verið rofna til að segja fólki frá jarðskjálfta sem orðið hafi austur í sveitum. Fljótlega var síðan skipt aftur yfir til Belgíu, þar sem menn voru við hugann við allt annað en atburði í uppsveitum Rangárvallasýslu á Íslandi.

Þannig kom ríkisútvarpið landsmönnum til bjargar þennan eftirminnilega þjóðhátíðardag. Þegar þjóðin snéri sér að viðtækjum sínum í von um upplýsingar sem veitt gætu ró eða nauðsynlegar leiðbeiningar, fékk hún að heyra upptöku af tónleikum og sjá beina útsendingu frá einum af 32 leikjum Evrópumóts landsliða í fótbolta.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.