Treystum við ekki lögreglunni?

Í hvert skipti sem tillaga kemur um að auka valdheimildir lögreglu þá er því mótmælt og nær undantekningalaust eru þeir sem mótmæla síðan spurðir „hvort þeir treysti ekki Lögreglunni.“

Það hefur verið sagt að frelsið glatist sjaldnast allt í einu. Vegur frá lýðræðisríki til lögregluríkis sé samsettur úr mörgum litlum skrefum sem öll virðast ásættanleg þótt áfangastaðurinn sé eitthvað sem enginn vildi fyrir fram enda í.

Það var nú hins vegar annað uppi á teningnum þegar Lögreglustjórinn í Reykjavík kynnti hugmyndir sínar um tölvukubb sem setja ætti í alla bíla. Hér má segja að ákveðið hafi verið að sleppa litlu skrefunum og taka frelsið, eins og það leggur sig. Með því að troða staðsetningartæki inn í langalgengasta ferðamáta landans eru rauninni fá skref í viðbót sem hægt er að stíga önnur en að græða GPS-tæki og blóðmæli inn í alla landsmenn, til að lögreglumenn sjái hvað menn hafi verið að bralla, ekki aðeins seinasta klukkutímann heldur einnig „það sem á undan hefur gengið.“

En nú kemur einhver og spyr: „En treystir fólk ekki lögreglunni?“ Við viljum að okkur sé treyst og við viljum treysta öðrum traust er gott. Með því að opinbera tortryggni sína í garð Lögreglunnar verða menn því á einhvern hátt tortryggilegir sjálfir. „Þeir hljóta að hafa eitthvað að fela,“ hugsar fólk.

Lögreglan safnar að sér hvers kyns viðkvæmum upplýsingum. Séu menn til dæmis farþegar í bíl sem er stoppaður vegna gruns um einhvern glæp þá eru nöfn þeirra skráð í skýrslu, alveg óháð því hvort menn þeir sjálfir séu grunaðir um refsivert athæfi eða ekki. Þeir vita það sem t.d. hafa verið sumarstarfsmenn hjá Lögreglunni að aðgangur að slíkum upplýsingum er á engan hátt flókinn, með öðrum orðum hver sem vill kemst í þær.

Sömuleiðis kannast margir við sögur frá starfsmönnum Lögreglunnar um að þegar einhver fallegur aðili af gagnstæðu kyni slysast inn á stöð þá „fletti menn upp á honum“. Bara svona til að tjekka. Þótt slíkt séu kannski lítilsháttar brot sem komi til vegna forvitni og aðgerðarleysis starfsfólks, þá sýna þau samt hve fáranlegt sé að halda fram að Lögreglan sé ávallt fullkomlega fagleg og starfsmönnum hennar í hvívetna treystandi.

Treystum við ekki Lögreglunni? Já og nei. Ef ég sé lögreglumann á vappi á Austurstræti hef ég engar ástæður til að halda að hann sé á leiðinni að þyggja mútur eða að leita uppi svertingja sem hann getur barið. En auðvitað mun engin starfsstétt vera nokkurn tímann laus við svarta sauði og að auki þá á vald það til að spilla fólki. Nýlega voru tveir lögreglumenn dæmdir fyrir alvarlega misbeitingu á valdi sínu. Er gott til þess að vita að þeir hafi örugglega „flett upp“ brotaþolanum og komist að því hver hann væri og með hverjum og hvar hann byggi? Eða öðrum viðkvæmari upplýsingum? Og hefði verið betra ef þeir hefðu getað flett upp ferðum hans undanfarið ár? Til að sjá „hvað á undan hafi gengið“?

Ég hef þó um það léttan grun að þeir sem mest mótmæla því að tölvukubbar séu settir í bíla séu þeir sem einfaldlega vilji stunda hraðakstur óáreittir og rökstyðji það fyrir sjálfum sér með miðaldaeðlisfræði og ranghugmyndum um eigin ökutækni. Slíkt má þó ekki blinda okkur sýn. Það er allt í lagi að notast við nútímatækni til að hafa uppi á lögbrjótum. En fyrr má nú aldeilis vera.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.