Eitt stórt hægri

Margt hefur verið ritað og rætt um hina s.k. þriðju leið í stjórnmálum. Því hefur verið haldið fram – og þaðan er nafngiftin komin – að þriðja leiðin sé eins konar meðalvegur á milli hægri og vinstri, það besta úr báðum.

Margt hefur verið ritað og rætt um hina s.k. þriðju leið í stjórnmálum. Því hefur verið haldið fram – og þaðan er nafngiftin komin – að þriðja leiðin sé eins konar meðalvegur á milli hægri og vinstri, það besta úr báðum. Hefur þessi leið hér á landi verið sögð felast í mannúðlegum markaðsbúskap og fleiri óborganlegar útleggingar í svipuðum dúr hafa heyrst. Í miðopnu Morgunblaðsins í fyrradag birtist grein eftir Gary S. Becker, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem ber yfirskriftina Þriðja leiðin er hægri leið.

Tekur Becker tvö dæmi í grein sinni til að renna stoðum undir kenningu sem síðar kemur fram. Annað dæmið er af Richard Nixon, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Hann var eindreginn andstæðingur kommúnista en samt sá Bandaríkjaforseti sem fyrstur hvatti til samvinnu við Kínverja. „Aðeins Nixon naut nógu mikils stuðnings hjá hægri mönnum til að geta farið í heimsókn til Kína,“ segir Becker. Hitt dæmið er af Charles de Gaulle, fyrrum Frakklandsforseta. De Gaulle var eindreginn þjóðernissinni og þess vegna naut hann nógu mikils trausts hjá almenningi til að geta veitt Alsír, þá nýlendu Frakka, frelsi.

Becker segir sömu lögmál eiga við efnahagsmálum og inntak greinar hans er í raun þetta: andstaða vinstri aflanna í þjóðfélaginu mun verða tilraunum hægri stjórna til að hrinda í framkvæmd markaðsumbótum fjötur um fót. Stjórnvöld sem kenna sig fremur við sósíalisma eiga auðveldara með að taka þessi skref, af því að vinstri öflin í þjóðfélaginu „treysta“ þeim á sama hátt og hægri menn treystu á Nixon og franskir þjóðernissinnar á De Gaulle. Og hægri öflin í þjóðfélaginu amast vitaskuld ekki við breytingum í frjálsræðisátt.

Hafi Becker rétt fyrir sér, þá hefur væntanlega einnig ræst draumur Thorbjörns gamla Egners og öll dýrin í skóginum loksins orðnir vinir. Og samkvæmt því verða allar ríkisstjórnir héðan í frá hægri stjórnir, hvaða nöfnum sem þær kunna svo sem að nefnast. Gott ef rétt væri…

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.