Tímabærar skattalækkanir

Í vikunni kom út blað Frjálsrar Verslunar, sem sýnir tekjur 2400 einstaklinga. Í kjölfarið hefur skapast nokkur umræða um þá staðreynd að þessi listi birtir aðeins upplýsingar um útsvar, en ekki aðra skatta á borð við fjármagnstekjuskatt. Fyrir löngu er orðið tímabært að lækka skatta á einstaklinga en skilar það sama árangri og þegar skattar voru lækkaðir á fyrirtæki á sínum tíma?

Í vikunni kom út blað Frjálsrar Verslunar, sem sýnir tekjur 2400 einstaklinga. Í kjölfarið hefur skapast nokkur umræða um þá staðreynd að þessi listi birtir aðeins upplýsingar um útsvar, en ekki aðra skatta á borð við fjármagnstekjuskatt, en margir auðugir einstaklingar fá tekjur sínar aðallega í gegnum fjármagnstekjur. Í viðtölum í gær benti ritstjóri blaðsins víða á það misrétti að auðugir einstaklingar þurfa aðeins að greiða 10% af fjármagnstekjum sínum, en á sama tíma greiðir einstaklingur allt að 45% í tekjuskatt af eigin launum.

Margir hafa fært rök fyrir því að nauðsynlegt sé að lækka skatta á einstaklinga og draga þannig úr þessari mismunun. Meðal annars hefur verið bent á á þann góða árangur sem skattalækkanir á fyrirtæki skiluðu en þá jukust tekjur ríkisins, þrátt fyrir skattalækkunina. Það er þó ekki hægt að ganga út frá því að sami árangur náist verði skattar á einstaklinga lækkaðir.

Margir einyrkjar notuðu tækifærið og stofnuðu einkahlutafélög þegar skattar á fyrirtæki voru lækkaðir, en eftir þessar breytingar á skattkerfinu minnkuðu skattgreiðslur þessara aðila töluvert. Þrátt fyrir að skattar á einstaklinga verði lækkaðir, þá munu þessir aðilar halda áfram að greiða skatta í því kerfi sem verður þeim “hagstæðara”. Tekjur ríkisins munu því ekki aukast þó aðilar færi sig á milli kerfa.

Einstaklingar hafa ekki sama sveigjanleika eins og fyrirtæki til að hagræða skattgreiðslum sínum. Einstaklingar greiða skatta af öllum tekjum sínum á meðan fyrirtæki greiða aðeins skatta af tekjum að frádregnum kostnaði. Fyrirtæki geta því stundað ýmiss konar “talnaleikfimi”, án þess að fremja lögbrot og líkurnar á þess konar iðkun aukast eftir því sem skattarnir eru hærri.

Menn munu augljóslega alltaf stefna að því að greiða sem lægsta skatta og í því felst að velja sér það kerfi sem er hagstæðast. Þrátt fyrir að löngu sé tímabært að lækka skatta á einstaklinga, má leiða að því líkum að það muni þýða tekjuskerðingu ríkisins og þrátt fyrir að einhverjir myndu ákveða að gefa upp til skatts vinnu sem þeir myndu annars vinna „svart“, er ólíklegt að áhrifin verði jafn afgerandi og þegar skattar voru lækkaðir á fyrirtæki.

——

Á að birta álagningu skatta á netinu?

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.