Minna kólesteról, minni hætta á hjartasjúkdómum.

Niðurstöður sem þessar ætti fólk ekki að láta fram hjá sér fara enda eru hjartasjúkdómar algengasta dánarorsökin í hinum vestræna heimi.

Með því að lækka magn kólesteróls langt fyrir neðan það sem læknar hafa hingað til mælt með má minnka líkur á hjartatruflunum og -áföllum umtalsvert. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Harvard Medical School og greint var frá í síðustu viku. Blaðið New York Times hefur endurtekið fjallað um þessar niðurstöður síðustu vikuna enda eru þær mjög athyglisverðar og geta haft margvíslegar afleiðingar.

Rannsóknin var kostuð af lyfjafyrirtækinu Bristol-Myers Squibb og bar hún saman tvö lyf sem lækka kólesteról, annars vegar lyfið Pravachol frá BMS og hins vegar Lipitor frá Pfizer. Þekkt var að Lipitor væri öflugra í að lækka kólesteról en vonir stóðu til að sýna fram á að Pravachol væri jafn árangursríkt í að minnka áhættu á ýmiss konar hjartakvillum.

Hingað til hafa margar rannsóknir sýnt fram á að hátt kólesterólmagn valdi aukinni hættu á hjartasjúkdómum. Miðað hefur verið við að sjúklingar með meira en 130 milligröm af kólesteróli í centilíter séu með of mikið magn og læknar hafa leitast við að halda magninu innan við 100 milligröm.

Í rannsókninni tóku þátt 4162 manns, allt sjúklingar sem áttu við hjartasjúkdóma að stríða, og var þeim fylgt eftir í tvö ár. Þátttakendur tóku ýmist Pravachol eða Lipitor og lækkuðu þannig kólesterólmagn sitt, að meðaltali í 95 mg/cl hjá þeim sem tóku Pravachol en í 62 mg/cl hjá þeim sem tóku Lipitor.

Niðurstöðurnar voru þær að þeir sjúklingar sem tóku Lipitor voru umtalsvert ólíklegri til að fá hjartaáfall eða þurfa á hjartaaðgerð að halda. Þær gefa því tilefni til að ætla að því minna kólesteról því betra, en ekki aðeins að slæmt sé að vera með „of mikið”.

Yfirmenn Bristol-Myers Squibb voru jafn undrandi og aðrir með þessar niðurstöður og voru að sjálfsögðu allt annað en ánægðir en ákvæði í samningnum við vísindamennina í Harvard tryggði að niðurstöðurnar voru birtar.

Þessar niðurstöður eru líklegar til að hafa margvíslegar afleiðingar í för með sér. Læknar munu að öllum líkindum breyta töluvert þeim aðferðum sem tíðkast hafa hingað til við meðferð á hjartasjúklingum, enda vekja niðurstöðurnar von um að þannig megi draga verulega úr tíðni hjartasjúkdóma.

Auk þess er líklegt að áhrif verði nokkur á pyngju þess sem borgar, hvort sem það er heilbrigðiskerfi, sjúklingur eða sjúkratrygging. Lyf sem þessi eru dýr (árs-skammtur kostar yfir 100.000 kr.) og myndu auka á lyfjakostnað sem hefur þótt nógu hár fyrir.

Einnig vekja þær upp spurningar um æskilegt magn kólesteróls í fullfrísku fólki. Nú þegar mæla margir læknar með að fólk leitist við minnka magnið hvort sem það á við hjartavandamál að stríða eða ekki og hvort sem magnið er mikið eða lítið. Læknar og vísindamenn eru þó sammála um að þörf er á frekari rannsóknum en svo gæti farið að kólesteról-lækkandi lyf verði í framtíðinni hluti af vítamínpakka meðaljónsins.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)