Skipun dómara I

Álit umboðsmanns Alþingis hleypti svo sannarlega nýju blóði í umræðuna um skipun dómara í Hæstarétt. Þar var nefnilega ekki einungis komist að þeirri niðurstöðu að ólöglega hefði verið staðið að skipun Ólafs Barkar heldur beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Alþingis að kanna hvort þörf væri á endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt.

Álit umboðsmanns Alþingis hleypti svo sannarlega nýju blóði í umræðuna um skipun dómara í Hæstarétt. Þar var nefnilega ekki einungis komist að þeirri niðurstöðu að ólöglega hefði verið staðið að skipun Ólafs Barkar heldur beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Alþingis að kanna hvort þörf væri á endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt.

Lögskipað hlutverk umboðsmanns Alþingis er að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmanni Alþingis ber auk þess að tilkynna það stjórnvöldum telji hann meinbugi vera á gildandi lögum. Það að umboðsmaður Alþingis sjái ástæðu til að gera athugasemd við hvernig ein af þremur stoðum ríkisins sé skipuð ber að taka alvarlega.

Án þess að tilefni sé til að rekja í löngu máli þrískiptingu ríkisvaldsins sem stjórnskipun landsins byggir á er rétt að minna á að þegar framkvæmdar- og löggjafarvaldið er eins samtvinnað og hér er raunin er sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart þessum tveimur þáttum enn mikilvægara en ella. Í áliti umboðsmanns Alþingis og greinargerð með frumvarpi er varð að lögum um dómstóla nr. 15/1998 er í löngu málið fjallað um nauðsyn þess að dómstólarnir séu óháðir framkvæmdar- og löggjafarvaldinu sem þeir hafa eftirlit með.

Þó sjálfstæði dómstólanna hafi verið aukið til muna með lögunum frá 1998 er vald ráðherra yfir dómsvaldinu enn nokkurt. Má þar nefna auk skipunar hæstaréttar- og héraðsdómara, skipun dómstjóra við héraðsdómstóla og veiting á lausn héraðsdómara og hæstaréttardómara frá störfum.

Við mat á því hvaða leið er best að fara við að skipa dómara og hjá hverjum það vald á að hvíla verður fyrst að kanna hvaða sjónarmið við skipun dómara tryggja best sjálfstæði og trúverðugleika dómsvaldsins. Grundvallaratriði sem flestir geta verið sammála um er að dómarar séu skipaðir á grundvelli hæfni og þekkingar. Annað grundvallaratriði sem til að mynda kemur fram í tilmælum Ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1994 er að tryggja beri gegnsæja og óháða málsmeðferð við skipunina og ákvörðun sé byggð á hlutlægum sjónarmiðum (sjá álit UA nr. 3882/2003, 3909/2003 og 3980/2003 bls. 20).

Það er á ábyrgð stjónrmálamanna og Alþingis að tryggja leikreglurnar sem spilað er eftir. Almennt má telja að það sé góð regla fyrir stjórnmálamenn að setja lög sem þeir vilja að gildi ef þeir væru ekki við stjórnvölinn heldur pólitískir andstæðingar þeirra. Í þessu máli er þetta sjónarmið enn mikilvægara en ella þar sem hér er um að ræða skipun þess valds sem hefur eftirlit með stjórnmálamönnum og störfum þeirra. Stjórnmálamenn verða í þessu máli líkt og öðrum að vera fullkomlega sáttir við reglurnar óháð því hvaða stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamenn eru við stjórnvölinn.

Í fréttum ríkisútvarpsins fyrir skömmu var fjallað um að í dómsmálaráðuneytinu væri til athugunar að undirbúa lög sem gerðu ráð fyrir að dómsmálaráðherra skipaði forseta Hæstaréttar. Forseti Hæstaréttar er nú kosinn af hæstaréttardómurum til tveggja ára í senn. Forseti Hæstaréttar fer samkvæmt lögum með yfirstjórn réttarins, skiptir verkum milli dómara, fer með agavald og ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum Hæstaréttar svo fátt eitt sé nefnt.

Það hlýtur að skjóta skökku við að á meðan umboðsmaður Alþingis lýsir áhyggjum yfir pólitískri aðkomu framkvæmdavaldsins að skipun dómara sé í athugun að setja lög sem gera ráð fyrir meiri íhlutun framkvæmdavaldsins í störf Hæstaréttar en nú er.

Það er óviðunandi að í lýðræðisþjóðfélagi sé skipun í öll dómaraembætti á forræði framkvæmdarvaldsins, þar sem sjálfstæði dómsvaldsins verður að vera traust og trú almennings á dómstólum hafin yfir vafa. Á morgun verður hér vikið að þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið að undanförnu um hvernig best megi haga tilnefningu og skipun dómara í Hæstarétt og héraðsdómstóla.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.