Skáldaðir dómstólar í fjölmiðlum

Alþjóðlegir dómstólar eru oft og tíðum viðfangsefni fjölmiðla. Þrátt fyrir það virðast heiti þeirra vera á reiki meðal margra fjölmiðlamanna sem og hvert hlutverk þeirra sé.

Oft og tíðum greina fjölmiðlar frá gangi mála fyrir alþjóðlegum dómstólum sem hvergi virðast vera til nema í undraheimi fjölmiðlanna. Svo virðist vera sem að fjölmiðlafólk viti eitt um tilvist og staðsetningu þessara dómstóla. Þetta eru dómstólar á borð við Mannréttindadómstólinn í Haag, Mannréttindadómstól Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag. Hefur greinarhöfundur setið nokkra kúrsa í þjóðarétti við lagadeild Háskóla Íslands og lagadeild Kaupmannahafnarháskóla en aldrei heyrt þeirra getið. Það er heldur ekkert undarlegt þar sem þessir dómstólar eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Kannski er ekkert skrýtið að blaðamenn ruglist á öllum þessum alþjóðlegu dómstólum enda hafa ansi margir bæst við alþjóðakerfið á síðusta áratug. Hins vegar eru þeir ekki það margir að ekki sé hægt að hafa á reiðum höndum heiti þeirra og nokkurn veginn hvað þeir fást við enda gefa nöfn þeirra það oft til kynna.

Hér á eftir verða taldir upp helstu alþjóðlegu dómstólarnir sem minnst er á fjölmiðlum á Íslandi og þeir kynntir örlítið.

Það er alla veganna ljóst að fjölmiðlar eru með það á hreinu að einhverjir alþjóðlegir dómstólar eru staðsettir í Haag enda er það alveg hárrétt hjá þeim. Það eru meira að segja þrír alþjóðlegir dómstólar í Haag og ekki nema smá spölur á milli þeirra. Geri aðrar borgir betur!

Fyrst ber að nefna Alþjóðadómstólinn í Haag, arftaki Varanlega alþjóðdómstólsins sem Þjóðabandalagið setti á laggirnar. Þjóðaréttur er viðfangsefni dómstólsins. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru aðilar að samþykkt alþjóðadómstólsins. Alþjóðadómstóllinn er aðaldómstóll Sameinuðu þjóðanna. Aðildarríki SÞ eru aðilar máls fyrir dómnum. Önnur ríki sem ekki eru aðilar að SÞ geta verið aðilar ef þau veita samþykki sitt fyrir slíku. Auk dóma getur Alþjóðadómstóllinn gefið út álit ef þar til bærir aðilar biðja um það, ríki eða aðalstofnanir SÞ. Íslenska ríkinu hefur tvisvar sinnum verið stefnt þangað annars vegar af Bretum og hins vegar Vestur-Þjóðverjum út af útfærslu fiskveiðilögsögu íslenska ríkisins í 50 sjómílur.

Annar dómstóll í Haag er Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn. Dómstóllinn byggir á svokölluðum Rómarsáttmála. Dómstóllinn ákærir einstaklinga fyrir hópmorð, mannúðarglæpi, stríðsglæpi og árásárstríð (það á eftir að útfæra nánar hvernig fara skuli með árásarstríð). Í framtíðinni mun hann líklega hafa fleiri málaflokka á sinni könnu. Dómstóllinn hefur ekki enn gefið út ákæru. Bandaríkjamenn hafa verið með mikil læti í kringum þennan dómstól á afar hæpnum forsendum.

Þriðji dómstóllinn í Haag er Alþjóðadómstóllinn sem fjallar um stríðsglæp í fyrrum Júgóslavíu. Dómstóllinn er stofnaður með ályktun öryggisráðsins. Hann er einskorðaður við hópmorð, mannúðarglæpi, stríðsglæpi og alvarleg brot á Genfarsáttmálanum í fyrrum Júgóslavíu frá árinu 1991. Þannig að í raun og veru fjallar hann um fleiri tegundir afbrota en stríðsglæpi. Hann ákærir einstaklinga, frægastur sakborning er Slobodan Milosevic.

Segja má að Lúxembourg sé næsta vígi Evrópuréttarins á eftir Brussel. Þar eru tveir dómstólar, Reyndar misþekktir á alþjóðavettvangi.

-Evrópudómstóllinn. Aðaldómstóll Evrópusambandsins. Hann fæst við reglur Evrópusambandsins. Íslendingar geta ekki farið með mál þangað.

-EFTA dómstóllinn fæst við EES samninginn. Þangað geta þeir leitað sem telja að Ísland, Noregur eða Lichtenstein brjóti á sér þau réttindi sem þeim eru tryggð í EES samningnum. Dómstólar þessara þriggja aðildarríkja geta einnig leitað ráðgefandi álits hjá honum áður en þeir dæma í málum.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassbourg. Eins og nafnið gefur til kynna fæst sá dómstóll við þau réttindi sem fjallað er um í Mannréttindasáttmála Evrópu. Evrópuráðið heldur utan um hann. Mannréttindadómstóllinn er klárinn sem dregur þróun mannréttinda áfram í heiminum að miklu leyti. Þangað geta einstaklingar, hópar einstaklinga og samtök leitað réttar síns gagnvart aðildarríkjum manréttindasáttmálans. Ríki geta einnig höfðað mál gagnvart öðrum ríkjum, það er afar sjaldgæft. Davíð Þór Björgvinsson er að taka við af Gauki Jörundssyni sem dómari íslendinga hjá dómstólnum.

Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna í Hamborg. Hann fæst eins og nafnið gefur til kynna við Hafréttarmál. Íslendingar hafa átt einn dómara þar, Guðmund Eiríksson fyrrverandi meðlim alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna (ILC). Með Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna voru settar á laggirnar þrjár stofnanir svo að fullvíst væri að farið væri eftir samningnum. Dómstóllinn er ein af þessum stofnunum.

Hægt er að telja upp fleiri dómstóla og stofnanir sem fjalla um alþjóðalög, t.d. Mannréttindadómstól Ameríku, Mannréttinda- og hópréttindadómstól Afríku og Alþjóðsakmáladómstólinn fyrir Rúanda, það yrði hins vegar dágott uppflettirit. Verður hér því staðar numið og þess vænst að fjölmiðlar fjalla einungis um þá alþjóðlegu dómstóla sem til eru í raun og veru í framtíðinni.