Sjóðakóngarnir

Það eru ekki allir á eitt sáttir við nýgerða kjarasamninga eins og kemur bersýnilega fram í stuttri en forvitnilegri grein atvinnurekandans, Þóris N. Kjartanssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Það eru ekki allir á eitt sáttir við nýgerða kjarasamninga eins og kemur bersýnilega fram í stuttri en forvitnilegri grein atvinnurekandans, Þóris N. Kjartanssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þórir hefur miklar áhyggjur af því að samningarnir muni þvinga framleiðslufyrirtæki til að flytja úr landi vegna hækkandi launakostnaðar – fyrst og fremst vegna kostnaðar af launatengdum gjöldum. Samningar virðast að hans mati þjóna þeim tilgangi að efla lífeyrissjóðina enn frekar og stjórnarmenn þeirra sem eru, eins og allir vita, einkum úr hópi verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Eitt af meginatriðum samninganna er einmitt hækkandi framlag í sameignarsjóðina frá atvinnurekendum en gert er ráð fyrir að mótframlag þeirra hækki í 8% um næstu áramót. Þóri finnst það furðulegt að verkalýðsleiðtogar skuli ekki hafa lagt áherslu á að skattleysismörk hækkuðu, enda hefði það skilað launþegum meiri kaupmætti. Ef þátttaka ríkisins í samningaviðræðunum hefði verið með þeim hætti, að skattleysismörk hefðu hækkað, hefði mátt stórhækka lægstu laun og kostnaður atvinnurekenda skilað sér beint til launþega.

Því miður virðast nýir samningar koma samningsaðilum meira til góða en launþegum og efla enn frekar áhrif stjórnarmanna í lífeyrissjóðum.

Verðmæti Símans

Sturla Böðvarsson, samgöngumálaráðherra, hefur tilkynnt að stefnt sé að því að Landssíminn hf. verði seldur næsta vetur. Það er eflaust hægt að velta vöngum yfir því hvers vegna Síminn er ekki seldur nú þegar markaðsaðstæður eru afar hagstæðar fyrir mikið framboð af hlutabréfum. Ríkið vill að öllum líkindum vanda vel til verka þegar félagið verður selt með það að leiðarljósi að fá eins hátt verð og hægt er. Verðmæti bankanna hefur snarhækkað eftir að ríkið for út úr rekstri þeirra og ekki vilja menn selja Símann á undirverði. En þar með er ekki sagt að verðið á Símanum verði hærra næsta vetur en það er í dag. Verðmæti félagsins í dag á opna tilboðsmarkaðnum er um 52 milljarðar en setja verður fyrirvara á verðmiðann þar sem verðmyndun á opna tilboðsmarkaðnum er mjög óskilvirk sökum lítils umfangs viðskipta og mikils munar á kaup- og sölutilboðum. Það væri vel af sér vikið ef ríkið fengi meira en 52 milljarða. Þó er hægt að taka tillit til að Síminn er að 99% í eigu eins og sama aðilans en óvíst er hvort pólitísk samstaða náist um að selja fyrirtækið til eins kaupanda. Kennitölur félagsins bera þess nokkur merki að það sé hátt metið – VH er rétt um 25 og innra virði hlutafjár er 2,28 (síðasta gengi félagsins er hins vegar 7,4).

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)