Frískur og fjörugur með Hemma Gunn

Hermann Gunnarson eða Hemmi Gunn er líklega þekktari fyrir kúnstir með bolta og þáttastjórnun heldur en listsköpun. Hemmi Gunn hefur hins vegar gefið út hljómplötur. Önnur þeirra er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Ber hún nafnið Frískur og fjörugur og er til marks um dúndrandi snilli mannsins á listasviðinu.

Hermann Gunnarson eða Hemmi Gunn er líklega þekktari fyrir kúnstir með bolta og þáttastjórnun en listsköpun. Hemmi Gunn hefur hins vegar gefið út hljómplötur. Önnur þeirra er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Ber hún nafnið Frískur og fjörugur og er til marks um dúndrandi snilli mannsins á listasviðinu.

Hemmi Gunn hefur ætíð verið mér hugleikinn. Má rekja það til þess að ég var svo heppinn á níunda aldursári að vera meðal áhorfanda hjá Hemma í þætti hans Á tali sem sýndur var á Ríkissjónvarpinu. Er sú reynsla greypt í miningunni enda frekar sérstakir gestir hjá Hemma það kvöldið t.a.m. tók feitasta hljómsveit í heimi lagið, Mammoth, og frægasta Michael Jackson eftirherma í heimi sýndi nokkur dansspor.

Það var svo ekki fyrr en á síðasta ári að leiðir okkar Hemma lágu saman aftur þegar ég komst í kynni við hljómplötu Hemma Frískur og fjörugur í teiti hjá félaga mínum.

Hljómplatan Frískur og fjörugur var gefin út árið 1984 og endurútgefin 1999 á geisladisk af útgáfufyrirtækinu Geimsteini. Rúnar Júlíusson kemur mikið að plötunni eða eins og Hemmi lýsir með eigin orðum: „Einn af æðstu prestum popptónlistar á Íslandi í áratugi Rúnar Júlíusson lék á mig eins og síamsköttur að kartöflumús, líkt og í knattspyrnunni og við reynum að gera gott úr öllu líkt og framleiðendur sælgætis.“

Hægt er að gagnrýna rýrt nýsköpunargildi plötunnar enda í raun einungis um endurvinnslu að ræða. En þvílík endurvinnsla. Það er einhvað rosalegt súrleikastuð yfirbragð yfir henni allri sem gerir hana ógleymanlega þeim sem á hlýða. Þetta er án efa ein allra undarlegasta plata sem undirritaður hefur heyrt. Hver var ásetningurinn með útgáfunni? Hvað voru Hemmi og Rúnni Júl að pæla? Hvers vegna gaf maður sem kann ekkert að syngja út sólóplötu? Hvað með að nota fleiri hljóðfæri en gítar, skemmtara og trommuheila? Hvers vegna er ekkert frumsamið efni á plötunni? Hvað er þetta með Gylfa Ægis? Spurningarnar eru óteljandi sem kvikna í huga manns við hlustun skífunnar. Hvað sem líður spurningunum fagna ég að platan skyldi koma út.

Umslagið á hljómplötunni er afar sérstakt. Framan á því er Hemmi hoppandi í fáránlegum gulum samfestingi með litaklessum og í bakgrunni er lítil stelpa sem horfir í átt til Hemma skælbrosandi. Bakhliðin er svipuð nema þar snýr Hemmi baki og gömul brosandi kona komin í bakgrunninn. Á þetta hulstur að vera til heiðurs dyggustu aðdáendum Hemma. Ekki má gleyma lesningunni sem fylgir disknum, dæmi:

„Listin (lystin) er hverful, sagði gömul kona í Keflavík einu sinni og bætti við, að þetta væri ágæt plata, en roskinn maður á Reyðarfirði sagði, að þetta væri lélegt. Svona er smekkur fólks misjafn, ef ekki er borðað með hnífapörum.“

Þorsteinn Eggertssonar snarar tveimur erlendum textum yfir á íslensku. Þýðingarnar eru tær snilli. Tökum dæmi af laginu Einn dans við mig:

Ég kom klukkan tólf

einn á ballið, til í skrallið,

fór inn á bar og settist þar.

Drakk og drakk, fór á flakk.

Það kostar puð

að koma sér í stuð.

„Ég er einn í kvöld.

Einn dans við mig?“

Klukkan eitt fylltist gólf.

Siggi, Kalli, Gummi, Njalli, Valli, Jósef (það matargat)

og fleiri komu en ég sat.

Ég reynd’ að drekka í mig kjark

í píuhark.

Það var minn tilgangur og mark.

Einn dans við mig

Einn dans við mig.

Einn dans við mig, mig, mig, mig, mig.

Einn dans við mig.

Á mig sveif; lalala!

Sigga, Magga, Rut og Ragga, Dagga, Svala, Jónína

Um allan sal…

Ég skal, ég skal…

Og svo var klukkan orðin tvö

-og þá fer ég í stuð.

Ég fæ mér einn og öskra Mööö!

Einn dans við mig?

Inn’ á bar

Tómt mas og þras

við að ná í glas.

„Halló beibí hvar er kallinn þinn í kvöld?

Kemur’ oft hingað?

Ertu ein?

Við skulum kýl’ á soldið gas.“

Einn dans við mig… o.s.frv.

Klukkan kortér í þrjú

stend ég upp – spá í frú.

Ég er fær í flestan sjó;

Hef drukkið nóg.

Markmiðið er

Að fá píu heim með mér.

Einn dans við mig… o.s.frv

Þetta er eitt af fáum lögum sem undirritaður hefur séð fólk hreinlega ganga af göflunum, dansa á borðum, hanga í ljósakrónum og fækka fötum svo eitthvað sé nefnt.

Svo virðist vera sem að afar erfitt sé að nálgast skífuna í höfuðborginni. Þau þrjú eintök sem ég hef keypt fundust í skúmaskotum Leifsstöðvar í búðinni sem selur íslenskar matvörur. Skora ég á Hemma og Rúnna að gefa fleiri eintök út af skífunni. Er ég sannfærður um að hún myndi rokseljast enda skífan löngu orðin sígild.

Áfram Hemmi!!!