Frestum kosningum

Tíðindi síðustu vikna frá Afganistan hafa ekki verið ánægjuleg. Deilur á milli héraðshöfðingja hafa blossað upp með þeim afleiðingum að tugir manna hafa farist. Afganska stjórnin virðist veikburða og brá á það ráð að fresta fyrirhuguðum kosningum um nokkra mánuði. Við nánari athugun gætu það hins vegar reynst bestu tíðindi sem borist hafa frá Afganistan í lengri tíma.

Þegar Talibanastjórninni hafði verið komið frá völdum hófst þegar í stað undirbúningur kosninga í Afganistan. Stjórnin átti að vera hjá fólkinu sjálfu, en ekki erlendum leppherjum. Stærsti kosturinn við slíkar áætlanir er sá að þá hafa menn ákveðinn ramma til að vinna eftir. Ef kosningar eru fyrirhugaðar á ákveðnum tímapunkti þá hlýtur ákveðinni undirbúningsvinnu að ljúka fyrir þann tíma? Reyndar er staðreyndin sú að fátt hefur verið gert til að tryggja að kosningar í Afganistan geti farið fram með eðlilegum hætti. Þess vegna mátti búast við enn frekari deilum á næstu mánuðum hefði kosningum ekki verið frestað.

Í hefðbundnum kosningum í ríkjum sem byggja á fulltrúalýðræði kýs almenningur eftir mismunandi skoðunum og væntingum. Í flestum ríkjum má finna ákveðnar klofningslínur, á milli borga og sveita, trúarhópa, stétta eða jafnvel þjóðfélagshópa. Þar sem staða ákveðins hóps er sérstaklega slæm hafa blossað upp harðar deilur, til að mynda á Norður-Írlandi þar sem að írskir kaþólikkar horfðu fram á misbeitingu valdsmanna í þágu mótmælendatrúaðs minnihluta. Allar þessar klofningslínur, og reyndar fleiri til, má finna í Afganistan. Hollusta fólksins nær ekki til ríkisins eða þjóðarinnar. Hún nær til fjölskyldunnar, höfðingja ættarinnar og að sumu leyti til þjóðernis. Í landinu má finna fjóra ráðandi þjóðernishópa sem allir hafa gert tilkall til ákveðins hluta valdsins.

Deilurnar sem blossuðu upp í Herat á dögunum koma fæstum á óvart sem þekkja til á svæðinu. Í kringum borgina ríkir Ismail Khan, einn af afgönsku skæruliðunum úr stríðinu gegn Sovétríkjunum. Stuðningur við hann kemur ekki hvað síst frá Íran, en landamæri ríkisins liggja að vesturhluta Afganistan. Frá lokum stríðsins gegn Talibönum hefur hann ráðið yfir eigin her, auk þess sem hann fær miklar tekjur af verslun við Íran. Skattar af versluninni hafa ekki náð til Kabúl og hefur það verið þyrnir í augum Hamid Karzai og ríkisstjórnar hans. Þegar tilraunir hafa verið gerðar til að minnka völd hans blossa upp deilur á svæðinu.

Sömu sögu má segja frá öðrum svæðum landsins þótt fæstar berist þær vestrænum sjónvarpsáhorfendum. Í suðurhluta Afganistan ríkir lögleysa. Hvorki alþjóðlegar hjálparstofnanir né hermenn treysta sér til að sinna mikilvægum verkefnum á svæðinu. Uppbygging hefur því verið lítil, sérstaklega þar sem algengt er að hjálpargögnum frá Kabúl sé rænt á hættulegum þjóðvegum. Tilgangslítið væri að boða til kosninga á svæðum þar sem meirihluti almennings kýs í samræmi við skoðanir höfðingjanna.

Ekkert fullkomið manntal er til í Afganistan þótt að mörgu leyti hafi gengið vel að búa það til undanfarna mánuði. Ef engin þjóðskrá er til, hvernig á þá að útbúa kjörskrána? Hugmyndir hafa verið á reiki um það að láta fólk skrá sig um leið og það mætir til að kjósa. Stuðningsmenn jafnréttis kynjanna geta ímyndað sér hvort afganskar konur til sveita eigi ekki eftir að flykkjast að kjörstöðum í andstöðu feðra eða eiginmanna. Þar fyrir utan er réttarríkið enn mjög ófullkomið í landinu. Dómstólar eru ekki virtir nema að takmörkuðu leyti og mál hafa komið upp þar sem dæmt er í samræmi við trúarhefðir en ekki nýsamþykkt lög ríkisstjórnarinnar. Erfitt væri að kæra niðurstöðu kosninga til óháðra dómstóla.

Þótt svört mynd hafi verið dregin upp af ástandinu er það bjargföst trú þess sem hér skrifar, að umbætur í landinu gangi betur en vænta mátti. Karzai sýndi mikinn skilning á hugarfari landsmanna þegar hann frestaði kosningum. Þær valda óþarflega miklum titringi á sama tíma og samvinna skiptir höfuðmáli. Í frestuninni fellst því enginn ósigur lýðræðis, heldur miklu fremur sigur þeirra lýðræðislegu gilda sem eru nauðsynlegir undanfara kosninga. Stefnt er að því að tryggja betur brothættan friðinn í landinu, auka virðingu fólks og þekkingu á lögunum sem og að minnka smátt og smátt ægivald ættbálkanna. Slík vinna tekur tíma. Mun lengri tíma en vestrænir stjórnmálamenn og fjölmiðlar eru tilbúnir að veita. Fái Afganir frið til að haga sínum málum í samræmi við þarfir þjóðarinnar, en ekki í takti við óskir Vesturveldanna, gætu þeir uppskorið frið í landinu.

Sömu sögu má segja frá Írak. Halda lesendur þessa pistils að það sé tilviljun að deilur í landinu harðni þegar við blasir að Írakir fái einhvers konar sjálfsstjórn í júní? Gæti verið að deiluaðilar vilji treysta sína stöðu þannig að þeir fái það sem þeir telji vera verðskuldaðan hluta valdsins? Þegar miðstjórnarvald er fjarlægt, í hvaða ríki sem er, má búast við því að ákveðnir hópar leggi allt í sölurnar til að öðlast völd. Annað hvort vegna þess að þeir höfðu þau áður, eða einmitt vegna þess að þeir höfðu þau ekki. Þegar við blasir að þeir fái ekki vald í samræmi við væntingar er auðveldast að blása til ófriðar gegn sameiginlegum óvini. Í tilfelli flestra Íraka eru það Bandaríkjamenn sem eru hinn sameiginlegi óvinur.

Lausnin er því sáraeinföld en þó óframkvæmanleg vegna loforða Vesturveldanna. Best væri að fresta öllum áætlunum um valdaframsal þar til að Írakar geta sameinast um ákveðinn stjórnanda, líkt og Afganir gerðu, eða þar til að stöðugleika hefur verið náð í landinu. Miðað við þá fjölmiðlaathygli sem Íraksdeilan fær og þá staðreynd að ákveðnir þjóðhöfðingjar Vesturlanda horfa fram á kosningar næsta árið, eru nánast engar líkur á því að farið verði eftir þessari tillögu.

Eitt gott hefur þó hlotist af vaxandi átökum í Írak. Afganir hafa fengið frið til að sinna sínum málum án þess að smásjá umheimsins grandskoði hvert einasta skref. Afganistan er komið úr tísku á Vesturlöndum, þjóðin þarf sjálf að glíma við vandamálin sem hafa hrannast upp á síðustu áratugum. Eftir nokkur ár, þegar við lítum til baka, gæti það einmitt reynst hafa verið heillaskrefið sem leiddi til friðar í ríkinu.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)