Ömurlegar fregnir frá Kósóvó

Í síðustu viku bárust þær voðalegu fregnir að menn væru á ný farnir að drepa hver annan í Kósóvó héraði á Balkanskaga. Þótt ekki sé það í raun hörmulegra að menn drepi hver annan þar eða annars staðar voru tíðindin sérlega uggvænleg sökum þess að flestir gera sér grein fyrir því hversu lítið má út af bera í þeim hluta Evrópu.

Í síðustu viku bárust þær voðalegu fregnir að menn væru á ný farnir að drepa hver annan í Kósóvó héraði á Balkanskaga. Þótt ekki sé það í raun hörmulegra að menn drepi hver annan þar eða annars staðar voru tíðindin sérlega uggvænleg sökum þess að flestir gera sér grein fyrir því hversu lítið má út af bera í þeim hluta Evrópu. Þar þarf ekki mikið til þess að menn fari á ný að berast á banaspjót og þar vantar ekki menn sem eru nógu skemmdir og reyndir í grimmdarverkum til að leiða heilu þjóðirnar í ógöngur.

Síðasta sumar ferðaðist ég til Króatíu á ráðstefnu en hana sóttu fulltrúar frá flestum löndum Evrópu; þar á meðal Serbar, sem fyrir minna en áratug háðu blóðugt stríð við Króata þar sem grimmdarverkin gengu á víxl. Enn eru sárin djúp – jafnvel svo að sums staðar fengu hinir serbnesku gestir ekki afgreiðslu í verslunum og á veitingastöðum. Þrátt fyrir þetta var bræðralag meðal hinna ungu ráðstefnugesta með ágætasta móti.

Í einni skoðunarferð var farið í lítinn bæ þar sem blóðug orrusta hafði átt sér stað og hundruð manna fallið. Þar stóðu enn húsarústir sundurskotnar og var okkur gestunum sagt frá því hvaða hús hefði verið setið um, hvar leyniskyttur hefðu búið um sig og fleiri þess háttar herfræði sem okkur Íslendingunum var vitaskuld áfaklega framandi. Á einum stað í þessum bæ stóðu nokkrar fallbyssur til menja um átökin og þótti flestum íbúum norður og vesturhluta Evrópu þetta vera hin ágætasta sýning – enda vopnin býsna meinlaus að sjá úti á hljóðlátum engjunum á blíðviðrisdegi í júlímánuði.

En byssurnar höfðu önnur áhrif á þá sem höfðu raunverulega séð tilgang þeirra. Á meðan óvitarnir frá lukkulegu löndunum létu taka myndir af sér við fallbyssurnar stóðu félagar okkar frá Serbíu við rútuna í einum hóp og grétu.

Þegar ráðstefnugestirnir áttuðu sig á þessu kom nokkuð fát á þá flesta en um leið vöknuðu þeir til umhugsunar um að kúlnagötin í veggjunum voru ekki til skrauts heldur hafði hverri kúlu verið skotið með þeim ásetningi að meiða og drepa óvininn.

Við akstur frá þessum bæ um friðsælar sveitir Króatíu sá maður gamalt fólk sitja makindalega í skugganum frá sólinni – og gat vart varist þeirri tilhugsun að sumt þeirra hefði upplifað það þrisvar eða fjórum sinnum að fá boð um það að nú væri komið stríð – og allir þyrftu að vígbúast. Þetta fólk hafði margt farið sjálft í búning og sett byssu á öxl og drattast lafandi hrætt út í óvissu stríðsins. Mennirnir þurftu að kveðja grátandi konurnar og undrandi börnin – og sumir félaganna og bræðranna dóu í þessum stríðum; kannski einhverjir synir og dætur líka.

Og nú fær þetta gamla fólk einu sinni enn að heyra þær fréttir að ófriðvænlegt sé í næsta nágrenni þeirra. Þar séu menn byrjaðir að drepa hver annan á ný. Sín á milli talar það um það hvort það sé nú að koma nýtt stríð – og veltir því vafalaust fyrir sér hversu mörgum börnum og barnabörnum það eigi eftir að sjá eftir í tilgangslaus stríð áður en það hrekkur upp af.

Sem betur fer er samfélagi þjóðanna mikið í mun að koma í veg fyrir að nýtt stríð blossi upp á Balkanskaga en lítið má út af bregða. Atvikið í síðustu viku sýnir það.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.