Tilviljanir eru ekki til

Tilviljanir eru ekki til í pólitík – allra síst í þeirri bandarísku. Allir atburðir eiga rætur að rekja til ákvarðana sem teknar eru með fyrirfram ákveðna hagsmuni í huga. Þessa staðreynd er afar mikilvægt að hafa í hug þegar skoðuð eru „mótmæli fjólmargra óánægðra“ kjósenda í Flórída-ríki vegna bandarísku forsetakosinganna.

Tilviljanir eru ekki til í pólitík – allra síst í þeirri bandarísku. Allir atburðir eiga rætur að rekja til ákvarðana sem teknar eru með fyrirfram ákveðna hagsmuni í huga. Þessa staðreynd er afar mikilvægt að hafa í hug þegar skoðuð eru „mótmæli fjólmargra óánægðra“ kjósenda í Flórída-ríki vegna bandarísku forsetakosinganna. Eins og ábyrgir og hlutlægir fjölmiðlar greindu frá varð uppvíst um óánægju kjósenda með ruglingslegan kjörseðil að kvöldi kjördags og innan nokkurra klukkustunda höfðu þúsundir hringt í fulltrúadeildarþingmann ríkisins, Robert Wrexler, og lýst óánægju sinni. Þetta var haft til marks um þá miklu undiröldu í einstökum sýslum vegna framkvæmd kosninganna og öllum var talin trú um að átt hefði sér stað stórkostlegasta kosningamisferli síðari ára.

En nú er komið í ljós hvernig í pottinn er búið. Þegar spurnir bárust af einhverjum miskilningi með kjörseðlana í Pálmastrandarsýslu, sáu demókratar sér leik á borði. Þeir réðu í hvelli til starfa símaþjónustufyrirtæki sem hringdi þúsundir símtala á örfáum klukkustundum í kjósendur í sýslunni, þar sem þeir voru hvattir til að hafa samband við fulltrúadeildarþingmanninn. Undirtektirnir urðu það góðar að dæmið gekk upp hjá demókrötum. Óhætt er að fullyrða að ef ekki hefði komið til þessi skyndilega „uppreisn hins almenna kjósanda“ hefði atkvæðaseðillinn aldrei orðið að neinu hitamáli.

Til að fylgja eftir þessari vel heppnuðu aðgerð, þurfti að gera óánægju „fólksins“ enn sýnilegri. Var alls konar iðjuleysingjum og atvinnumótmælendum smalað fyrir framan sjónvarpsmyndavélar CNN-sjónvarpsstöðvarinnar (Clinton News Network) með nýprentaða áróðursborða. Á myndatökunni var þess vandlega gætt að ekki væri með nokkru móti hægt að greina, hversu fáir raunverulega mótmæltu. Þarna var komið hráefnið sem matreiðslumenn mainstream-pressunnar þurftu til að reyna að skella skuldinni af dæmalaust lélegri frammistöðu sinni á kosninanóttu á kosningaframkvæmdina sjálfa – og í leiðinni gefa uppáhaldsframbjóðanda sínum síðasta hálmstráið.

Framganga áróðursvélar demókrata í þessu máli, er kennslubókardæmi um vinnubrögð sem allir, sem eitthvað ætla sér í pólitík, verða að hafa tök á að beita. Demókratar hafa á undanförnum áratug lyft áróðurstækninni í áður óþekktar hæðir – í samlagi með helstu fjölmiðlum – og er þessi nýjasta fléttu enn ein staðfestingin á yfirburðum þeirra á þessu sviði.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.