Berrassað laumuíhald

Sagan um nýju fötin keisarans er sígild og hefur kannski verið tíðar á vörum manna síðustu vikur en oft áður. Fólk á til að blindast af eigin hégóma og framagirni. Að sjálfsögðu verður þó ekki fjallað um slíkt fólk í þessum pistli.

Hér eru tveir stjórnarmenn í SUS, Magnús Þór Gylfason fyrrum formaður Heimdallar og Pétur Árni Jónsson fráfarandi framkvæmdastjóri SUS, en tilvalið hefði verið að fá hann til að hringja í stjórnina vegna málsins. Myndin er af vef SUS og birt með leyfi.

Nýverið fór fram undirskriftasöfnun til að benda á galla í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga. Að söfnuninni stóðu nokkur vefrit og landssamtök ungliðahreyfinga allra stjórnmálahreyfinganna nema Sjálfstæðisflokksins. Þó verður að geta þess að Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík hélt uppi merkjum ungra sjálfstæðismanna og tók þátt í söfnuninni.

Þessi samstaða á sér fá fordæmi og ber þess vitni að ungt fólk hefur hugrekki til að rísa gegn óréttlæti og benda á það þegar þeir sem sitja við stjórnvölinn fara of geyst – eða í það minnsta flest ungt fólk.

Þar sem undirskriftasöfnunin hófst um páskahelgina var með ólíkindum hve fljótt ungliðasamtökin brugðust við og fengu samþykki í stjórnum sínum fyrir þátttöku – nema SUS.

Báknið burt
Ungir sjálfstæðismenn hafa hingað til verði þekktari fyrir að vilja skera niður í opinberum rekstri, minnka skriffinsku og flækjustig kerfisins. Það skýtur því skökku við að þeir hafi verið tregastir í taumi.

Í símtali mínu við formann SUS, Hafstein Þór Hauksson, sex dögum eftir að ég óskaði eftir þátttöku SUS (þó reyndar aðeins þremur heilum virkum dögum) bar hann því við að viku þyrfti til að boða til stjórnarfundar, sem yrði daginn eftir, þessvegna hefðu samtökin ekki boðað þátttöku sína. Beiðni til SUS um þátttöku í verkefninu var þó ekki svarað að loknum stjórnarfundinum. Eflaust er um að kenna annríki formannsins við undirbúning fyrir nýtt starf sitt í dómsmálaráðuneytinu.

Að vísu skrifaði 2. varaformaður SUS, Friðjón Reynir Friðjónsson vefstjóri dómsmálaráðuneytisins, tvo pistla um málið á vefsíður SUS og Heimdallar. Þar ver hann frumvarp atvinnuveitanda síns og heldur því fram að það sé misskilningur að frumvarpið sé aðför að persónufrelsi og mannréttindum. Friðjón reynir með ýmsu móti að slá ryki í augu fólks og snúa út úr gagnrýnisröddum. Annríkið virðist því ekki vera jafnmikið á vefdeild dómsmálaráðuneytisins.

Stjórnarliðar í SUS hafa tjáð mér að alla þá viku sem leið frá því fyrst var haft samband við formann SUS vegna málsins og þangað til stjórnarfundur var haldinn hafi hvorki verið sendur póstur né hringt út í stjórn eða framkvæmdastjórn sambandsins vegna málsins. Þvert á móti hafi það verið landbúnaðarmál sem brunnu heitast á mönnum í póstsendingum þessa daga!

Örfá skemmd epli
Ég vil taka það fram að gagnrýni mín á forystu SUS á ekki við alla stjórnina, því þar er margt gott fólk. Heldur fyrst og fremst á formanninn og 2. varaformann, sem báðir eru starfsmenn dómsmálaráðuneytisins. Hafi þeir ekki haft vilja eða getu til að taka frumkvæði í málinu hefðu þeir væntanlega með örfáum símtölum getað fundið einhvern sem hefði getað það. Á tímum farsíma og tölvutækni ættu ungir sjálfstæðismenn ekki að vera dragbítar og hælbítar í málum sem varða frelsi einstaklingsins.

Fleiri stjórnarmenn hafa hamrað á að sambandið – og ekki síst Heimdallur – eigi að vera samviska Sjálfstæðisflokkinn og gagnrýna hann frá hægri. Þegar á reynir varðandi útlendingafrumvarpið, fjölmiðlalögin og hleranir án dómsúrkurðar þá þegja svo þessi miklu undrabörn í frjálshyggju þunnu hljóði.

Það er sorglegt að það skuli koma fyrst núna í ljós að þessir sjálfskipuðu krossfarar fyrir frelsi reynast svo vera klappstýrur og laumuíhaldsmenn eftir alltsaman. Gæti verið að þeir séu að þráast við að koma út úr íhaldsskápnum, berrassaðir í þokkabót? Í það minnsta er ljóst að Sjálfstæðisflokknum og SUS er ekki unnið gagn með svona vinnubrögðum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)