Innganga í skugga neitunar

Kýpur-Grikkir eru ein tíu nýrra aðildarþjóða Evrópusambandsins. Tyrkneski hluti eyjarinnar fylgir ekki með inn í sambandið þar sem sameiningu þjóðarbrotanna var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu helgi.

Tíu ný aðildarríki munu ganga inn í Evrópusambandið innan fárra daga og þar með verður umfangsmesta stækkun sambandsins hingað til að veruleika. Ný aðildarríki hafa ekki fengið inngöngu í sambandið síðan 1995 er fyrrum EFTA-þjóðirnar Austurríki, Svíþjóð og Finnland gengu þar inn. Eitt þessara tíu nýju Evrópusambandsríkja er gríski hluti Kýpur, en íbúar eyjarinnar höfnuðu sameiningu grísku og tyrknesku þjóðarbrotanna í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýliðna helgi eins og kunnugt er. Bæði Kýpur-Grikkir og Kýpur-Tyrkir þurftu að samþykkja tillöguna til þess að af henni gæti orðið, en 76% gríska hlutans sagði ,,nei” á meðan 65% tyrkneska hlutans samþykkti hana. Þeir síðarnefndu munu því ekki ganga inn í Evrópusambandið þann 1. maí næstkomandi.

Ráðamenn víða um heim hafa lýst yfir miklum áhyggjum af niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og er það engan að undra því ósjaldan hefur upp úr soðið á milli gríska og tyrkneska hlutans. Kýpur var bresk nýlenda á fyrri hluta síðustu aldar, en eftir margra ára blóðug átök grískra Kýpurbúa, sem kröfðust sameiningar við Grikkland, við tyrkneskan minnihluta var Kýpur lýst sjálfstætt lýðveldi árið 1960. Þremur árum síðar skall á borgarastyrjöld að nýju og voru friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna sendar inn í landið. Valdarán þjóðvarðliðsins undir forustu grískra herforingja árið 1974 leiddi til innrásar Tyrkja og skiptingar eyjarinnar. Tyrkneski hlutinn lýsti svo yfir stofnun tyrknesks sambandsríkis ári síðar og árið 1983 var það lýst sjálfstætt lýðveldi, sem Tyrkland eitt ríkja viðurkennir.

Þegar Kýpur-Grikkir hófu samningaviðræður við Evrópusambandið árið 1998 um hugsanlega inngöngu var það gert í andstöðu við Kýpur-Tyrki, sem vildu lausn á deilu brotanna áður en að slíkum áformum gæti orðið. Efnahagsleg staða þjóðarbrotanna er ólík, Kýpur-Tyrkir hafa sætt viðskiptaþvingunum og stóla á mikla efnhagslega aðstoð frá Tyrklandi. Hætta er á að efnahagslegt bil geti enn aukist við inngöngu gríska hlutans í Evrópusambandið.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað reynt að miðla málum á milli þjóðarbrotanna, nú síðast með tillögunni sem kosið var um um síðustu helgi. Leiðtogi Kýpur-Grikkja, Tassos Papadopoulos, og leiðtogi Kýpur-Tyrkja, Rauf Denktash, sættust á málamiðlunartillögu Kofi Annans, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, í febrúar síðastliðnum. En tillagan virðist hins vegar ekki hafa átt upp á pallborðið hjá gríska hluta eyjarinnar.

Kofi Annan sendi frá sér yfirlýsingu eftir atkvæðagreiðsluna, þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum að af sameiningunni hefði ekki orðið. Hann jafnframt hrósaði Kýpur-Tyrkjum fyrir að veita tillögunni brautargengi þrátt fyrir að ýmsar fórnir fælust í því fyrir þá. Guenter Verheugen, sem fer fyrir stækkunarmálum innan Evrópusambandsins, harmaði niðurstöðuna og kvað skugga liggja yfir inngöngu Kýpverja inn í sambandið. Þá taldi hann að finna þyrfti fullnægjandi lausn á efnahagslegri einangrun Kýpur-Tyrkja. Tassos Papadopoulos lagði hins vegar áherslu á að Kýpur-Grikkir hefðu einungis hafnað þessari tilteknu tillögu en væru ekki mótfallnir sameiningaráformum.

Friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna er enn á Kýpur, en vera þess hefur verið framlengd til 15. júní í sumar. Hvað gerist eftir það er óvíst, en skiljanlegt er að gremja Kýpur-Tyrkja, sem samþykktu tillöguna og eftir sitja, er nokkur. Úrslit atkvæðagreiðslunnar um helgina eru vissulega vonbrigði fyrir þá, sem vonuðust eftir lausn á málum þessara tveggja þjóðarbrota, er deilt hafa um áratuga skeið.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)