Meiri einkavæðingu

Allar einkavæðingar hafa mætt mótspyrnu en hingað til sagan sýnt fram á að hættan var ekki sú sem menn töldu. Þess vegna verður að drífa í einkavæðingu Símans.

Fyrsta lögmál Parkinssons er að hlutir fylla út það rými sem þeim er ætlað. Til dæmis þá tekur verkefni alltaf jafn langan tíma og því er ætlað. Ef þú hefur eina viku til þess að skrifa ritgerð, þá mun hún taka viku. Ef þú hefur einungis einn dag, þá munu skrifin taka einn dag!

Í ríkisrekstri þá þýðir þetta að ríkisstofnanir eyða öllum pening sem þær fá. Annað væri einfaldlega órökrétt af þeirra hálfu. Tökum dæmi af leikskólastjóra sem hefur með skynsamlegum rekstri haldið sér vel innan þeirra fjárheimilda sem henni voru áætlaðar. Þegar hann uppgötvar þetta í desember þá rýkur hann til og kaupir leikföng fyrir afganginn af heimildunum. Af hverju? Vegna þess að ef hann skilar afgangi þá fær hann minna fé á næsta ári! Það er fullkomlega rökrétt hjá þessum leikskólastjóra að eyða öllum pening sem hann fær.

Þetta er ein grundvallarforsendan fyrir því af hverju ríkisrekstur er svona óhagkvæmur fyrir þjóðfélagið. Kerfið beinlínis hvetur menn til þess að eyða meiru en þeir þurfa. Það sem ríkisrekstur skortir hvað mest er hvati til nýsköpunar. Frekari einkavæðing er besta leiðin til þess að búa til þennan hvata.

Einkafyrirtæki sem vinna fyrir ríkið hafa gríðarlegan hvata til þess að finna upp á nýjum betri leiðum til þess að starfa. Ný tæki, breytt þjónusta, nýjir ferlar eru fundnir upp þegar menn hafa einhvern hag af því. Einkarekstur er lausnin.

Vinstri menn (og framsóknarmenn) kvarta alltaf þegar skal einkavæða og þeir hafa alltaf haft rangt fyrir sér hingað til. Nú er Síminn til umræðu og vælið byrjar enn: “Síminn má ekki kaupa önnur fyrirtæki”; “Símann má ekki selja með grunnneti” og svo framvegis. Þetta er allt sama kjaftæðið og við höfum oft heyrt áður einungis með nýjum nöfnum – ekkert af þessu kemur til með að verða vandamál þegar Síminn verður kominn í einkaeigu. Það er ekkert nýtt á borðinu. Eins og í öll hin skiptin mun sagan dæma vinstri-framsóknarmönnum í óhag.

Símann skal selja! Tafarlaust.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.