Gjafavandræði

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins tilkynnti nýverið að Tony Blair hefði afþakkað gítar að gjöf frá Bono, söngvara írsku hljómsveitarinnar U2.

Það er helgi framundan og mörgum lesendum Deiglunnar er vafalítið boðið í teiti eða annars konar veislu um helgina. Af einhverjum ástæðum, sem pistlahöfundur hefir aldrei skilið, er nauðsynlegt, kurteisinnar vegna, að koma færandi hendi í slíkar veislur. Fyrir einhleypa og smekklausa menn er ekki hlaupið að því að velja slíka gjöf og verkefnið þyngist um allan helming ef svo óheppilega vill til að gestgjafinn skyldi vera kvenkyns. Sé hins vegar gestgjafinn piltur liggur í augum uppi að vandamálið leysist af sjálfu sér og maður kemur bara alls ekki færandi hendi—nema að um stórafmæli eða annan viðburð af sama kaliber sé að ræða.

Það væri að æra óstöðugan að gefa lesendum Deiglunnar upp hugmyndir að hugsanlegum tækifærisgjöfum. Slíkt verður hver og einn að gera upp við samvisku sína og seðlaveski. Hins vegar er full ástæða til að lesa áfram og velta fyrir sér hvert sé eiginlega nákvæmlega efni þessa pistils.

Þannig gætu lesendur hæglega fallið í þá gildru að freistast til að afskrifa áhyggjur pistlahöfundar sem einhvers konar smámál og húmbúkk sem alger óþarfi er að eyða heilu helgarnesti í. Það væri hins vegar alrangt hjá lesendum enda sannaði það sig nýlega þegar fréttir bárust af því að talsmaður breska forsætisráðuneytisins hafi tilkynnt að Tony Blair hefði afþakkað gítar að gjöf frá Bono, söngvara írsku hljómsveitarinnar U2.

Reyndar átti þetta sér allt saman eðlilegar skýringar eins og sagt er frá í fréttinni. Ef við reynum hins vegar að kafa aðeins dýpra í málið—þá segja gjafir talsvert um þann sem þær gefur. Þannig finnst mér til að mynda eðlilegt að Bono færi Blair gítar—hann er jú poppstjarna. Að sama skapi finnst mér eðlilegt að Jacques Chirac færi Blair rauðvín—vínekrur Frakka eru jú heimsfrægar. Hins vegar finnst mér alveg algerleg ótækt og hálfvandræðalegt að Silvio Berlusconi skyldi hafa fært Blair eyrnalokka að gjöf!

Hér koma nokkrir möguleikar til greina. Þannig gæti verið að Berlusconi hafi setið á fundi með helstu ráðgjöfum sínum og í sameiningu hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að það væri glatað að færa Blair Grappa-líkjör eða aðra innlenda munaðarvöru. Jafnglatað væri að gefa honum höggmynd eftir ítölsku meistarana.

Hins vegar væri alveg hreint gráupplagt að færa HONUM eyrnalokka.

Blair er sko enginn rokkari og þannig hyggur pistlahöfundur að breska aðalsmannasamfélagið myndi falla í yfirlið ofan í tebollana sína ef forsætisráðherrann mætti til þings með eyrnalokk. Enda væri það bara vandræðalegt:

„Hi, there mister Prime Minister, did you have a splendid weekend? Here is your agenda for the day; some questions regarding the Iraq war and a memo from the BBC. And by the way, these are certainly some spectacular man-earings that you are wearing today…“

Þið sjáið strax í hendi ykkar að slíkt myndi aldrei ganga.

Einhvers staðar stendur skrifað að hugurinn skipti meira máli en gjöfin. Pistlahöfundur vill nú ekki vera með neinar dylgjur í garð Berlusconi, en kommon; lýtaaðgerð, eyrnalokkar—hvað næst? Nælonsokkabuxur?

Þess vegna er varla annað hægt, ef menn velta fyrir sér hver hugurinn hefir verið á bak við það að færa karlkyns forsætisráðherra eyrnalokka. Einhverjar smásálir gætu auðvitað bent á þann möguleika að sennilega hafi gjöfin verið hugsuð handa eiginkonu ráðherrans—en í mínum huga er það allt of þröngt sjónarhorn, enda miklu skemmtilegra að hafa það sem betur hljómar.

Prótókoll-reglur eru nefnilega ekkert sérlega speisaðar: Þegar Friðrik krónprins kvæntist Ingiríði færði íslenska ríkið þeim málverkið Svanina eftir meistara Jón Stefánsson. Undir engum kringumstæðum hefði íslenska ríkið hins vegar tekið sig til og fært brúðhjónunum vatnsrúm. Því kæri Berlusconi, suma hluti gerir maður bara ekki!

Vík ég því aftur að meginefni þessa pistils. Ef ungir menn eru í vandræðum með gjafir fyrir teiti kvöldsins er það þó huggun harmi gegn, að þótt gjöfin verði líklega algerlega glötuð geta þeir huggað sig við það, að hugurinn er það sem telur.

Reyndar finnst pistlahöfundi það jafnsannfærandi, jafnglatað og jafnmikil lygi og að segja kinnroðalaust að fegurðin komi að innan frá…

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)