Góð og gild rök Björns Inga varðandi Íraksstríðið

Í marsmánuði fór fram málstofa í lagadeild Íslands þar sem umræðuefnið var framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Framsögumenn voru Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.

Í marsmánuði fór fram málstofa í lagadeild Íslands þar sem umræðuefnið var framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Framsögumenn voru Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.

Eftir framsögu var mælendaskrá opnuð. Þar spurði greinarhöfundur hvort það væri ekki sérstakt af íslenska ríkinu að sækjast eftir aðild að stofnun sem Íslendingar hafa hundsað í tvígang, þ.e. stutt innrásina í Írak án samþykkis öryggisráðsins auk loftárása NATO á Kosovo 1999 án samþykkis öryggisráðsins.

Man ég nú ekki nákvæmlega hvert svar Björns Inga var en ég man þó að hann fullyrti að innrásin í Írak ætti við góð og gild þjóðréttarleg rök að styðjast, án þess að útskýra þau ummæli nánar. Ég skal taka undir með Birni Inga að innrásin var studd með rökum en hvort þau voru góð og gild er annað mál.

Í stofnsamþykkt Sameinuðu þjóðanna (UN Charter) birtast þær meginreglur er gilda um stríð. Eru þær taldar þjóðréttarvenja, þannig að öll ríki þurfa að fara eftir þeim. Ekki nóg með að reglurnar séu taldar þjóðréttarvenja heldur eru þær taldar meðal þeirra reglna er teljast grundvallarreglur þjóðaréttar (jus cogens). Þær reglur eru ófrávíkjanlegar og binda öll ríki hvort sem þau eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum eða ekki.

Af lestri ákvæða stofnsamþykktarinnar er ljóst að meginreglan er sú að óheimilt er að hefja stríð. Tvær undantekningar eru gerðar. Annars vegar er sjálfsvörn leyfð og hins vegar er heimilt að beita vopnavaldi ef Öryggisráðið heimilar beitingu þess.

Skoðum þetta nánar.

Sjálfsvörn

Í 4. mgr. 2. gr. stofnsamþykktarinnar kemur fram að allir meðlimir skulu í milliríkjasamskiptum varast hótanir um valdbeitingu eða beitingu valds gegn landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði nokkurs ríkis eða á neinn annan hátt, sem brýtur í bága við markmið hinna sameinuðu þjóða. Eitt af þessum markmiðum er tekið fram í 1. tl. 1. gr. og er að varðveita heimsfrið og öryggi og gera í því skyni virkar, sameiginlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir og eyða hættu á friðrofi og til að bæla niður árásaraðgerðir eða friðrof og til á friðsamlegan hátt og í samræmi við grundvallarreglur réttvísi og þjóðaréttar að koma á sættum eða lausn milliríkja deilumála eða ástands, sem leiða kann til friðrofs.

Í 51. gr. samþykktarinnar er tekið fram hvenær heimilt er að beita vopnavaldi í milliríkjasamskiptum. Þar segir: „Engin ákvæði þessa sáttmála skulu takmarka hinn órjúfanlega rétt ríkis til sjálfsvarnar, eitt sér eða með öðrum ríkjum, ef ráðist er með hervaldi á meðlim hinna sameinuðu þjóða, þangað til öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir, gerðar af meðlimum við framkvæmd þessa sjálfsvarnarréttar, skulu undireins tilkynntar öryggisráðinu, og skulu þær á engan hátt skerða vald og ábyrgð öryggisráðsins samkv. þessum sáttmála til að hefja, hvenær sem er, þær aðgerðir, sem það álítur nauðsynlegar til að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.“

Nú vitum við að sjálfsvörn er heimil. Þá er bara að svara spurningunni um hvenær heimilt er að beita henni. Þegar þeirri spurningu er svarað er hægt að hverfa aftur í tímann, nánar til tekið til ársins 1842, og skoða bréfaskipti ríkisstjórna Kanada og Bretlands eftir hið svokallaða Caroline mál. Það mál fjallaði um skipið Caroline sem Bretar töldu sig hafa sökkt í sjálfsvörn. Sjónarmiðin sem birtast í bréfi Breta eru enn talin í fullu gildi. Lögðu Bretar á það sérstaka áherslu á að sjálfvörnin hefði verið nauðsynleg. Til að sjálfsvörn teljist nauðsynleg þarf þörfin fyrir hana að vera brýn, yfirþyrmandi, aðkallandi og það mega engin önnur raunhæf úrræði hafa verið til staðar. Í máli Nikvaragúa gegn Bandaríkjunum frá 1984 staðfesti Alþjóðadómstóllinn í Haag að þessi sjónarmið eru enn í fullu gildi. Nokkuð ljóst er að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra geta ekki byggt innrásina á sjálfsvarnarrökum enda vofði engin innrás Íraka inn í Bandaríkin auk þess sem engin tengsl virðast hafa verið milli Al-queda hryðjuverkasamtakanna og ríkisstjórnar Saddams Hussein eins og George Bush hélt fram og heldur reyndar ennþá fram.

En eru þá fyrirbyggjandi innrásir leyfilegar eins og George Bush og félagar hans halda fram? 51. gr. stofnsamþykktarinnar minnist ekkert á fyrirbyggjandi árásir. Slíkar árásir geta þó verið leyfilegar skv. þjóðréttarvenju en þá einungis að uppfylltum vissum ströngum skilyrðum. Þau eru:

1. Ríki er skotmark óvinveittra aðgerða annars ríkis.

2. Ríkinu sem ógnað er hefur þurrausið öll möguleg varnarúrræði.

3. Ógnin er yfirvofandi.

4. Varnaraðgerðirnar sem gripið er til eru í samræmi við hina yfirvofandi ógn.

Án þess að skoða hvert og eitt einstakt atriði hljótum við að sjá að innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra uppfyllir ekki þessi skilyrði. Reyndar hafa nokkrir hægrisinnaðir Bandaríkjamenn verið að gæla við ansi framsæknar hugmyndir í þessum efnum sem George Bush virðist aðhyllast. Þær teljast þó ekki þjóðréttarvenja og hægt er að halda því fram að þær stangist á við reglur Sameinuðu þjóðanna t.d. fyrrnefnda 4. mgr. 2.gr.

Ljóst hlýtur því að vera að innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra var ekki hægt að réttlæta með sjálfsvarnarrökum.

Ályktanir Öryggisráðsins

Í 1. mgr. 24. gr. samþykktarinnar segir að til þess að tryggja skjótar og haldgóðar aðgerðir af hálfu hinna sameinuðu þjóða, fela meðlimir þeirra öryggisráðinu aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis og eru ásáttir um, að öryggisráðið starfi fyrir þeirra hönd, þegar það framkvæmir skyldustörf sín í samræmi við þessa ábyrgð. Í 39. gr. samþykktarinnar segir að öryggisráðið skuli úrskurða, hvort fyrir hendi sé ófriðarhætta, friðrof eða árás, og skal gera tillögur um eða ákveða, hvaða ráðstafanir skuli gerðar í samræmi við 41. og 42. gr. til þess að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.

Í 42. gr. samþykktarinnar segir: Nú álítur öryggisráðið, að ráðstafanir þær, sem um getur í 41. gr. (léttvægari úrræði en í 42. gr.), mundu vera ónógar eða hafa reynst ófullnægjandi, og getur ráðið þá gripið til hernaðaraðgerða með lofther, flota eða landher, eftir því sem nauðsyn krefur, til að varðveita eða koma aftur á heimsfriði og öryggi. Slíkar aðgerðir megar vera fólgnar í ögrun, hafnbanni og öðrum aðgerðum lofthers, flota eða landhers meðlima hinna sameinuðu þjóða. Þar sem her Sameinuðu þjóðanna sem getið er um í 43. gr. hefur aldrei verið stofnaður, biðja Sameinuðu þjóðirnar ríki heims að ljá hermenn og tækjabúnað til vopnaskaksins.

Öryggisráðið hafði ekki heimilað innrás inn í Írak. Ráðið hafði hins vegar lýst yfir áhyggjum með nokkrum ályktunum vegna framferði íraska ríkisins í hinum og þesum málum og hótað að gripið yrði til harðari aðgerða ef Írakar færu ekki eftir fyrri ályktunum. Hver hugsandi maður hlýtur að sjá það að hótun um að grípa til harðari aðgerða felur ekki í sér heimild til beitingu vopnavalds.

Til þess að sýna þetta með dæmi þá er ályktun nr. 678 dæmi um heimild til beitingu vopnavalds en sú ályktun heimilaði m.a. ríkjum heims að hrekja Íraka frá Kúvæt. Í ályktun nr. 678 sagði m.a.: The Security Council … Acting under Chapter VII of the Charter … Authorizes Member States co-operating with the the Government of Kuwait, unless Iraq on or before 15 January 1991 fully implements, as set forth in paragraph 1 above, the foregoing resolutions, to use all necessary means to uphold and implement resolution 660 (1990) and all subsequent relevant resolutions and to restore international peace and security in the area.

Engin álíka ályktun lá fyrir frá Öryggisráðinu áður en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra héldu inn í Írak.

Til að lesendur átti sig á því hvaða meginhlutverki öryggisráðið á að gegna í alþjóðakerfinu og hvert vægi ályktanir öryggisráðsins hafa þá er rétt að geta 25. gr. og 103. gr. samþykktarinnar. Í 25. gr. kemur fram að meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við ákvæði þessa sáttmála. Í 103. gr. segir ef svo ber til, að árekstur verði milli kvaða meðlima hinna sameinuðu þjóða samkvæmt þessum sáttmála og kvaða þeirra samkvæmt einhverjum öðrum alþjóðasamningi, skulu kvaðir þeirra samkvæmt þessum sáttmála sitja í fyrirrúmi. Af þesum tveimur greinum leiðir að ályktanir öryggisráðsins trompa aðrar þjóðréttarlegar skyldur og ríkjum er skylt að hlíta þeim hvort sem þau eru sammála þeim eður ei.

Það er því gríðarlega alvarlegt að Bandaríkjamenn og bandamenn hafi ráðist á Írak án samþykkis öryggisráðsins.

Mannúðaríhlutun

Eftir því sem leitin að gjöreyðingarvopnum leit verr og verr út fóru Bandaríkjamenn að benda á hversu gott það væri fyrir írösku þjóðina að vera laus við illmennið Saddam Hussein. Hugtakið mannúðaríhlutun hefur verið að ryðja sér rúms í þjóðarétti. Inntak hugtaksins er hins vegar óskýrt og auðvelt að misnota það, t.d. notaði Hitler mannúðaríhlutun til að réttlæta hernám Bæheims og Moravíu. Það þurfa að vera gríðarlega öfgafullar aðstæður svo að mannúðaríhlutun sé réttlætanleg, t.d. telja stuðningsmenn mannúðaríhlutunar að hópmorð (genocide) og aðrir stórfelldir mannúðarglæpir (crimes against humanity) réttlæti hana. Þó svo að Saddam Hussein hafi verið algjört ómenni þá var ástandið ekki svo slæmt í Írak að innrás væri réttlætanleg. Eins þarf ákvörðun um mannúðaríhlutun eins og aðrar ákvarðanir um beitingu vopnavalds að fara í gegnum öryggisráðið hverju svo sem Norður-Atlantshafsbandalagið heldur fram.

Niðurstaðan hlýtur því að vera að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra fóru gegn reglum þjóðaréttarins um stríð. Engin gild þjóðréttarleg rök réttlætu árásina. Er það niðurstaða mín að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra gerðust sekir um glæp allra glæpa, eins og Nürnbergdómstóllinn orðaði það, árásarstríð og maðurinn sem Björn Ingi aðstoðar, studdi það.