Hriktir í stoðunum

Furðuleg eru þau orð sem stjórn Heimdallar telur nauðsynlegt að falli í framhaldi af fundi um jafnréttismál sem haldinn var á dögunum en ályktun Heimdallar má finna á vef félagsins. Það er líklega einsdæmi í sögu Heimdallar að stjórnin sjái ástæðu til að senda frá sér athugasemd um að tilteknir félagsmenn hafi ekki verið nógu duglegir að mæta á fundi.

HeimdallurFurðuleg eru þau orð sem stjórn Heimdallar telur nauðsynlegt að falli í framhaldi af fundi um jafnréttismál sem haldinn var á dögunum en ályktun Heimdallar má finna á vef félagsins. Stjórn Heimdallar telur greinilega mikilvægara að gagnrýna ummæli og skoðanir einstakra aðila í stað þess að leiðrétta hugsanlegan misskilning þeirra, sem og annarra, til dæmis með því að senda frá sér ályktun um skoðanir stjórnarinnar. Þá er það óskiljanlegt að stjórn Heimdallar finnist það skrýtið að þessir sömu einstaklingar, sem stjórn félagsins braut rétt á síðasta haust, hafi ekki áhuga á að taka þátt í starfi félagsins.

Það sem meðal annars hefur reitt stjórnarmenn Heimdallar til reiði undanfarna daga eru ummæli tveggja Heimdellinga þess efnis að félagið telji að lögleiða beri vændi og einnig ummæli annars þeirra um að félagið vilji afnám fæðingarorlofslaga. Ég tek undir þessi ummæli félaga minna, ég hélt það og held enn þá að þetta séu skoðnir félagsins.

Ástæðan fyrir því að ég hélt það er fyrst og fremst sú að ég hef séð einstaklinga, bæði stjórnarmenn og aðra sem taka þátt í starfi félagsins lýsa eigin skoðunum um þessi mál í fjölmiðlum. Þar sem ég hef ekki orðið vör við að aðrir ,,virkir Heimdellingar” hafi lýst yfir annari skoðun á þessum málum tók ég því sem gefnu að stjórn félagsins væri sömu skoðunar. Ég viðurkenni að ég gæti hafa haft rangt fyrir mér en því miður held ég að svo sé ekki. Það sem verra er að þessar skoðanir eru oft yfirfærðar á alla unga Sjálfstæðismenn og er ég viss um að fæli talsvert af ungu fólki frá því að ganga í flokkinn og taka þátt í starfi hans. Fólk sem á heima í flokknum og myndi sóma sér vel undir merkjum Sjálfstæðisstefnunnar. Þessu til rökstuðnings er einfaldast að benda á fylgi flokksins meðal ungra kjósenda.

Ástæður þess að ég held enn að Heimdallur vilji lögleiðingu vændis og afnám fæðingarorlofslaga er sú að stjórnin sér enga ástæðu til að senda ályktun um hið gagnstæða. Það sem stjórnin hefur um þessi mál að segja er að hún hefur ekkert ályktað um þessi mál, með öðrum orðum að félagið hafi enga skoðun á þessum málum að svo stöddu. Ekki skil ég af hverju fólk sér ástæðu til að sitja í stjórn stjórnmálafélags, sem eðli máls samkvæmt ætti að hafa skoðanir á hitamálefnum þjóðfélagsins, ef það hefur enga skoðun á hlutunum. Mér finnst líklegra að stjórnin þori ekki setja fram sína skoðun um þessi mál.

Það er skringilegt að að saka áðurnefnda einstaklinga um skemmdrverkastarfsemi gegn félaginu á þeim forsendum að þeir séu að gagnrýna félagið og taki ekki einu sinni þátt í starfsemi þess. Af augljósum ástæðum tekur annar ekki þátt, það er vegna þess að sá ásamt fleirum telja fyrrverandi stjórn hafa brotið á sér og félögum sínum þegar gengið var til kosninga í félaginu í haust en svo illa vill til að margir fyrrverandi stjórnarmanna eru einmitt núverandi stjórnarmenn í dag. Það hlýtur að teljast fullkomlega eðlileg ástæða fyrir að hunsa félagið og starfsemi þess. Fróðlegt væri að vita hversu margir aðrir hunsa félagið og skora ég á stjórn félagsins að upplýsa um hversu margir hafi að meðaltali sótt fundi félagsins í vetur. Ef hugur minn reynist réttur að þeir séu sárafáir utan stjórnarmanna er það fyrir neðan allar hellur að taka tvo einstaklinga fyrir, einstklinga sem þora að gagnrýna. Hitt er annað mál að ef menn geta ekki tekið gagnrýni, lært af henni, leitt hjá sér eða svarað á málefnanlegan hátt, ættu menn ekki að vera í stjórnmálum.

Það er líklega einsdæmi í sögu Heimdallar að stjórnin sjái ástæðu til að senda frá sér athugasemd um að tilteknir félagsmenn hafi ekki verið nógu duglegir að mæta á fundi. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að ný og betri stjórn taki við Heimdalli. Stjórn sem þorir að hafa skoðanir og álykta um hitamál í þjóðfélagsumræðunni á hverjum tíma í samræmi við hugsjónir sínar.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.