Krónur á hvern kjörinn þingmann

sdfdÁ þessum síðustu og verstu tímum er fátt mikilvægara en að finna sjálfan sig. Sumir gera betur en aðrir í þeim efnum og finna sjálfa sig allt að því 54 sinnum í röð.

Dave Gorman er sniðugur strákur þrátt fyrir að hann gangi hugsanlega ekki alveg heill til skógar, blessaður!

Til að gera langa sögu stutta, þá er Dave Gorman breskur grínisti, sem fór í veðmál við félaga sinn um að hann gæti haft upp á öllum alnöfnum sínum í heiminum. Samtals 54 talsins. Gorman er augljóslega ekki með öllum mjalla. Í ríflega sex mánuði endasentist hann heimshorna á milli með þáttagerðamönnum BBC sem kvikmynduðu leitina miklu og gerðu úr henni vinsælan sjónvarpsþátt. Takmark Dave Gorman var vitanlega að finna og ræða við alla alnafna sína, en hliðarmarkmið hans var að gera það í sem fæstum skrefum — eða í sem fæstum kílómetrum á hvern fundinn Dave Gorman.

Þessari mæliaðferð er gaman að beita á ýmsa hluti. Til dæmis birti Fjölmiðlavakt IMG Gallup nýlega tölur yfir auglýsingakostnað á hverja selda bifreið á Íslandi. Kostnaður var lægstur á hverja selda Toyota-bifreið, tæplega 17.000 krónur, en hæstur var hann ríflega 119.000 krónur á hverja selda Citröen-bifreið. Þið skiljið hvað ég er að fara …

Viðlíka reiknikúnstir er hægt að heimfæra yfir á þingflokkana og í senn fræðandi og niðurdrepandi að komast til botns í því hve margar krónur kostar eiginlega að fá hvern kjörinn þingmann inn á Alþingi. Pistlahöfundi og öðrum dyggum aðdáendum Kristins H. Gunnarssonar gæti sundlað við fjárhæðinni og því mikilvægt að fara að öllu með gát!

Höfundur efast um að háar fjárhæðir myndu fást fyrir Mörð Árnason á frjálsum uppboðsmarkaði. Fyrsta boð 300 krónur?
—Seldur!

Frjálslyndir fengu fjóra menn kjörna, þannig að kostnaður á hvern kjörinn þingmann þeirra var 3.522.185 krónur. Vinstri grænir eyddu samtals 17.190.297 krónum í kosningabaráttu sína, sem jafngildir um 3.438.059 krónum á hvern kjörinn þingmann. Þannig að grænir þingmenn eru að jafnaði 84.126 krónum ódýrari en frjálslyndir. Innan Samfylkingarinnar kennir einnig ýmissa grasa. Kostnaður hennar vegna síðustu Alþingiskosninga var rétt um 81 milljón eða um 4.050.000 krónur á hvern kjörinn þingmann — en þá er reyndar ekki búið að reikna inn kostnað fyrir leigubíl til Keflavíkur og flugmiða til Lundúna fyrir stjörnu flokksins, sem hrapaði eftirminnilega til jarðar laust eftir kosningar.

Ef flokkarnir væru séðir myndu þeir eignfæra þennan kostnað sem þróunarkostnað eða jafnvel sem viðskiptavild. Þannig liggur fyrir að þingmenn eru ekkert annað en vörur sem flokkarnir þurfa að venja neytendur smám saman á. Reyndar misgóðar vörur og sumar þeirra sviknar.

Þannig er ég ekki viss um að mikið myndi fást fyrir Mörð Árnason á frálsum uppboðsmarkaði. Þeim mun meira myndi reyndar fást fyrir Guðjón A. Kristjánsson — enda á afbragðsgóðu kílóverði. Hvað Helga Hjörvar varðar, mætti ætla að hann væri blautur draumur sérhvers endurskoðanda, enda má afskrifa hugmyndir hans að fullu jafnharðan og þær fæðast!

En kostakaup eru fáséð á eyrinni. Ef menn setja magn og gæði í sama rekka mætti færa sannfærandi rök fyrir því að bestu kaupin væri að finna í Steingrími J. Sigfússyni. Ef við tökum inn enn einn mælikvarðan og deilum þeim 3.438.059 krónum, sem kostaði að fá Steingrím kosinn, með orðafjölda hans á árinu fáum við ískyggilega lága fjárhæð. Ef við hins vegar deilum orðafjölda Gunnars Ölygssonar á Alþingi upp í kostnað vegna kosningar hans – fáum við glæpsamlega háa fjárhæð!

Hugmyndir manna eru líka misjafnlega verðmætar. Í þessu samhengi þykir pistlahöfundi óheppilegt að verðleggja hugmyndir Frjálslyndra á brottkasti mjög hátt enda ekki mjög sannfærandi þegar menn segja eitt en gera annað. Brottkast er ekki til eftirbreytni — og þannig tók steininn úr þegar fulltrúi Frjálslyndra í Útvarpsráði kastaði sjálfum sér fyrir borð á flokksskútunni vegna ummæla fyrsta stýrimanns!

Sjálfsbrottkast?

Auðvitað er vafasamt að finna meðalkostnað og ætla að það sé beinn kostnaður við hvern kjörinn þingmann. Í kosningabaráttu er ríkari áhersla lögð á suma umfram aðra og þannig segir það sig sjálft að milljónum var ausið í auglýsingar á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á meðan Katrín Júlíusdóttir fékk kannski í mesta lagi klippingu og litun á kostnað flokksins. Reyndar virðist mörgum sem sú hárgreiðsla hafi tekið óratíma, enda má af fjölmiðlaumfjöllun um þingkonuna knáu ráða, að hún eyði meiri tíma í hárgreiðslustól en hún gerir nokkru sinni í þingstól.

Ekki er vitað hve hárri fjárhæð Sjálfstæðisflokkur varði í kosningabaráttuna. Ætla má að sú fjárhæð hafi verið á svipuðu róli og hjá Samfylkingu, þannig að kostnaður á hvern kjörinn þingmann Sjálfstæðisflokks hefur verið í kringum 4.000.000 að þessum forsendum gefnum.

Verst þykir pistlahöfundi þó að Framsóknarflokkurinn skuli ekki birta kostnað sinn vegna kosninganna. Eins og flestir tóku eftir auglýsti flokkurinn gríðarlega og síst minna en Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. Framsókn fékk hins vegar aðeins 13 þingmenn kjörna þannig að kostnaður á hvern kjörinn Framsóknarmann, ef við miðum við sama kostnað og hjá Samfylkingu, nam 6.230.769 krónum. Menn geta svo deilt um það hvort þetta er skynsamleg nálgun. Alla vegana eru neðri mörkin ekki algalin.

Það er Birkir Jón Jónsson hins vegar.

Dave Gorman er sniðugur strákur og hugmyndin hans er frábær. Þátturinn hans er samt enn betri og súrralískari hugmynd hefir ekki komið fyrir augu pistlahöfundar. Vegna þessa hyggur hann að í framhaldi af þessum pistli munu þáttagerðauppfinningamenn Skjás eins að öllum líkindum sjá sér leik á borði. Líklegast verður að teljast að þeir api eftir þætti Dave Gorman og hafi samband við Birki Jón Jónsson, þingmann Framsóknar, og fái að fylgja honum eftir í leiðangri um Norðausturland þar sem hann reynir að hafa upp á öllum 54 kjósendum sínum.

Pistlahöfundur efast um að sá þáttur öðlist vinsældir.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)