Auga fyrir auga

Á Íslandi virðist sú skoðun útbreidd að lagareglan “auga fyrir auga og tönn fyrir tönn” varpi mikilvægu ljósi á aðgerðir Ísraelsríkis. Áróður á þessum nótum er ótrúlega ósanngjarn.

Á Íslandi virðist sú skoðun útbreidd að lagareglan “auga fyrir auga og tönn fyrir tönn” varpi mikilvægu ljósi á aðgerðir Ísraelsríkis. Oft er talað um að þessi hugmynd beri vott um grimmd gyðingatrúar í samanburði við kristna trú sem snýst aðallega um kærleika og fyrirgefningu. Þessi áróður er ótrúlega ósanngjarn.

Lítum fyrst á sögu hugmyndarinnar um “auga fyrir auga og tönn fyrir tönn”. Þessi hugmynd á rætur sínar að rekja til Hammurabi konungs í Babilóníu. Í frumstæðum ríkjum fyrir tíma Hammurabi gilti sú hefð að þegar brotið var á einstaklingi hefndi hann (eða fjölskylda hans) fyrir brotið. Slíkar hefndir vildu oft vera margfaldar á við upphaflega brotið. Íslendingar sem lesið hafa fornsögurnar kannast við slíkar atburðarásir. Reglan um “auga fyrir auga” var sett til þess að takmarka leyfilega hefnd fyrir brot. Hún var því á sínum tíma mikil réttarbót.

Skemmst er frá því að segja að þessi regla var tekin upp nokkuð almennt af þeim þjóðflokkum sem lifðu í Mið-Austurlöndum, Gyðingum og öðrum. Þar sem grunnlagabækur gyðinga (Torah, sem einnig eru fyrstu kaflar Gamla Testamentsins) voru ritaðar á þessum tíma endurspegla þær þessa hugmynd um refsirétt.

Reglan um “auga fyrir auga” hefur hins vegar ekki verið túlkuð bókstaflega af lögspekingum gyðinga í nokkur þúsund ár. Þess í stað hafa hugmyndir þeirra um refsirétt þróast með svipuðum hætti og hugmyndir kristinna samfélaga um sama efni. Til dæmis er langt síðan byrjað var að túlka þetta ákvæði innan gyðingdóms svo að greiða mætti bætur í formi peninga. Hér er ágætis grein þar sem lesa má um túlkun þessarar lagareglu í gegnum aldirnar

Forfeður Araba sem bjuggu í Mið-Austurlöndum tóku einnig upp lagaregluna um “auga fyrir auga” á svipuðum tíma og Gyðingar. Það sem verra er, sum Arabaríki túlka þessa reglu bókstaflega enn þann dag í dag.

En burt sé frá því hvort Gyðingar túlka þessa reglu bókstaflega, segir það ekki eitthvað um trú Gyðinga að hugmyndir um refsirétt eins og “auga fyrir auga” séu hluti af trú þeirra? Má ekki búast við að þeir bregðist við af meiri grimmd en kristnir menn þar sem inntakið í trú þeirra er að hluta til refsiréttur? Má ekki segja að kristin trú sé betri og leiði til meiri friðar þar sem inntakið í henni er kærleikur og fyrirgefning? Spurningar af þessu tagi heyrir maður frá hallmælendum Ísraelsríkis.

Þegar menn tala svona eru menn að falla í þá gryfju að bera saman epli og appelsínur. Kristin trú hefur alla tíð búið við þann lúxus að þróast innan samfélaga þar sem veraldleg lög eru til staðar og sjá um hluti eins og refsirétt. Kristin trú hefur því geta einbeitt sér að fögrum hugmyndum um siðferði manna án þess að þurfa að taka afstöðu til þess hvað á að gerast þegar einhver brýtur á rétti einhvers annars.

Þegar grunnrit gyðingdóms voru skrifuð hafði hugmyndin um að unnt væri að gera slíkan greinarmun á veraldlegum lögum og lögum guðs ekki komið fram. Torah er því ekki einungis grunnritið í trú Gyðinga heldur einnig grunnlagabók Gyðinga. Af þessum sökum er ekki unnt að leggja sama skilning í orðið trú þegar talað er um gyðingatrú og þegar talað er um kristna trú. Torah gat ekki leyft sér þann munað að fjalla einungis um kærleika og fyrirgefningu því öllum er ljóst að það kann ekki góðri lukku að stýra að engar reglur gildi um viðurlög við afbrotum. Á þessu ríkir vitaskuld skilningur á meðal Gyðinga. Börnum Gyðinga er kennt að Jésús hafi verið merkur rabbíni (gyðingaprestur) og kenningar hans um kærleika og fyrirgefningu eru mikils metnar enda byggja þær á eldri hugmyndum Gyðinga um sama efni.

Einhverjir kunna kannski að svara að það sýni sig ekki í aðgerðum Ísraelsmanna að þeir meti hugmyndir um kærleika og fyrirgefningu mikils. Í því sambandi má benda á að Bush Bandaríkjaforseti er sá af þjóðarleiðtogum Vestrænna ríkja sem mest vísar til trúar sinnar í stjórnarathöfnum sínum. Íslendingar eru flestir á því að hugmyndir um kærleika og fyrirgefningu sjái sér ekki stað í helstu stjórnaraðgerðum hans heldur. Að kenna gyðingatrú um stefnu Sharon er jafn fáránlegt og að kenna kristinni trú um stefnu Bush.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.