Öllum til vansa

Sem betur fer er fjölmiðlafárinu loksins lokið og vonandi fáum við frið fyrir misvitrum Alþingismönnum fram á haustið. Stjórnarandstaðan lýsti yfir sigri í málinu, en getur einhver gengið stoltur frá borði? Þegar uppi er staðið, töpuðu þá ekki allir?

Óþarft er að rekja sögu fjölmiðlafrumvarpsins enda hefur enginn getað lesið dagblöð eða horft á fréttatíma sjónvarpsstöðvanna undanfarna mánuði án þess að fá nýjasta kaflann beint í æð. Segja má að stjórnmálamenn hafi tekið af almenningi kærkomið sumarfrí þar sem helsta umfjöllunarefni fjölmiðla er veðrið og hugsanlega sláttur í sveitum. Í gær dró stjórnin frumvarpið til baka og þá erum við aftur komin á byrjunarreit. Hefði ekki verið betra heima setið?

Nauðsynlegt er að taka það fram að frumvarpið sem slíkt hafði nokkra stóra galla. Hins vegar virðast allir sammála um það að nauðsynlegt sé að setja einhvers konar rammareglur um fjölmiðla. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í vor var vissulega til skammar, enda virtist ofuráhersla vera lögð á að þrýsta málinu í gegn á sem minnstum tíma. Stjórnarandstaðan, sem nú hrósar sigri, féll hins vegar líka á prófinu. Málefnaleg umræða féll algjörlega í skuggann af upphlaupi í fjölmiðlum og tilraunum til að varpa skugga á forystumenn stjórnarflokkanna.

Eftir margra vikna deilur um það hvort þjóðin eigi að kjósa um frumvarpið virðast þeir Össur og Steingrímur nokkuð sáttir við það að þjóðaratkvæðagreiðslan fari ekki fram. Ástæðan er líklega sú að hinn margrómaði þjóðarvilji náði fram að ganga. Mörgum er það hulinn ráðgáta hvers vegna sumir menn skynja þjóðarviljann svo vel, en þetta eru oftar en ekki sömu menn og tapa yfirleitt í almennum kosningum. Ólafur Hannibalsson er líklega sá eini sem brást við tíðindunum á réttan hátt. Hann sagðist fagna niðurstöðunni persónulega en það breytti ekki þeirri staðreynd að stjórnin hefði tekið af fólki þann rétt að styðja frumvarpið í kosningu. Hann ætlaði því að halda baráttunni áfram. Þjóðaratkvæðagreiðslan átti að snúast um réttindi, eins og Ólafur virðist gera sér grein fyrir, en ekki niðurstöðu, líkt og stjórnarandstaðan heldur fram.

Stjórnin hyggst hefja undirbúning að nýrri lagasetningu um fjölmiðla á næstu vikum. Æskilegt er að stjórnarherrarnir undirbúi málið betur og leyfi hagsmunaaðilum að koma að vinnuferlinu. Frumvarpinu hinu fyrra var greinilega beint gegn Norðurljósasamsteypunni sem hlýtur að teljast varhugavert í lýðræðislegu samfélagi. Vissulega má færa rök fyrir því að stjórnvöldum beri að bregðast við ofurvaldi einstakra manna eða hópa á markaði en þarna var gengið of langt.

Í kjölfar málsins hefur stjórnin vakið máls á því að endurskoða beri 26. grein Stjórnarskrárinnar. Því ber að fagna enda óeðlilegt að þjóðin þurfi að treysta á afstöðu eins manns sem ef til vill er hlynntur ríkjandi stjórn. Eðlilegt væri að ákveðinn fjöldi manna gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum, hugsanlega 20% þjóðarinnar. Einnig má hugsa sér að forseti geti synjað lögum staðfestingar, en þá færi það aftur fyrir Alþingi og þyrftu þá 2/3 hlutar þingmanna að samþykkja frumvarpið. Vonandi fá slíkar tillögur, sem og aðrar, efnislega umræðu og óskandi er að þingmenn og lögspekingar láti af flokkspólitískum deilum í svo mikilvægu máli.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)