Mánudagsmæðan

Í tilefni nýrrar vinnuviku er okkur öllum hollt að rifja upp atvik og aðstæður sem fara í taugarnar á okkur og geta verið til þess fallnar að auka á streitu og pirring í sálartetrinu. Að upprifjuninni lokinni er rétt að spyrja sig hvort þessi hlutir séu þess virði að æsa sig yfir. Þeir sem eru pirraðir í eðli sínu eru varaðir við klausum sem fylgja pistlinum. Verið velkomin í Mánudagsmæðuna.

Einhverjum kann að finnast það hæpið hefja vikuna á svona neikvæðum nótum en á öllu neikvæðu má finna jákvæða hlið eða hliðar. Þeim sem eru í neikvæðum gír í dag og vilja halda því áfram bendi ég á að reyna að finna samsvörun í þeim dæmum sem ég nefni og auka þar með á pirringin. Þeim sem aftur á móti eru í góðu og jákvæðu skapi í dag ætti ekki að vera skotaskuld úr því að snúa neðangreindum dæmum upp í eitthvað jákvætt og gott og styrkja þar með jákvæðnistöðvar sínar.

Mæða 1 – Biðraðir. Hvernig stendur á því að þegar ég er í matvöruverslunum og hef gaumgæfilega valið mér biðröð við einn kassann, að þá virðist alltaf eitthvað koma upp á við þann kassa hjá þeim sem eru fyrir framan mig í biðröðinni. Pappírsrúllan í kassanum klárast, kassinn bilar, kúnninn gleymdi að kaupa eitthvað og þarf að sækja viðkomandi vöru, kúnninn þarf að nótu fyrir viðskiptunum en starfsmaðurinn kann ekki að prenta hana eða greiðslukortið gleymdist úti í bíl. Því meira sem ég reyni að sigta út biðröð sem mér virðist álitleg, þeim mun lengur þarf ég að bíða vegna “óvæntra” uppákoma. Ég er alveg hættur að reyna að velja mér biðraðir. Nema stundum, til að athuga hvort eitthvað hafi breyst. Er þetta pirrandi? Nei, ekki nema maður hafi átt mjög slæman dag fram að þessu.

Mæða 2 – Drykkir í fernum. Þegar ég er á landinu fer ég oft í bakarí að kaupa mér eitthvað að borða og kaupi mér gjarnan Trópí eða Kókómjólk með. Hins vegar virðist það gerast ótrúlega oft að ég fæ fernuna sem vantar á rörið og auðvitað uppgötva ég það aldrei fyrr en ég er kominn í örugga fjarlægð frá bakaríinu. Er þetta pirrandi? Já getur verið það, sérstaklega þegar maður hefur ekki tiltæk tól til að opna fernuna á annan hátt.

Mæða 3 – Uppáhaldslagið. Á hverjum tíma eigum við öll okkar uppáhaldslag eða lög og á leið úr vinnu eða skóla er yfirleitt vel þegið að heyra eitt þessara laga á útvarpsstöðvunum. Mér tekst yfirleitt aldrei að heyra nema lokin á þessum lögum þegar ég er að skipta á milli útvarpsstöðva í bílnum. Í hvert skipti sem ég heyri lagið á einhverri útvarpsstöð er það annað hvort komið inn í síðasta viðlagið eða er síðasta lag fyrir fréttir og fær ekki að klárast, mér til sárra vonbrigða. Er þetta pirrandi? Ætli það, bara dálítið svekkjandi á köflum.

Mæða 4 – Turnar í bíó. Ég er nú ekki sérstaklega lágvaxinn og þegar ég fer í kvikmyndahús þá reyni ég eftir fremsta megni að setjast ekki beint fyrir framan fólk til að koma í veg fyrir að ég skyggi á myndina fyrir því. Hins vegar virðist alltaf hávaxnasti eða stærsti bíógesturinn sjá sig knúinn til að setjast beint fyrir framan mig. Er þetta pirrandi? Ójá, þetta er pirrandi.

Mæða 5 – Kennaraverkföll. Þó svo að undirritaður sé ekki staddur á Íslandi þennan veturinn þá er kennaraverkfallið farið að fara í taugarnar á mér. Ég styð heilshugar baráttu kennara fyrir bættum kjörum en ég styð hins vegar ekki að þjóðfélagið þurfi allt að fara úr skorðum á nokkurra ára fresti vegna kjarabáráttu grunnskólakennara. Vonandi fer þessi kjaradeila að leysast fljótlega, en ég hef eftir mjög óáreiðanlegum og óstaðfestum fréttum að Ásmundur ríkissáttasemjari vilji ólmur klára deiluna sem fyrst, þar sem allt meðlætið á samningafundunum sé farið að setja stórt strik í Atkins kúrinn hjá honum. Vonandi að Ási hafi ekki bætt á sig mörgum “launaflokkum” nú þegar.

Mæða 6 – Þjónustulund. Því miður finnst mér þjónustulund afgreiðslufólks á Íslandi oft ábótavant og stundum eins og maður sé að gera því hinn mesta óleik með því að versla við fyrirtækið sem það vinnur fyrir. Ég veit ekki hver skýringin á þessu er en í öllu falli getur þetta verið afskaplega hvimleitt og pirrandi. Þetta er að sjálfsögðu ekki algilt og ég er ekki frá því að þetta hafi skánað á síðustu árum.

Fyrir þá sem ekki þola mánudaga er ágætt að hafa það í huga að mánudagar eru þeir dagar þar sem lengst er í næsta mánudag. Það ætti að vera eitthvað til að gleðjast yfir. Annars er ég hvorki pirraður né mæddur í dag. Manchester United vann Arsenal í gær og það er nóg til að bæta fyrir langa biðröð, lélega þjónustu, drykkjarfernur án rörs og skyggðar myndir í bíó alla þessa viku. En það nægir ekki til að bæta fyrir kennaraverkfallið og ég vil samt heyra allt uppáhaldslagið mitt í bílnum í dag.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)