Óvæntur liðsauki

Nýtilkomin umhyggja einstakra stjórnmálamanna og fjölmiðla fyrir því að halda aftur af ríkisútgjöldum er mikið fagnaðarefni. Vonandi er að myndast breið samstaða um það í samfélaginu að standa fast gegn öllum kröfum sem upp kunna að koma um viðbótarframlög úr ríkissjóði.

Alþingi fer með fjárveitingarvaldið.

Fjármál ríkissjóðs hafa verið nokkuð til umræðu síðustu daga og það er mikið fagnaðarefni hversu mjög mönnum virðist vera orðið annt um velferð ríkissjóðs. Það er auðvitað orðið löngu tímabært að breið samstaða skapist um það hér á landi að ríkissjóður safni ekki skuldum. Á síðustu árum hefur ríkissjóður greitt niður skuldir fyrir tugi milljarða króna og þannig búið í hagið fyrir framtíðina. Ef ekki væri fyrir þessa ráðdeild myndi íslenska ríkið greiða 11 milljörðum meira í vaxtagjöld á næsti ári. Athyglin nú beinist hins vegar að framúrkeyrslu ráðuneyta og stofnana sem Alþingi veitir fá á fjárlögum.

Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að opinberar stofnanir og aðrir sem hafa forræði á opinberu fé skuli ekki halda sig innan marka fjárlaga. Á síðustu dögum hafa ýmsir stjórnmálamenn og fjölmiðlar gengið fram fyrir skjöldu og gagnrýnt þessa framúrkeyrslu. Það skýtur hins vegar skökku við að sömu aðilar hafa ekki linnt látum á undanförnum árum þegar kemur að því að “leysa fjárhagsvanda” þessara eða hinna ríkisstofnana sem “líða fjárskort” eða er “haldið í fjársvelti” og “algert neyðarástand skapast”, svo notuð séu vinsæl hugtök. Krafan þá er sú að þessar stofnanir fái aukið fé úr ríkissjóði og öllum andmælum við því er svarað með háreysti og harmakveini. Eitthvað virðist því hafa verið djúpt á þeirri miklu umhyggju sem nú er borin fyrir ríkissjóði og fjármunum skattgreiðenda.

En nú þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast hafa vaknað til vitundar um mikilvægi þess að ráðuneytin og undirstofnanir þeirra haldi sig innan marka fjárlaga, þá hlýtur að mega búast við því að stjórnarandstaðan taki sér stöðu við hlið þeirra sem vilja að stofnanir starfi innan fjárheimilda og verji ríkissjóð fyrir kröfum um aukin útgjöld. Einnig hlýtur að mega gera þá kröfu til fjölmiðla sem nú beina kastljósinu að fjárstreymi úr ríkissjóði umfram fjárlög, að þessir sömu fjölmiðlar taki í upphrópanakenndri umfjöllun sinni um “fjársvelti” ríkisstofnana mið af mikilvægi þess að ríkissjóður sé rekin í samræmi við fjárlög. Það yrði mjög til bóta næst þegar upp kemur “algert neyðarástand” eða eitthvað því um líkt, að þessir fjölmiðlar taki mið af fullkomlega eðlilegum kröfum – sínum eigin kröfum – um ríkisrekstur í samræmi við fjárlög.

Menn gleyma því oft að framúrkeyrsla ríkissjóðs stafar að verulegu leyti af því, að fjármunum hefur verið varið til að leysa “neyðarástand” eða “fortíðarvanda” ríkisstofnana. Stjórnmálamenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, og hagsmunaðilar eiga – með hjálp fjölmiðla – stærstan þátt í að skapa þrýsting á ríkissjóð um að “leysa vandann” með auknum framlögum. Vonandi mun umræðan hér eftir bera nýtilkominni hugarfarsbreytingu fjölmiðla og stjórnmálamanna vitni og minnka þannig þrýsting á ríkissjóð þegar sótt er að honum úr öllum áttum um auknar fjárveitingar.

Það er fagnaðarefni að athygli manna skuli nú beinast að rekstri ríkissjóðs. Frá árinu 1998 hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um þriðjung sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en á sama tíma hafa flest OECD-ríki verið að auka skuldir sínar. Gerðar hafa verið afar kostnaðarsamar ráðstafanir til að mæta lífeyrisskuldbindingum opinberra starfsmanna sem ella hefðu sprungið í andlitið á skattgreiðendum framtíðarinnar. En þrátt fyrir að gríðarlega margt hafi áunnist á undanförnum árum er enn óplægður akur í ríkisrekstrinum. Ríkið á ennþá mörg fyrirtæki sem það á að selja við fyrsta mögulega tækifæri, þ.á m. Landssímann, Ríkisútvarpið og Landsvirkjun. Ríkisstyrktur landbúnaður er fáránleg tímaskekkja. Menning á Íslandi er að verulegu leyti ríkisrekin eða ríkisstyrkt. Ríkisstofnanir eru alltof margar og þeim fjölgar ört. Skera ætti niður í stjórnkerfinu og fækka ráðuneytum um helming.

Það er auðvitað spurning um hvers núverandi ríkisstjórn er megnug eftir það sem á undan er gengið. Ekki er víst að hún hafi pólitískt þrek til að koma þessum málum í höfn. Þó verður að segja – þrátt fyrir mörg feilspor að undanförnu – að fáar ríkisstjórnir hafa gert eins mikið gagn fyrir þjóðarhag og sú sem nú situr og komist stjórnin aftur inn á sporið er hún til alls líkleg. Þessi ríkisstjórn hefur það til að mynda á sinni afrekaskrá að hafa leyst íslenskt markaðskerfi úr viðjum ríkisafskipta með þeim áhrifum að við við lifum nú mesta hagsældartímabil Íslandssögunnar. Og af hverju að láta staðar numið þar? Gera ætti áætlun um að útgjöld ríkissjóðs dragist saman um 5% að raungildi á næstu fimm árum og 10% á næstu tíu árum – að árið 2050 yrðu umsvif ríkissjóðs helmingi minni en þau eru í dag.

Það væri metnaðarfullt markmið og með því allra besta sem núlifandi stjórnmálamenn gætu gert fyrir komandi kynslóðir Íslendinga.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.