Orkuveituhagfræði

Titill pistilsins gæti gefið von um að fjallað yrði um einhverskonar hagfræði orkunotkunar. Ekki var þó hugmyndin að gerast svo háfleygur heldur frekar að fjalla um afar sérstaka siði sem virðast ráða ríkjum í okkar ágæta opinbera fyrirtæki Orkuveitu Reykjvíkur og virðist lítið tengjast hagfræði.

Titill pistilsins gæti gefið von um að fjallað yrði um einhverskonar hagfræði orkunotkunar. Ekki var þó hugmyndin að gerast svo háfleygur heldur frekar að fjalla um afar sérstaka siði sem virðast ráða ríkjum í okkar ágæta opinbera fyrirtæki Orkuveitu Reykjvíkur og virðist lítið tengjast hagfræði.

Málefni Orkuveitunnar komast yfirleitt í hámæli í kring um kosningar til borgarstjórnar. Til dæmis var gert mikið úr því í síðustu kosningum að fjárhagur borgarinnar væri of tengdur fjárhag Orkuveitunnar og gæfi það ranga mynd af raunverulegri stöðu fjármála í borginni. Hvort það sé rétt skal ósagt látið en þó er víst að Orkuveitan er rekstri Reykjavíkurborgar mikilvæg.

Orkuveita Reykjavíkur hefur alla burði til að vera mjög gott fyrirtæki. Sjá Reykvíkingum fyrir heitu vatni og rafmagni með sem minnstum tilkostnaði hlýtur að vera aðalmarkmið þessa fyrirtækis og ætti, með öllu réttu, að stýra allri stefnumótun og stjórnun þess. Reyndar eru margir á þeirri skoðun, þ.a.m. undirritaður, að hægt væri að nýta einkaframtakið í ríkari mæli til að ná því markmiði og tryggja að samkeppni veiti almennilegt aðhald og tryggi sem besta þjónustu fyrir sem minnst verð innan þess ramma sem því er sett í upphafi.

Ef ekki er vilji til að einkavæða fyrirtækið er þá vonandi að þeir sem því stjórna, framsóknarforkólfurinn Alfreð Þorsteinsson og co, átti sig á nokkrum grundvallaratriðum í rekstri fyrirtækja svo sem lögmáli um framboð og eftirspurn, að samkeppni er betri en fákeppni og að einkarekstur fer betur með fjármuni en ríkisrekstur.

Því miður virðist eitthvað skorta á slíkan hugsunarhátt hjá stjórn Orkuveitunnar. Besta dæmið er líklega hækkun á gjaldskrá Orkuveitunnar ekki alls fyrir löngu vegna lítillar notkunar borgarbúa á heitu vatni! Skilaboðin voru sem sagt þau að ef fólk sparar sér kyndingu hækkar orkuverð. Engu máli skiptir hvort ofnarnir séu á einum eða fimm, Orkuveitan sér um að jafna það út. Reyndar gekk sú hækkun þvert á það sem formaður fyrirtækisins sagði í kring um einhverjar kosningarnar að lægra orkuverð ylli því fólk sóaði orku og væri því kannski ekki skynsamlegt að lækka verðskrána.

Stjórnendur OR hafa svarað því til að orkuverð í Reykjavík sé eitt það lægsta á norðurlöndunum. Varla getur sá samanburður talist sanngjarn því miðað er lönd sem m.a. treysta á kjarnorku og kol til orkuframleiðslu á meðan við búum við einstök skilyrði; varma í jörðu og tiltölulega þægilega nýtingu á vatnsafli.

Þeim sem finnst óeðlilegt, og í raun ótækt, að fyrirtæki í eigu hins opinbera skuli vera í beinni samkeppni við fyrirtæki á markaði og veiti áhættufé í óarðsaman rekstur sem ekki hefur fengist fjármagnaður í einkageiranum, eins og Orkuveitan hefur gerst sek um upp á síðkastið, eiga væntanlega ekki orð yfir nýjasta útspili stjórnarformanns fyrirtækisins: Hugmyndum um að Orkuveitan kaupi Landssíma Íslandi – fyrirtæki sem hefur beðið þess í nokkurn tíma að komast á almennan markað og er í harðri samkeppni.

Vel getur verið að þessi hugmynd sé einhver hluti af miklu pólitísku plotti Alfreðs og til þess gert að gera lítið úr því einkavæðingarferli sem íslenskt þjóðfélag hefur gengið í gegn um á undanförnum árum. Miðað við hvernig Orkuveitan hefur verið rekin er þó líklegra að honum finnist ekkert eðlilegra en opinbert fyrirtæki kaupi annað opinbert fyrirtæki. Fyrri fjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur svo sem í risarækjueldi, Lína.net og Tetra Ísland gefa í það minnsta ekki fyrirheit um neitt annað.

Fjárfestingar Orkuveitunnar á síðustu árum, kostnaður við byggingu höfuðstöðva sem fór langt fram úr áætlun og óskiljanlegar ákvarðanir í tengslum við aðstæður á markaði eru allt vottur um að ekki mikil virðing sé borin fyrir því fjármagni sem Orkuveitan verður sér út um í einokunarumhverfi. Slíkir stjórnunarhættir yrðu ekki lífseigir í samkeppnisumhverfi en þar sem Reykvíkingar neyðast til að skipta við fyrirtækið þurfum við að borga brúsann.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.