Fangavörður – Fangi

Fréttaflutningur af misþyrmingum bandarískra hermanna á föngum í Írak hefur vakið viðbjóð og reiði fólks, hvort sem er í Bandaríkjunum eða annars staðar. Fyrst bárust fréttir frá Abu Ghraib fangelsinu, síðan frá fleiri stöðum í Írak og nú nýlega hafa borist fregnir af svipuðum misþyrmingum frá fangelsinu á Bagram flugvelli nálægt Kabúl ásamt fleiri fangelsum í Afganistan.

Fréttaflutningur af misþyrmingum bandarískra hermanna á föngum í Írak hefur vakið viðbjóð og reiði fólks, hvort sem er í Bandaríkjunum eða annars staðar. Fyrst bárust fréttir frá Abu Ghraib fangelsinu, síðan frá fleiri stöðum í Írak og nú nýlega hafa borist fregnir af svipuðum misþyrmingum frá fangelsinu á Bagram flugvelli nálægt Kabúl ásamt fleiri fangelsum í Afganistan.

Óhjákvæmilega veltir fólk nú fyrir sér hvar sökin liggi. Voru fangaverðirnir að fylgja skipunum yfirmanna, voru þetta bara svona „vondar“ manneskjur sem völdust til þessara starfa eða höfðu aðstæðurnar þau áhrif, á annars venjulegt fólk, að það leiddist út í slík verk? Eða eitthvað allt annað?

Margt bendir til að ýmis misyndisverk fangavarðanna hafi verið framin að undirlagi yfirmanna. Hér verður ekki farið í vangaveltur um „vondar“ manneskjur enda geta þær tæplega skýrt ástandið – Skoðum heldur hvernig aðstæður sem þessar gætu haft áhrif á venjulegt fólk.

Athyglisvert er að skoða fræga sálfræðitilraun sem framkvæmd var sumarið 1971 í Stanford háskólanum í Bandaríkjunum. Tilraunin hefur verið nefnd á frummálinu „The Stanford prison experiment“ og fjallaði um að búa til líkan af raunverulegu fangelsi.

Rannsakendurnir útbjuggu kjallara sálfræðibyggingarinnar þannig að hann líktist raunverulegu fangelsi, með fangaklefum sem lokað var með rimlahurðum og öðru tilheyrandi. Auglýst var eftir sjálfboðaliðum og af þeim sem sýndu áhuga voru 24 karlkyns háskólastúdentar valdir sem þóttu „eðlilegir“ samkvæmt þeim sálfræðiprófum sem gerð voru. Þeim var síðan úthlutað handahófskennt ýmist hlutverki fangavarðar eða fanga. Þá hófst tilraunin, fangarnir höfðust við í fangaklefunum og fangaverðirnir höfðu það hlutverk að halda uppi aga í fangelsinu.

Gert var ráð fyrir að tilraunin stæði í tvær vikur. Í mjög stuttu máli var tilraunin stöðvuð eftir aðeins 6 daga þar sem sumir fangaverðirnir voru farnir að sýna hegðun sem einkenndist af kvalalosta og nutu þess að niðurlægja fangana á kynferðislegan hátt með aðferðum sem svipar til þeirra sem nú hefur verið beitt í Írak og Afganistan.

Þetta gerist í sálfræðitilraun eftir aðeins sex daga þar sem þátttakendur eru venjulegir háskólanemar. Það er því ekki undarlegt að Dr. Philip Zimbardo, leiðandi höfundur tilraunarinnar, hafi haft áhyggjur þegar illa þjálfaðir varaliðar voru sendir til Írak í margra mánaða verkefni sem fangaverðir.

Nú eru Bandaríkjamenn aðilar að Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga en í 127. grein, 2.mgr sáttmálans segir (lauslega þýtt):

„Aðilar þeir, sem á stríðstímum taka ábyrgð á stríðsföngum, verða að hafa í fórum sínum eintak af sáttmála þessum og skulu vera sérstaklega upplýstir um ákvæði hans.“

Þessu ákvæði hafa Bandaríkjamenn ekki fylgt eftir á fullnægjandi hátt enda er kannski helsta vandamálið við sáttmálann þessi misserin hversu illa þeim gengur að fara eftir honum. Það þýðir samt ekki að sáttmálinn sé einskins verður og megi ekki endurskoða. Með tilliti til ofangreindrar tilraunar og reynslunnar frá Írak og Afganistan mætti kannski hugsa sér að vel færi á að bæta við frekari ákvæðum um þjálfun og kunnáttu starfsfólks sem ábyrgð tekur á stríðsföngum.

Ástæður misþyrminganna gætu m.a. verið skipanir yfirmanna eða þjálfunarleysi fangavarðanna. Að öllum líkindum leggst þetta að einhverju leyti saman ásamt öðru. Í hvoru tilvikinu sem er ætti ábyrgðin að megin hluta að liggja, eins og margir hafa bent á áður, hjá æðstu yfirmönnum hersins.

Árið 2001 var gerð þýsk kvikmynd byggð á tilrauninni, nefnd „Das Experiment“, sem hæglega má mæla með.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)