Misnotkun á málskotsrétti

Síðastliðinn miðvikudag varð grundvallarbreyting á íslenskri stjórnskipan. Ekki var það stjórnarskrárgjafinn sem stóð að þeirri breytingu heldur tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson um breytinguna á blaðamannafundi á Bessastöðum.

Við lifum sögulega tíma í íslenskum stjórnmálum. Á miðvikudaginn braut forseti Íslands blað í sögu lýðveldisins er hann neitaði að staðfesta lög sem lýðræðislega kjörið alþingi hafði sett með stjórnskipulega gildum hætti. Í fyrradag sagði forsætisráðherra að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin en forsetinn hefði með ákvörðun sinni efnt til ófriðar í íslensku samfélagi. Í gær sögðu bæði fjármálaráðherra og utanríksráðherra að endurskoða þyrfti ákvæði stjórnarskrárinnar um málskotsrétt forseta. Þessara daga verður lengi minnst.

Rótin að þessu öllu er hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp sem samþykkt var sem lög frá Alþingi mánudaginn 24. maí síðastliðinn. Sá sem þetta skrifar taldi og telur enn að efni laganna sé til miska fyrir íslenskan fjölmiðlamarkað. Það stríðir gegn þeirri grundvallarhugsun sjálfstæðisstefnunnar að einstaklingarnir fái notið sín á frjálsum markaði án afskipta ríkisvaldsins. Gerði undirritaður að nokkru grein fyrir afstöðu sinni í pistli hér á Deiglunni 2. maí sl.

Hafi mönnum þótt fjölmiðlamálð sjálft æsilegt, þá er það hjákátlegt við hlið þeirra atburða sem nú eiga sér stað. Á einum blaðamannafundi er áratuga langri hefð snúið við og allt í einu standa menn frammi fyrir því að alþingi ræður ekki för – þingræðið er brotið á bak aftur. Þetta kann að vera skemmtilegt viðfangsefni fyrir stjórnskipunarspekúlanta og auðvitað áhugavert að nú reyni á eitt umdeildasta ákvæði íslenskra stjórnskipunarlaga, að fræðilegar hugrenningar raungerist í fysískri atkvæðagreiðslu.

Undanfarnar vikur hefur mikil og heilbrigð umræða farið fram um málskotsrétt forseta. Sú umræða hefði aldrei orðið svo umfangsmikil ef ekki hefði komið til hinnar umdeildu lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum. Hafa mjög sterk rök verið færð fyrir því að málskotsréttur forsetans sé raunverulega til staðar en gegn því mæla þó einnig veigamikil sjónarmið. Í gegnum tíðina hafa ýmsir málsmetandi menn sett fram þá skoðun sína að þessi réttur væri til staðar en þeir hinir sömu hafa að jafnaði séð sérstaka ástæðu til að taka fram að fara verði með þennan rétt af ítrustu varfærni. Hann sé í raun stjórnskipulegur neyðarréttur – öryggisventill. Í gegnum tíðina hafa forsetar lýðveldisins umgengist þennan rétt af svo mikilli varfærni að vafi hefur leikið á um hvort hann sé raunverulegur eða ekki.

Það hefði verið æskilegt, svo ekki sé meira sagt, að niðurstaða hefði fengist í þessa umræðu áður en forsetinn tók þá ákvörðun að beita hinu umdeilda valdi sínu. Skemmst er að minnast þess að í vetur varð samhljómur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á þingi um að endurskoða þyrfti ákvæði stjórnarskrár um forseta Íslands með tilliti til hefðar og venju sem um þessi ákvæði hefði skapast. Eðlilega tóku allir stjórnmálaflokkar þá afstöðu að ekki stæði til að hrófla við þingræðinu, það yrði eftir sem áður hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar. Það er því í hæsta máta furðulegt að fylgjast með fulltrúum stjórnarandstöðunnar fagna því sérstaklega nú að forsetinn hindri lagasetningu Alþingis.

Forsetinn ætlar sér nú með yfirlýsingu á blaðamannafundi að gjörbreyta íslenskri stjórnskipan. Rökstuðningur hans fyrir málskoti verður ekki skilinn öðruvísi en að um pólitíska og persónulega ákvörðun sé að ræða, að forsetinn leggi sitt pólitíska og persónulega mat á að lögin séu ekki góð. Hann hefur sjálfur bent á að það sé ekki forsetans að leggja mat á stjórnarskrárgildi laga, það gerði hann með skilmerkilegm hætti í öryrkjamálinu.

Ef við föllumst á að forsetinn geti beitt málskotsréttinum með þeim hætti sem hann gerir nú, er staðan einfaldlega sú, að embætti forseta Íslands hefur orðið stórkostlega pólitíska þýðingu. Hann gæti þess vegna með sömu rökum og hann færði fyrir ákvörðun sinni á Bessastöðum á miðvikudaginn, synjað mörgum lögum Alþingis staðfestingar á hverju einasta löggjafarþingi, alltaf með tilvísun til þess að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar.

Stjórnskipun ýmissa ríkja gerir einmitt ráð fyrir veigamiklu og pólitísku hlutverki forsetans. Þannig er því til að mynda farið í Frakklandi og auðvitað í Bandaríkjunum. Við Íslendingar höfum búið við allt annars konar stjórnskipun og stjórnskipun ríkja verður auðvitað ekki breytt eftir því hvernig vindar blásar eða hver situr á forsetastóli. Ef við vildum breyta stjórnskipan okkar þá þyrfti það að gerast að vel ígrunduðu máli og með stjórnskipulega gildum hætti. Ef við ætluðum forsetanum aukið pólitískt hlutverk þá er það stjórnarskrárgjafans að breyta því. Það er ekki persónunnar sem situr á forsetastóli í það og það skiptið að tilkynna um slíkar grundvallarbreytingar á blaðamannafundi á Bessastöðum.

Nú þegar málið er komið með þessum hætti er það hyggilegt af ríkisstjórn Íslands að láta undan offari forsetans og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin óstaðfestu lög. Allt annað gæti stofnað stjórnarfarslegum stöðugleika hér í mikla hættu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En í kjölfarið hljóta menn að taka til gagngerrar skoðunar ákvæði stjórnarskrárinnar um forseta Íslands. Til greina hlýtur að koma að afnema málskotsréttinn í núverandi mynd, í ljósi þess hvernig honum hefur nú verið beitt. Ekki verður séð að önnur leið sé fær ef menn ætla á annað borð að byggja áfram á þingræðisreglunni.

Misnotkun Ólafs Ragnars Grímssonar á þessum öryggisventli íslenskrar stjórnskipunar hefur því í raun eyðilagt ventilinn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.