Með og á móti

Nýútkomin bók Ómars Ragnarssonar, „Kárahnjúkar með og á móti“, er til þess fallin að hleypa nýju lífi í umræðuna um Kárahnjúkavirkjun og aðrar fyrirhugaðar virkjanir.

Nýútkomin bók Ómars Ragnarssonar, „Kárahnjúkar með og á móti“, er til þess fallin að hleypa nýju lífi í umræðuna um Kárahnjúkavirkjun og aðrar fyrirhugaðar virkjanir.

Flestir hafa sterkar skoðanir á málinu og er ólíklegt að þær breytist nokkuð við lestur bókarinnar, enda rökum virkjunarsinna og umhverfissinna gert jafnhátt undir höfði. Ef eitthvað er styrkjast menn sennilega bara í sinni skoðun við lestur bókarinnar.

Sú áhersla sem lögð er á það í bókinni að framkvæmdirnar eru stutt á veg komnar og að enn sé hægt að snúa við vekur sérstaka athygli. Mestu umhverfisspjöllin verða ekki fyrr en árið 2006 þegar byrjað verður að fylla Hálslón. Í allmörg ár þar á eftir verður enn hægt að hleypa úr lóninu án þess að landið beri óbætanlegan skaða af. Næsta stóra umhverfisröskunin sem fylgir virkjuninni verður ekki fyrr en eftir nokkra áratugi þegar aurinn sem mun setjast á botn lónsins hefur breytt landslaginu þar svo mikið að aldrei verður hægt að endurheimta það.

Bókin er gott veganesti til að halda umræðunni um Kárahnjúka við og muna að enn er langt þangað til óafturkræf umhverfisspjöll eiga sér stað. Það er þannig ekki einungis mikilvægt að umræðan um framtíðarvirkjanir sé virk heldur þarf enn að halda umræðunni um Kárahnjúkavirkjun í gangi.

Fyrir utan umfjöllunarefni bókarinnar sem er hitamál þrungið tilfinningum á báða bóga vekur sérstaka athygli sú óvild sem Ómar virðist hafa mætt við vinnu sína. Á einum stað segir Ómar um þetta: „Í trúnaðarsamtölum þeirra [manna utan Ríkisútvarpsins] við okkur hjónin var okkur gert ljóst að fundin yrðu ráð til að bola mér úr starfi og stöðva umfjöllun mína um málefnið“. Hvurslags þjóðfélag er það sem leggur stein í götu fréttamanns sem reynir að gera jafn mikilvægu máli og hér um ræðir, ítarleg skil?

Það hefði vissulega verið mikill akkur í því fyrir báða aðila og þjóðina sjálfa ef verkið hefði komið fyrr út og landsmenn þar með getað kynnt sér málið á jafn ítarlegan og aðgengilegan hátt og hér gefst kostur á.

Það er óskandi að landsmenn geti kynnt sér ítarlega rök með og á móti næstu virkjunum áður en í þær verður ráðist og að almenningur allur vakni til lífs um mikilvægi þessara mála. Ekki bara varðandi Kárahnjúkavirkjun núna heldur þær virkjanir sem í framhaldinu verða reistar. Þá er það lykilatriði fyrir alla heilbrigða og málefnalega umfjöllun í lýðræðisþjóðfélagi að menn eins og Ómar Ragnarsson þurfi ekki að sitja undir hótunum og ofbeldi við störf sín.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.