Sameining sveitafélaganna? Nei takk!

Ein þreyttasta tugga í nútíma stjórnunarfræðum er stærðarhagkvæmnistuggan 1+1=3. Henni hefur verið haldið uppi að stórum hluta af greiningardeildum fjármálafyrirtækja sem lýsa því stöðugt yfir að fyrirtæki sem sameinist eigi að hækka í verði. Þetta gera þau þrátt fyrir að vita það fullvel að það eru nær engar rannsóknir í stjórnun sem staðfesta að stærri einingar skili betri afkomu en smærri.

Hefði Kópavogur sameinast Reykjavík árið 1991 þá væri BÆRINN orðinn aumt “hverfi” og sem slíkt álíka ómerkilegt og Árbær … án fótboltans!

Það hafa komið margar rannsóknir fram sem sýna að fyrirtæki standa verr að vígi eftir sameiningar og flest dæmi um alþjóða-risasameiningar á síðustu árum hafa verið arfaslök. Nægir að nefna AOL Time Warner samrunann sem gott dæmi en sameinað fyrirtæki hefur verið á stöðugri niðurleið frá sameiningu.

Stærðarhagkvæmnistuggan lifir einnig góðu lífi innan félagsmálaráðuneytisins en félagsmálaráðherra stofnaði (enn eina) nefnd síðastliðinn desember með þann megintilgang að segja sveitafélögunum hvernig þau ættu að sameinast! Þessi nefnd hefur, eftir að hafa skoðað landabréfakort vel og lengi, gefið út skýrslu þar sem hún tekur fram hvaða sveitafélög liggja nálægt hvort öðru og ættu því að sameinast.

Fyrir þá sem eru handvissir um að frekar sameining sveitafélaganna sé góð hugmynd er bent á eftirfarandi dæmi: Ef Kópavogur hefði sameinast Reykjavík árið 1991 þá væru eftirfarandi hlutir einfaldlega ekki til:

– Sundlaug Kópavogs

– Gerðasafn

– Einsetinn grunnskóli í Kópavogi

– Salurinn

Þar til viðbótar þá væru skuldir Kópavogsbúa margfaldar á við það sem þær eru í dag.

Málið er að það er hægt að stjórna sveitafélögum vel (t.d. Kópavogur)og illa (t.d. Reykjavík). Ef við fækkum sveitafélögunum meira þá aukum við áhættuna á því að slæmur stjórnandi fari með stærra batterý til andskotans.

Mun betri hugmynd er:

A) Auka samvinnu á milli sveitafélaganna á vissum sviðum

B) Leyfa sveitafélögunum að keppa saman um fólk, fyrirtæki, fjármagn og ferðamenn.

Þannig stuðlum við að frekari hagkvæmi á sama tíma og frjáls markaður stjórnar því hvar fólk vill búa.

Ekki félagsmálaráðuneytið.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.