Af kverúlöntum

Undirritaður hefur alltaf haft gaman að kverúlöntum. Hann hefur ekki aðeins gaman að þeim heldur telur hann þá marga hverja gagnlega fyrir land og lýð. Ekki verður framhjá því litið að íslenskt þjóðfélag á kverúlöntum margt að þakka, m.a. á sviði mannréttindamála.

Undirritaður hefur alltaf haft gaman að kverúlöntum. Hann hefur ekki aðeins gaman að þeim heldur telur hann þá marga hverja gagnlega fyrir land og lýð. Ekki verður framhjá því litið að íslenskt þjóðfélag á kverúlöntum margt að þakka, m.a. á sviði mannréttindamála.

Árið 1985 keyrði Jón Kristinsson kverúlant par excelance yfir á rauðu ljósi á Akureyri. Hann sætti sig ekki við sektina heldur fór með málið í gegnum bæði dómstigin hérlendis og alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Málflutningur Jóns gekk út á það að málsmeðferð í máli hans á neðra dómstigi hefði farið í bága við 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem saksókn og uppkvaðning dóms var á ábyrgð sama manns á Akureyri, þ.e. sýslumannsins. Þannig væri það raunar um allt land utan Reykjavíkur. Mannréttindadómstóll Evrópu féllst á sjónarmið Jóns og búum við nú við gjörbreytt réttarkerfi hans vegna.

Nokkrum árum síður skaut upp kollinum annar kverúlant, Sigurjón Sigurjónsson leigubílsstjóri, sem þvertók fyrir það að vera í leigubílsstjórafélaginu Frama, eins og hann var skyldaður til, að viðlögðu því að missa ella leyfið. Sigurjón fór með málið, líkt og Jón, alla leið í dómskerfinu hérlendis og endaði í Strassborg. Þar fékk hann viðurkenndan rétt sinn til að standa utan félaga, hið svonefnda neikvæða félagafrelsi.

Margir fleiri góðir og gegnir kverúlantar ganga hér um götur. Þeir hafa margvísleg sameiginleg einkenni, en þó eru til ýmis afbrigði kverúlantaháttar. Sumir þeirra herja á stjórnvöld og vilja ýmsar staðfestingar, yfirlýsingar og stimpla frá þeim, stjórnvöldunum til mikillar armæðu. Aðrir eru þverir þursar. Margir eru sérvitringar, eða besserwisserar. Þannig eru til ýmsar gerðir og hver og einn kverúlant hefur sín sérkenni.

Dæmigerður kverúlant hefur allt á hornum sér. Ef kverúlant væri að skrifa þennan pistil, sem ekkert skal fullyrt um hvort er, þá myndi hann eflaust byrja á því að býsnast og harma það að hugtakið kverúlant sé ekki skilgreint í íslensku orðabókinni. Það sé með ólíkindum að svo algengt orð í íslensku talmáli skuli ekki hafa ratað inn í þetta tveggja binda og fokdýra verk. Næsta skref í kverúlantahættinum væri að rita ritstjóra orðabókarinnar bréf og lýsa yfir vonbrigðum sínum og jafnvel fara með málið í blöðin. Þannig myndi kverúlantinn ekki sitja með hendur í skauti heldur ganga í málin.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)