Björgum Tíbet – áður en það verður um seinan

Á meðan augu heimsins beinast að Miðausturlöndum og almenningsálitið fordæmir þá kúgun sem þar viðgengst, eiga sér stað enn hryllilegri atburðir í hinu forna menningarríki Tíbet. Herferð kínversku ríkisstjórnarinnar á hendur hinni friðsömu fjallaþjóð er miklu nær því að vera nauðgun en kúgun. Í meira en fimmtíu ár hefur tíbetska þjóðin mátt þola hrottalegar aðfarir risans í austri. Kínverjar halda því jafnan fram að málefni Tíbets séu innanríkismál Kína og ekki verður séð að ráðamenn á Vesturlöndum hafi haft nokkuð út á þær skýringar að setja.

Á meðan augu heimsins beinast að Miðausturlöndum og almenningsálitið fordæmir þá kúgun sem þar viðgengst, eiga sér stað enn hryllilegri atburðir í hinu forna menningarríki Tíbet. Herferð kínversku ríkisstjórnarinnar á hendur hinni friðsömu fjallaþjóð er miklu nær því að vera nauðgun en kúgun. Í meira en fimmtíu ár hefur tíbetska þjóðin mátt þola hrottalegar aðfarir risans í austri. Kínverjar halda því jafnan fram að málefni Tíbets séu innanríkismál Kína og ekki verður séð að ráðamenn á Vesturlöndum hafi haft nokkuð út á þær skýringar að setja.

Eftir að kommúnistar náðu völdum í Kína árið 1949 varð það fljótlega yfirlýst stefna stjórnvalda í Peking að Tíbet væri hérað í Kína. Á næstu tíu árum eftir valdatökuna saumuðu kínversk stjórnvöld sífellt meira að Tíbetum og árið 1959 varð leiðtogi Tíbeta, Dalai Lama (hinn heilagi gimsteinn) að yfirgefa landið eftir blóðugt hernám kínverska alþýðuhersins. Síðan þá hefur Tíbet í raun verið hernumið af Kínverjum sem staðið hafa fyrir grimmdarlegri kúgun á þessari friðsömu þjóð. Þúsundir hafa verið drepnar, fleiri hafa horfið og enn fleiri fangelsaðir og pyntaðir.

Það tók þjóðir Vesturlanda ekki nema örfáar vikur að bregðast við hernámi Saddams Husseins í Kúvæt. Hann hélt því fram, rétt eins og Kínverjar gera með Tíbet, að Kúvæt væri hérað í Írak og aðrar þjóðir ættu ekki að blanda sér í írösk innanríkismál. Einhverra hluta vegna gleyptu ráðamenn á Vesturlöndum ekki við þessum skýringum Saddams en þeir hafa hins vegar gert það í tilviki Kínverja og Tíbets.

Röksemdir Kínverja eru einnig þær sömu og röksemdir Slobodans Milosevic og Radovans Karadic fyrir stríðsglæpum sínum á Balkansskaga – innanríkismálefni. Milosevic bíður nú dóms fyrir sérstökum stríðsglæpadómstól í Haag og Karadic er eftirlýstur og hundeltur um alla Bosníu. Síðdegis í dag kemur Jiang Zemin, forseti Kína, í opinbera heimsókn hingað til lands. Ólíkt þeim Milosevic og Karadic fer Jiang Zemin frjáls ferða sinna um hinn vestræna heim og er meira að segja hvarvetna auðfúsugestur stjórnvalda.

Undanfarna mánuði og í raun síðustu árin hefur um fátt verið meira fjallað en baráttu Palestínumanna gegn hernámi Ísraelsmanna. Fjölmargir þjóðarleiðtogar og meira að segja utanríkisráðherra Íslands hafa beitt sér málinu og reynt að leita lausnar. Þótt sumum finnist eflaust ekki nóg um eru Ísraelar beittir þrýstingi á alþjóðavettvangi og Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt ályktanir þess efnis að Ísraelar eigi að hverfa frá hernumdu svæðunum

Alþjóðasamfélagið hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að koma hinum kúguðu Tíbetum til hjálpar, en þó er kúgun þeirra enn hryllilegri en sú sem Palestínumenn hafa mátt þola. Tíbetar eru Búddatrúar og valdbeiting brýtur í bága við grundvallarskoðanir þeirra. Þeir hafa því ekki haldið uppi vopnaðri andstöðu gegn hernámi Kínverja heldur beitt sér friðsamlega og fer þar fremstur í flokki áðurnefndur Dalai Lama. Palestínumenn hafa hins vegar tekið upp þann sið að sprengja saklaust fólk í loft upp með reglulegu millibili og þá leggur heimsbyggðin við hlustir.

Á meðan heimsbyggðin er upptekin við alþjóðlega baráttu gegn hryðjuverkum og endalausum deilum fyrir botni Miðjarðarhafs eru Kínverjar smám saman að komast upp með það, í skjóli hárra tinda Himalaya-fjallgarðsins, að útrýma einni elstu menningarþjóð heims. Síðan 1992, um líkt leyti og núverandi forseti Kína, sem lendir á Keflavíkurflugvelli síðdegis, komst til æðstu metorða í Kína, hafa kínversk stjórnvöld með markvissum hætti flutt meira en sjö milljónir Kínverja til Tíbet. Tíbetar eru því orðnir minnihlutahópur í sínu eigin landi og innlimun Tíbets í Kína er næstum fullkomnuð.

Íslenskum stjórnvöldum gefst um helgina upplagt tækifæri til að ganga fram fyrir skjöldu vestrænna þjóða og krefjast frelsis og sjálfstjórnar til handa Tíbetum. Vonandi láta íslenskir ráðamenn það tækifæri sér ekki úr greipum renna.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.