Viðskiptalífið og forsetaembættið

Umræða um forsetaembættið, hlutverk þess og skyldur, er nú að hefjast fyrir alvöru um leið og kosningarnar færast nær.

Umræða um forsetaembættið, hlutverk þess og skyldur, er nú að hefjast fyrir alvöru um leið og kosningarnar færast nær. Yfirgripsmikil umfjöllun Tímarits Morgunblaðsins síðustu tvær helgar hafa veitt góða innsýn inn í dagleg störf forsetans og þróun embættisins síðustu 8 ár. Eitt þeirra atriða sem þar er fjallað ítarlega um og vekur athygli er aðkoma forsetans að viðskiptalífinu.

Töluverð breyting hefur greinilega orðið í þessu efni á undanförnum árum. Í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur virtist áherslan frekar vera á menningarstarf, börn, jafnrétti og landgræðslu. Mannabreytingar hafa að sjálfsögðu í för með sér áherslubreytingar, en þó Ólafur Ragnar Grímsson hafi boðað liðveislu sína við útrás íslensks atvinnulífs í kosningabaráttuinni 1996 er hæpið að ætla að þessar breytingar hafi átt sér stað einungis vegna þess hver gegnir embættinu. Miklu nær er að álykta sem svo að gífurleg aukningu í útrás íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum hafi kallað á aukna aðkomu forsetans og annarra stofnana landsins, s.s. ráðuneyta og ýmissa sendinefnda, að viðskiptalífinu. Þekking, reynsla og tengsl Ólafs Ragnars og Dorrit Moussaieff hafa svo komið að góðum notum.

En er eðlilegt að forsetinn hafi áberandi aðkomu að viðskiptalífinu, hverjar eru hætturnar og hversu mikil ætti aðkoma hans að vera?

Það er nokkuð samdóma álit þeirra athafna- og viðskiptamanna sem rætt var við í Morgunblaðinu að starf Ólafs Ragnars væri að þessu leyti vel metið og áhrifaríkt. Sú hætta er þó fyrir hendi að forsetinn blandi sér of mikið í viðskiptapólitík og hugsanlega hagsmunaárekstra peninga- og athafnamanna. Í þessu máli líkt og öðrum verður forsetinn að feta einhverja hárfína línu milli þess að taka þátt í því sem er að gerast í þjóðfélaginu og þess að gæta hlutleysis forsetaembættisins gagnvart mönnum og málefnum.

En það er ekki bara forsetinn sem tekur þátt í útrás íslensks athafnalífs. Ráðherrar og sendifulltrúar hafa margoft sést í veislum, opnunum og vígslum hjá fyrirtækjum og jafnvel auglýst vörur fyrir einstök fyrirtæki. Þetta hefur almennt ekki hlotið neina sérstaka athygli og sjálfsagt reyna ráðherrar að styðja við íslenskt atvinnulíf eftir því sem þeim er fært með því að mæta á staðinn þegar þess er óskað. Ráðherrar verða þó sem pólitískir fulltrúar, starfandi í umboð Alþingis, að gæta ákveðins hlutleysis líka og þess að hygla ekki um of fyrirtækjum sem teljast þeim hliðholl.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að benda á að það er opinber stefna ríkisins að aðstoða íslensk fyrirtæki í útrás á erlenda markaði, s.s. með rekstri Útflutningsráðs og aðgangi athafnamanna að sendiherrum erlendis. Stuðningur forsetaembættisins við opinbera stefnu stjórnvalda ætti að vera sjálfsagður að þessu leiti líkt og öðrum og verður ekki annað séð en að núverandi forseti hafi að öllu verulegu leyti sinnt þessu hlutverki sínu vel.

Liðveisla forsetaembættisins við atvinnulífið ætti að vera kærkomin bæði hjá viðskiptalífinu og hinu opinbera og ætti síst að vekja upp erfiðari spurningar en aðkoma ráðherra að einstökum fyrirtækjum eða verkefnum.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.