Forseti Íslands verði kjörinn í tveimur umferðum

Embætti forseta Íslands virðist Deiglupennum hugleikið um þessar mundir enda standa forsetakosningar fyrir dyrum í júní. Í þessum pistli verður m.a. vikið að þeirri óeðlilegu reglu að ekki þurfi meirihluti kjósenda að standa að baki forsetaefni til að það nái kjöri. Færð verða rök að því að eðlilegra sé að forseti Íslands sé kjörinn í tveimur umferðum.

Í stjórnarskránni er þá reglu að finna í 5. grein að sá sem flest atkvæði fær í forsetakjöri skuli hljóta embættið. Getur reglan auðveldlega leitt til þeirrar niðurstöðu að sá sem nær kjöri hafi minnihluta þjóðarinnar á bak við sig. Þetta gerðist bæði árið 1980 og 1996. Árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin með 33,8% gildra atkvæða og Ólafur Ragnar Grímsson árið 1996 með 41,4% gildra atkvæða. Hugsa mætti sér enn öfgafyllri dæmi þar frambjóðendur væru margir og enginn skæri sig úr hvað fylgi varðaði. Þannig gætu menn náð kjöri með innan við 20% atkvæða að baki sér.

Fullyrða má að regla þessi sé ekki alls kostar eðlileg, sérstaklega í ljósi þess að forseti fer ásamt Alþingi með löggjafarvaldið skv. 2. gr. stjórnarskrár. Vegna þessarar reglu hafði annar handhafi löggjafarvalds hérlendis minnihluta þjóðarinnar á bak við sig á árunum 1980-1984 og 1996-2000, eða þar til forsetarnir urðu sjálfkjörnir.

Eðlilegra væri að forsetakjör færi fram í tveimur umferðum, þannig að í seinni umferð yrði kosið milli tveggja efstu manna eftir fyrri umferð. Stjórnarskrárnefnd Alþingis veturinn 1943-1944 athugaði þetta rækilega. Varð niðurstaða hennar sú regla sem nú gildir. Var tillaga um þá reglu flutt í trausti þess að þjóðinni tækist að fylkja sér þannig um forsetaefni að atkvæði dreifðust ekki úr hófi fram, eins og segir í áliti nefndarinnar.

Annað atriði sem gagnrýna má er það hversu fá meðmæli þarf til að bjóða sig fram til embættis forseta. Skv. 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar þarf forsetaefni meðmæli minnst 1500 en mest 3000 kosningabærra manna. Ákvæði þetta var sett þegar Íslendingar voru tæplega 128.000 talsins. Nú eru Íslendingar vel yfir 290.000. Í ljósi þessa mætti halda því fram að forsetaefni ætti að þurfa nú um stundir um 4000 til 6000 meðmæli til að bjóða sig fram, ef allt væri eðlilegt. Slíkt myndi auðvitað bitna hart á „smáum“ framboðum, líkt og þeirra Ástþórs og Snorra, sem yrðu þá að hafa sig alla við á börum bæjarins að safna meðmælendum.

Þriðja atriðið sem hugsanlega má gagnrýna í löggjöf um forsetakjör er sú regla að menn verði að vera 35 ára að aldri til að vera kjörgengir til forsetaembættisins. Í riti Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, er þetta skilyrði rökstutt með þeim hætti að ekki þyki hlýða að mjög ungur maður verði forseti, þar sem forseta sé nauðsynleg nokkur reynsla og mannþekking. Þá reynslu öðlist menn naumast fyrr en þeir hafa náð nokkrum aldri. Velta má því fyrir sér hversu sterk rök þetta séu, þegar höfð eru í huga almenn lýðræðisviðhorf og það að kjörgengisskilyrði og kosningaréttur til Alþingis og sveitarstjórna eru miðuð við 18 ára aldur. Þetta hvort tveggja leiðir frekar til þess, en hitt, að miða eigi kjörgengi til embættis forseta Íslands við 18 ára aldurinn.

Af ofangreindu má sjá að það er sitthvað gagnrýnivert í núgildandi löggjöf um kjör forseta Íslands sem vert er að skoða ef og þegar stjórnarskráin verður endurskoðuð.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)